Endalok ný-íhaldsmanna?

Í forsetatíð Bush hefur utanríkisstefnunni verið stjórnað af litlum hópi svokallaðra ný-íhaldsmanna, sem hafa umbylt stærsta og jafnframt eina risaveldi heimsins, yfir í hálfgert skrímsli sem fer sínu fram á alþjóðavettvangi líkt og fíll í postulínsbúð. – Er eitthvað til í þessu? Og er stefna þeirra orðin gjaldþrota eftir hrakfarirnar í Írak?

Kannski ekki alveg. Það er auðveldlega hægt að ofmeta þau áhrif sem ný-íhaldsmenn(neo-conservative) hafa átt að hafa við mótun utanríkisstefnunar í tíð Bush stjórnarinnar. En áhrifin eru samt sem áður til staðar og þá aðallega eftir 11. september þegar hugmyndafræði þeirra fékk aukin hljómgrunn innan stjórnarinnar. Fyrir 11. september hafði Bush tekið lítið tillit til þessa hóps. Í kosningaslagnum gegn Gore árið 2000, talaði Bush um „humble, but strong“ stefnu í utanríkismálum og var sérstaklega gagnrýninn á hugmyndir um „nation-building“ sem er mjög andstætt afstöðu ný-íhaldsmanna. Enda studdu alls ekki allir í hópi ný-íhaldsmanna Bush fyrir kosningarnar árið 2000. John McCain var af mörgum þeirra talin heppilegri frambjóðandi.

Það kom því ekkert á óvart, til að byrja með, að ný-íhaldsmenn voru eingöngu einn hópur á meðal margra annarra, að keppast um að hafa einhver áhrif á utanríkisstefnuna – með frekar litlum árangri. Allt breyttist þetta eftir 11. september. Með því að halda fram skoðunum sem allt í einu virtust hafa mun meiri þýðingu en áður, náðu þeir að nýta sér þessar breyttu aðstæður sér í nyt. Þeir höfðu lengi verið gagnteknir af Mið-Austurlöndum og þeim hættum sem venjuleg fæling dugði ekki til, eins og gereyðingarvopn í höndum hryðjuverkamanna. Hefðbundnir Repúblikanar buðu upp á fáa aðra valkosti fyrir Bush, og þar af leiðandi ákvað hann að taka upp stefnu ný-íhaldsmanna að stórum hluta.

Innrásin í Írak var algjör prófsteinn á stefnu ný-íhaldsmanna. Í um tíu ár höfðu þeir beðið þess að skipta um ríkisstjórn þar. Að vinna sjálft stríðið var auðvelt fyrir Bandaríkin eins og við mátti búast. En það sem mestu máli skipti fyrir málflutning ný-íhaldsmanna, var að enduruppbyggingin í Írak mundi ganga vel. Það hefði án efa hvatt þá til að þrýsta enn frekar á Bush til að taka upp fleiri málefni sem þeir höfðu á dagskrá. En þar sem rauninn hefur verið allt önnur, er ljóst að svo mun ekki verða og í staðin hefur hreyfingin misst mikið af trúverðugleika sínum.

John Ikenberry ritar mikla grein í nýjasta hefti tímaritsins Survival, sem ber heitið „The end of the neo-conservative moment“. Og líkt og nafnið gefur kannski til kynna, fer lítið fyrir fögrum orðum hjá honum í garð ný-íhaldsmanna. Hann færir rök fyrir því, að þær afleiðingar sem utanríkisstefna þeirra hafi haft fyrir Bandaríkin, hafi leitt það í ljós að hún sé orðin algjörlega berskjölduð – og nánast óverjandi.

Ikenberry heldur því fram, að einstrengnisleg og hrokafull afstaða ný-íhaldsmanna, sé á góðri leið með að eyðileggja þá alþjóðaskipan sem hafi verið lagður grunnur að s.l. 50 ár, með Bandaríkin fremst í flokki í þeirri uppbyggingu. Orðstír og traust Bandaríkjanna hafi skaðast það mikið á undanförnum tveimur árum, að Ikenberry telur að langur tími muni líða þangað til hægt verði að bæta að fullu fyrir þennan skaða.

