Ráðherraleg óhlýðni II

Þann 13. apríl síðastliðinn skrifaði undirritaður grein þar sem fjallað var um umdeilda ráðningu dómsmálaráðherra á hæstaréttardómara í kjölfar úrskurður kærunefndar jafnréttismála. Nú hefur umboðsmaður Alþingis gefið álit sitt á ráðningunni og ekki úr vegi að skoða það einnig.

Kaldar kveðjur

Þann 13. apríl síðastliðinn skrifaði undirritaður grein hér á Deigluna þar sem fjallað var um umdeilda ráðningu dómsmálaráðherra á hæstaréttardómara. Var umfjöllunefnið aðallega úrskurður kærunefndar jafnréttismála og klaufaleg ummæli ráðherra í kjölfarið. Greinin olli töluverðu fjaðrafoki og spunnust skemmtileg skoðanaskipti í kringum hana sem allir aðilar höfðu vonandi gagn og gaman af. Það kom því undirrituðum töluvert á óvart þegar hann frétti að hann hefði fengið heldur kaldar kveðjur á vefsíðu æðsta yfirmanns dómsmála hér á landi. En í ítarlegum pistli sem þar birtist var að finna eftirfarandi málsgrein:

Ég skil ekki í ljósi þessara ummæla og lágmarksþekkingar í lögum, hvernig lögfræðingar eins og Andri Óttarsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sem skrifa á Deiglan.com, og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, geta fullyrt, að ég hafi gerst sekur um lögbrot á grundvelli þessa álits. Unnt er að afsaka Jóhönnu Sigurðardóttur vegna blindu í krafti pólitísks rétttrúnaðar og skorts á þekkingu og þjálfun á þessu sviði. Lögfræðingar hafa ekki slíkar málsbætur, þegar rætt er um lögfræðileg álitamál.

Undirritaður fyrirgaf að sjálfsögðu strax þessar dylgjur frá hinum ágæta flokksbróður sínum því fyrir lá að öll spjót stóðu að dómsmálaráðherra vegna ýmissa vandræðamála. Jafnframt var algjörlega út í hött að taka þessi ummæli persónulega þar sem skotið var fast á hálft lögfræðingatalið í pistlinum fyrir að telja þessa embættisfærslu hans ámælisverða.

Hins vegar verður að viðurkennast að þetta rifrildi æðsta yfirmanns dómsmála við fjölda lögfræðinga olli undirrituðum engu að síður töluverðum áhyggjum. Það er auðvitað persónulegt val dómsmálaráðherra ef hann vill vera að munnhöggvast við einhverja lögmenn og lagaprófessora út í bæ um lögfræði en það hefur ákveðna vankosti. Það má nefnilega færa rök fyrir því að það, að gera lítið úr vægi úrskurðarnefnda í stjórnsýslunni og þeim sem gagnrýna embættisfærslur ráðherra á málefnalegan hátt, sé kannski alveg á mörkunum að vera ráðherra sæmandi og sendi ekki uppbyggileg skilaboð til almennings.

Álit umboðsmanns

Undirritaður varð því ósköp feginn þegar álit umboðsmanns Alþingis kom fram. En eins og kemur fram í 2. gr. laga um umboðsmann Alþingis nr. 85/1997 þá er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.

Þarna var því kominn fram hlutlaus og virtur úrskurðaraðili með sérfræðiþekkingu í stjórnsýslurétti sem gæti höggvið á hnútinn. Eftir þetta þá væri vonandi kominn lögfræðilegur botn í málið og hægt að hætta að þrasa um ráðninguna.

Umboðsmaður ákvað að skoða sérstaklega undirbúning ákvörðunar ráðherra og þar með hvort ákvörðun hans hefði verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Í álitinu kemur skýrt fram að dómsmálaráðherra hafi við valið á hæstaréttardómara ekki fullnægt kröfum 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla né rannsóknarreglunni sem kemur fram í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessi brot fólust meðal annars í því að dómsmálaráðherra hafi ekki athugað hvort þörf væri á Evrópuréttarþekkingu í Hæstarétti, hafi ekki tiltekið að leitað væri eftir þessari þekkingu í auglýsingunni og að hann hafi ekki, að mati umboðsmanns, kannað nægilega þá þekkingu hjá hinum umsækjendunum áður en hann réð í stöðuna.

Þetta mat umboðsmanns er alvarlegt með tilliti til þess að almennt má telja að ráðning á grundvelli skilyrða sem koma ekki fram í auglýsingu, umsagnaraðili um umsækjendur veit ekki af og án þess að kannað sé hvort hinir umsækjendurnir fullnæga skilyrðinu sé skólabókardæmi um brot í stjórnsýslurétti. Vegur þar þyngst rannsóknarregla stjórnsýslulaga, jafnræðisregla sömu laga og sú óskráða meginregla í stjórnsýslurétti að alltaf skuli skipa hæfasta einstaklinginn í embættið.

Viðbrögð ráðherra

Hin barnslega trú undirritaðs um að álitið myndi verða einhvers konar Salomónsdómur í málinu reyndist vera algjör fásinna. Í stað þess að una áliti umboðsmanns og gera viðeigandi ráðstafanir, tók dómsmálaráðherra aftur upp þann vafasama sið að gera lítið úr álitinu og vægi þess, eins og hann hafði gert varðandi úrskurð áfrýjunarnefndar jafnréttismála. Hann hélt því fram að ný sjónarmið hefðu komið fram í álitinu sem hann væri ekki bundinn af. Einnig að álitið væri einungis leiðbeinandi fyrir stjórnvöld í framtíðinni og að það væri ekki afturvirkt.

