Pólitískur forseti?

Þegar forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tilkynnti að hann hefði ákveðið að sækjast eftir endurkjöri, boðaði hann aukna þátttöku embættisins í almennri umræðu.

Þegar forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tilkynnti að hann hefði ákveðið að sækjast eftir endurkjöri, boðaði hann aukna þátttöku embættisins í almennri umræðu. Með því gaf hann sterklega til kynna áhuga sinn á því að gera embættið pólitískara og hverfa frá þeirri stefnu að forseti Íslands skipti sér ekki af málefnum ríkjandi stjórnvalda.

Víst má telja að Ólafur eigi sigurinn vísan í kosningunum og er þá spurning hvort að hægt sé að túlka úrslitin sem samþykki þjóðarinnar fyrir aukinni þátttöku forseta Íslands í pólitískri umræðu.

Nú þegar einungis eru nokkrar vikur í forsetakosningar má búast við að umræða um frambjóðendur og embætti forsetans eigi eftir að aukast. Þegar hafa þrír einstaklingar boðað hugsanlegt framboð, núverandi forseti Ólafur Ragnar Grímsson, Ástþór Magnússon og Snorri Ásmundsson, þótt ekki sé útséð hvort öllum frambjóðendunum takist að safna þeim 1500 undirskriftum sem þurfa til framboðsins.

Varla er sá maður sem efast eina mínútu um að Ólafur vinni kosningarnar og það nokkuð auðveldlega. Staða hans hlýtur að teljast sterk. Annars vegar vegna þess að ólíklegt er að keppinautarnir njóti nægs trausts til að sigra og hins vegar vegna þess að Ólafur býr að átta ágætum árum í embætti. Hvort sem ástæða þess, að sannfærandi mótframbjóðendur bjóða sig ekki fram, sé þessi sterka staða eða almenn sátt með Ólaf, skal ósagt látið en gera má ráð fyrir að afleiðingin verði sú að lítið muni fara fyrir kosningunum í sumar.

Almennt má líta á kosningar, eins og forsetakosningar, sem umleitun frambjóðenda um að fá umboð kjósenda til að sinna ákveðnum verkum í krafti embættis. Þannig hafa frambjóðendur iðulega sett ákveðin mál á oddinn og túlkað hagstæð úrslit sem samþykki kjósenda á þeim. Þessa túlkun ber þó að fara varlega með því óhætt er að fullyrða að sjaldnast samþykkja kjósendur allan málflutning frambjóðenda og alls ekki má líta á kosningasigur sem opinn tékka fyrir öllum kosningaloforðum. Taka þarf tillit til margra þátta eins og annarra kosningamála, mótframbjóðenda og hvort skýrt var kveðið um hvernig útfærsla loforða yrði háttað.

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti aukna þátttöku forsetans í þjóðfélagsumræðu var ekki ljóst hvað hann átti við. Í umfjöllun Árna Þórarinssonar í Tímariti Morgunblaðsins í gær kom fram að framboð Ólafs til forseta 1996 hafi verið pólitískt herbragð sem endaði öðruvísi en ætlað var og ekki hafi verið ætlunin að hverfa úr hringiðu stjórnmálanna. Takmarkið var sameining vinstri manna og væntanlega ríkisstjórn jafnaðarmanna.

Metnaður Ólafs til að ná þessu takmarki er án efa enn fyrir hendi og því eðlilegt að hann leiti leiða til að vinna því framgang. Í því ljósi má velta fyrir sér hvort forsetinn hafi tekið sér svo rúman tíma til að tilkynna framboðið út af vangaveltum um endurkomu í almenn stjórnmál. Yfirlýsing hans um losun á málbeini forsetans í kjölfar óskar um endurkjör gæti jafnframt verið angi af sama meiði.

Búast má við að menn hafi mismunandi skoðanir á því hvort forsetinn eigi að skipta sér af pólitískum málefnum og hvort t.d. fréttamenn geti fengið álit forsetans á deilum innan Alþingis. Ekki síst í ljósi þess að forsetinn samþykkir lög sem þaðan koma. Hins vegar verður að teljast ólíklegt að afstaða kjósenda, eins og hún kemur fram í kosningum í sumar, eigi eftir að ráðast af því hvort forsetinn eigi að taka þátt í þjóðfélagsumræðu eða ekki. Heldur verður litið til þess sem Ólafur Ragnar hefur gert í embætti forseta Íslands hingað til og hvaða valkostir eru í stöðunni.

Ef vilji er til þess að breyta áherslum í störfum forseta og skapa þá hefð að hann taki þátt í almennri umræðu er nauðsynlegt að ræða það í kosningum þar sem sannfærandi valkostir eru fyrir hendi. Ef þetta hefði verið rætt opinskátt þegar Ólafur bauð sig fyrst fram og beinlínis tekið fram að frambjóðandi ætlaði forsetanum pólitískara hlutverk hefði verið hægt að álíta sem svo að meirihluti kjósenda væri í það minnsta sáttur við slíkar breytingar. Þess vegna er langsótt að líta úrslit kosninga nú í sumar sem einhvers konar réttlætingu á breyttum áherslum forsetaembættisins. Þangað til að almennur vilji kemur fram um breytingar á forsetaembættinu er því rétt að forseti Íslandi skipti sér ekki af pólitískum þrætueplum.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.