Þrátt fyrir ágreining í einstökum málefnum, álítur Ikenberry að það séu fjögur atriði sem sameini alla ný-íhaldsmenn:

Fyrsta lagi, þá verði Bandaríkin – í alþjóðakerfi sem hefur ekki á neinu yfirríkjavaldi að skipa – að stíga fram sem Leviathan. Nota hernaðarmátt sinn til að leiðrétta rétt frá röngu og koma á friði og stöðugleika þar sem þess er þörf. Og til að geta framfylgt þessu markmiði, er það einfaldlega óhjákvæmilegur kostnaður að Bandaríkin fari ekki eftir sömu reglum og aðrir.

Í öðru lagi, þarf Bandaríkin að efla hernaðarmátt sinn enn frekar og vera tilbúið til að nota hervald sitt í miklu meira mæli, þegar um hagsmuni Bandaríkjanna er að ræða. Á Clinton árunum fór Bandaríkin ekki eftir þessu. Það varð til þess, að mati ný-íhaldsmanna, að hernaðarmáttur Bandaríkjanna var ekki tekin alvarlega. Og þegar óvinurinn er ekki lengur hræddur, er hann líklegri til að gera árás.

Þriðja atriðið lítur að þeim efasemdum sem ný-íhaldsmenn hafa í garð alþjóðastofnanna. Að hata t.d. Sameinuðu Þjóðirnar, virðist á köflum vera nokkurs konar trúarbrögð hjá þessum hópi. Alþjóðastofnanir takmarka fullveldi Bandaríkjanna og hefta þá við að beita valdi sínu. Með tilliti til þess veruleika sem nú blasi við Bandaríkjunum eftir 11. september, þá sé augljóst að ekki er lengur hægt að treysta á hið gamla kerfi, sem byggðist á ákveðnum reglum og lögum og fjölþjóðlegri samvinnu. – Bandaríkin þarf að hafa svigrúm til að grípa til aðgerða og það fljótt.

Í fjórða lagi, hafa þeir þá hugsjón að Bandaríkin eigi að breiða út lýðræði. Og þetta er ekki aðeins spurning um hugsjónina, heldur um leið góð stefna til að tryggja öryggi Bandaríkjanna. En þessi viðleitni þeirra til að fjölga lýðræðisríkjum í heiminum, er ekki eingöngu sú hefðbundna leið þar sem notast er við óbeinar aðgerðir til að styrkja efnahagsþróun og þrýsta á pólitískar umbætur. – Hervald er sömuleiðis nauðsynlegt í þessum tilgangi.

Að mati Ikenberry eru þetta allt saman hugmyndir, sem engar líkur eru á að muni reynast farsælar í átt til árangursríkrar utanríkisstefnu. Alls nefnir hann níu ástæður fyrir því, af hverju hann að telur að svo sé. Án þess að fara yfir þær allar hér, er athyglisvert að líta á nokkrar þeirra.

Að skipta um stjórn í Írak var ekki aðeins spurning um að koma í veg fyrir þá yfirvofandi hættu sem steðjaði af meintum gereyðingarvopnum Íraks. Að bola Saddam Hussein frá völdum, hafði frá sjónarhorni ný-íhaldsmanna einnig önnur markmið: það mundi gefa skýr skilaboð til annarra „öxulveldna hins illa“ að þau ættu von á sömu afleiðingum ef þau reyndu að koma sér upp gereyðingarvopnum. Ennfremur, þá átti stöðugt og lýðræðislegt Írak að hrynda af stað umbótum í öðrum ríkjum Mið-Austurlanda í átt til lýðræðis.