Maður getur ekki annað en spurt í forundran: Síðan hvenær er það nýtt sjónarmið í stjórnsýslurétti að það eigi að ráða í stöður út frá fyrirfram skilgreindum mælikvörðum á hæfi umsækjenda? Síðan hvenær er það nýtt sjónarmið að kanna eigi hvort allir umsækjendur fullnægi þessum skilgreindu kröfum stjórnvaldsins?

Ráðherra hefði greinilega mátt skoða álit umboðsmanns frá 18. júní 2003 í máli nr. 3490/2002 áður en hann fór fram með gagnrýni sína. En í því áliti var kvartað yfir málsmeðferð dómsmálaráðuneytisins við ráðningu sýslumannsins á Ísafirði og féll eftir að títtnefndur ráðherra tók við ráðuneytinu. Í því áliti tók umboðsmaður sérstaklega fram að þegar svo háttar til að fleiri en einn umsækjandi uppfyllir lágmarkskröfur væri óhjákvæmilegt að fram færi samanburður á milli viðkomandi umsækjenda á grundvelli þeirra sjónarmiða sem byggt væri á. Forsenda þess að slíkur samanburður gæti farið fram væri að þau atriði sem þýðingu hefðu væru upplýst. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga bæri handhafa veitingarvalds að sjá til þess að nægar upplýsingar liggi fyrir um þau atriði.

Það sem er hins vegar merkilegast við þetta eldra mál er að umboðsmaður beinir í lok álitsins þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að þessara sjónarmiða verði framvegis gætt við skipun, setningu eða ráðningu í opinber störf hjá ráðuneytinu.

Þannig að ekki er nóg með að engin ný sjónarmið hafi verið að koma fram varðandi brot á rannsóknarreglunni heldur hafði umboðsmaður sett fordæmi um beitingu hennar í máli gegn dómsmálaráðuneytinu. Það verður engu að síður að benda á að ráðherra hefur ýmislegt til síns máls varðandi svigrúm sitt við val á hæstaréttardómara og vissulega er að finna í álitinu glannalega túlkun á áhrifum tilmæla Evrópuráðsins hér á landi. Hins vegar skipta meintir hnökrar og túlkun á tilmælum Evrópuráðsins engu máli varðandi brot á títtnefndri rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Skuggaleg skilaboð

Menn hljóta að staldra við og spyrja sig hvaða skilaboð æðsti yfirmaður dómsmála hér á landi er að senda út í þjóðfélagið með viðbrögðum sínum. Eru það ekki skilaboð um að helstu úrskurðaraðilar og öryggisventlar borgaranna gagnvart stjórnsýslunni skipti engu máli? Að það sé í lagi fyrir stjórnvöld að fara ekki á nokkurn hátt eftir áliti frá þessum úrskurðaraðilum ef þau eru ekki sammála lögfræðilegri niðurstöðu þess?

Eru ekki skilaboðin sú að þessir öryggisventlar borgaranna séu bara til sýnis og virki ekki í raun?

Það er varla hægt að túlka viðbrögðin á nokkurn annan hátt. En ef til vill er það bara gott að þetta komi upp á yfirborðið svo að almenningur geri sér grein fyrir afstöðu ráðherra í þessum málum. Hins vegar þá gefur það auga leið að þessi skilaboð gera ekki trausti almennings á framkvæmdarvaldinu og stjórnsýslunni neinn greiða.

En við megum ekki gleyma öðru fórnarlambi í þessu öllu saman. Í hvert einasta skipti sem dómsmálaráðherra fer að munnhöggvast við lögfræðingastéttina út af þessu máli beinist kastljósið einnig að umsækjandanum sem var ráðinn. Hann hefur ekkert til saka unnið og ber ekki á nokkurn hátt ábyrgð á framkvæmd ráðningarinnar. Undirritaður og flestir sem hann hefur rætt við innan lögmannastéttarinnar telja að þarna fari vandaður maður sem eigi eflaust eftir að sinna starfi hæstaréttardómara með sóma.

Það er því álit undirritaðs að ráðherra eigi að hætta að berja hausnum í steininn og láta af þessu tuði um niðurstöður úrskurðarnefndanna sem hafa allar verið honum í óhag, semja við þá umsækjendur sem fóru illa út úr þessu og reyna koma á starfsfriði í Hæstarétti. Jafnframt eigi ráðherra og Alþingi að taka ábendingu umboðsmanns Alþingis alvarlega og endurskoða ferlið við ráðningu hæstaréttardómara.

Það þarf að loka þessu máli þannig að allir aðilar geti gengið frá því nokkuð sáttir, en maður hugsar óneitanlega til þess hver viðbrögð ráðherra verða ef og þegar hann fær á sig dóm í Hæstarétti. Fara þá ekki nokkrar vikur í að æðsti yfirmaður dómsmála hér á landi geri lítið úr réttinum og dómi hans?

Það væri til gagns ef dómsmálaráðherra, minn ágæti flokksbróðir, íhugaði alvarlega að láta af árásum sínum á þá úrskurðaraðila sem honum eru ósammála og velti því fyrir sér í alvöru hvort vera kynni að sú gagnrýni sem hann hefur hlotið sé byggð málefnalegum grunni. Það er ekki mönnum til minnkunar að hafa stöku sinnum rangt fyrir sér – en það að læra ekki af reynslunni og hlusta ekki álit annarra er engum hollt.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.