Nýir möguleikar netsjónvarps

Nú á dögunum tilkynnti BBC að þeir væru að fara af stað með nýja dreifingarleið á sjónvarpsefni, í gegnum netið beint til notenda. Notendur geta pantað sér efni að vild og horft á það í sjónvarpinu sínu, tölvuna eða handtölvunni sinni.

Nú á dögunum tilkynnti BBC að þeir væru að fara af stað með nýja dreifingarleið á sjónvarpsefni eða í gegnum netið beint til notenda. Notendur geta pantað sér efni að vild, hvort sem með því að velja ákveðna tegund af efni eða þá að velja ákveðna þætti. Notendur sækja efnið á tölvuna sína og geta svo ákveðið hvað á að gera við það, hvort þeir ætli að brenna það á disk eða hvort þeir vilji horfa á það á skjánum.

Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um stafrænt sjónvarp. Þrátt fyrir að netsjónvarpið sé augljóslega stafrænt er munur á þessu tvennu og ber að varast að rugla þessu saman. Gögnin frá BBC koma í gegnum netið eins og hver önnur gögn (svo sem töluvpóstur og heimasíður). Móttakan fer beint í gegnum tölvuna en ekki í gegnum box, dreifikerfið er netið og efnið fer því ekki í gegnum loftnet, kapal eða gervihnött eins í stafræna sjónvarpinu. Móttakandinn þarf einungis mjög öfluga nettengingu til að geta tekið á móti efninu á ásættanlegum tíma.

Ein aðalástæðan fyrir því að BBC ræðst í þetta núna er sú þróun sem hefur verið undanfarið, en sjónvarpsefni hefur í auknum mæli farið á milli aðila án þess að eigendur hafi nokkra stjórn á því eða fái nokkuð greitt fyrir það. Með háhraða interneti hafa bæði þættir og bíómyndir verið í boði á netinu í miklum mæli, á sömu stöðum og menn sækja ókeypis tónlist. BBC vill með þessu fá fólk frekar til að kaupa efnið á löglegan hátt og fá um leið greitt fyrir efnið sitt.

Stærsta vandamál BBC eru viðtækin en líklega hafa fáir áhuga á því að sitja fyrir framan tölvuna og glápa á lítinn skjá eða eyða tíma í að brenna efnið sjálfir á DVD disk. Hins vegar hefur þróunin orðið á þann veg t.d. í Japan að sjónvarpstæki og tölvur hafa verið að renna saman. Nær helmingur heimila þar hefur aðgengi að sjónvarpi sem getur sótt efni beint á netið og sýnt í sjónvarpinu. Með auknu sjónvarpsefni í boði er líklegt að þessi tækni muni ryðja sér til rúms innan skamms í Bretlandi sem og annars staðar.

Hinn möguleikinn sem BBC hefur horft til eru handtölvur, en á undanförnum árum hafa komið fram fjölmargar tegundir af mp3 spilurum þar sem fólk getur hlustað á tónlist sem það hefur sótt á netið eða tekið af eigin diskum. Handtölvur hafa lækkað mjög mikið í verði en á sama tíma hefur geymslurýmd aukist og þær eru komnar með góða litaskjái. BBC sér það fyrir sér að í sífellt hraðara þjóðfélagi vilji fólk horfa á eigin dagskrá á þeim tíma þegar því hentar. Annað hvort í sjónvarpinu heima hjá sér eða á ferðinni í svona handtölvu.

Með samruna tölva, sjónvarpsins og netsins verður stöðugt erfiðara að hafa eftirlit með þeim sem senda út hreyfimyndir og hljóð annars vegar en hins vegar þeim sem taka á móti því. Þannig gæti Deiglan stofnað sína sjónvarpstöð og sent út efni á netinu án mikilla afskipta stjórnvalda. Áhugasamir gætu tekið við efninu í tölvunni heima hjá sér og horft á það í tölvunni eða handtölvunni sinni án þess að eiga nokkurt sjónvarp. Líklega er styttra í að þetta verði raunhæfur kostur en að landsmenn tileinki sér almennt þriðju kynslóð farsíma.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.