En í stað þess að Íran og Norður-Kórea hafi horfið frá kjarnorkuvopnaáætlunum sínum, virðast þau staðráðnari nú, heldur en áður, í því að koma sér upp slíkum vopnum. Einnig bendir fátt til þess, að einhver þróun sé að verða í átt til lýðræðis á svæðinu. En til að gæta sanngirnis, þá þarf lengri tími að líða svo að hægt sé að dæma endanlega um það.

Það hefur kostað Bandaríkin miklar fjárhæðir að fjármagna bæði stríðið í Írak og enduruppbygginguna þar á eftir. – Mun meiri heldur en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Það átti þó ekkert að þurfa koma neinum á óvart. En er bandarískur almenningur virkilega tilbúin til að standa undir öllum þessum kostnaði? Það eru allavega takmörk fyrir því. Nú þegar hafa skoðanakannanir sýnt, að almenningur telur að kostnaðurinn við að koma á stöðugleika í Írak, sé of hár. Bandaríkin gætu áreiðanlega sent fleiri hermenn til Íraks og aukið enn frekar við fjárhagsstuðing sinn, líkt og ný-íhaldsmenn hafa ítrekað mælt fyrir. En með því, þá eru þeir að horfa framhjá þeirri staðreynd, að bandarískir skattgreiðendur eru ekki tilbúnir til að borga undir dýrt hernám í Írak. Og hvað þá að ætla standa í fleiri slíkum ævintýrum um heiminn.

Annað atriði sem Ikenberry gagnrýnir ný-íhaldsmenn fyrir, er að þeir hafi misreiknað það vald sem þeir telja að Bandaríkin hafi í alþjóðakerfinu. Vissulega kemst ekkert ríki nálægt þeim, í þeim yfirburðum sem þeir hafa á hernaðarsviðinu. En þetta sama á ekki við um á sviði efnahags- og stjórnmála. Þetta kom glögglega í ljós, í aðdraganda Íraks stríðsins, þegar Bandaríkin gat ekki notað vald sitt til að afla sér stuðnings t.d. Rússlands, sem taldi að viðskipta og efnahagstengsl sín við Evrópusambandið væru mikilvægari heldur en við Bandaríkin. Auk þess, þá hafði Bandaríkin ekki það vald sem til þurfti, til að afla sér stuðnings vinaþjóða líkt og Kanada, Mexíkó og Chile.

Tvö ár af stefnu ný-íhaldsmanna hefur sýnt það, að mati Ikenberry, að hún gengur ekki upp. Velgengni Bandaríkjanna eftir seinni heimstyrjöldina byggðist á ákveðnu samkomulagi sem Bandaríkin gerðu við bandamenn sína. Bandaríkin takmarkaði vald sitt til að ná markmiði sínu um aukin stöðugleika í kerfinu. Og þrátt fyrir lok kalda stríðsins, þá halda þeir þessari sömu stefnu áfram. Reyna að fara þannig með vald sitt að það efli stöðugleika í kerfinu í samvinnu við aðra. Setja vald sitt á bakvið alþjóðastofnanir, lög og sáttmála. En í stað þess að halda áfram að byggja á því kerfi sem hefur orðið til á s.l. 50 árum, vilja ný-íhaldsmenn minnka vægi þess. Að fást við hina nýju ógn getur kallað á aukin óstöðugleika í kerfinu, en það sé aðeins nauðsynlegur fórnarkostnaður, að mati þeirra.

Ikenberry fékk lítið hrós frá einum af frumkvöðlum ný-íhaldsstefnunnar, Norman Podhoretz, sem kallaði greinina „fáránlega þvælu“, þegar hann var spurður álits á henni, af blaðinu Financial Times. Hann er eflaust ekki sá eini á meðal þeirra sem hefur þá skoðun. En hvað sem því líður, er ljóst að það verður einhver bið þangað til fleiri stefnumál þeirra verða sett á dagskrá. – Sem betur fer.