Við vissum ekki betur, Pétur!

Á þessum síðustu og verstu (eða bestu) tímum þegar fyrir liggur að sett verði lög um eignarhald á fjölmiðlum er rétt að fara yfir nokkur vel valin stjórnarskrárákvæði með lesendum. Rétt er að rifja þessi ákvæði upp og hugleiða þau í samhengi við það frumvarp sem nú liggur fyrir.

Lykla-Pétur

Á þessum síðustu og verstu (eða bestu) tímum þegar fyrir liggur að sett verði lög um eignarhald á fjölmiðlum er rétt að fara yfir nokkur vel valin stjórnarskrárákvæði með lesendum. Rétt er að rifja þessi ákvæði upp og hugleiða þau í samhengi við það frumvarp sem nú liggur fyrir.

Í 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er kveðið á um það að allir séu frjálsir skoðana sinnar og sannfæringar. Þar segir jafnframt að ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða. Loks segir í ákvæðinu að tjáningarfrelsi megi þó setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, vegna réttinda og mannorðs annarra og fleiri atriða.

Í 72. gr. stjórnarskrár er kveðið á um að eignarrétturinn sé friðhelgur og að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Loks er í 75. gr. stjórnarskrárinnar kveðið á um að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósi. Þessu frelsi megi þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.

Ekki verður tekin afstaða til þess hér hvort frumvarp forsætisráðherra um eignarhald á fjölmiðlum fari gegn einu eða fleiri ofangreindum ákvæðum, eins þau verða túlkuð af dómstólum, enda þarf töluverðrar yfirlegu við til að svara því.

Hins vegar verður ekki framhjá því litið að vel er hugsanlegt að dómstólar telji að væntanleg löggjöf fari gegn stjórnarskránni. Hlýtur það að vekja upp spurningar um stöðu þingmanna að þessu leyti. Hægt er að fullyrða að enginn þingmaður hafi í hyggju brjóta gegn stjórnarskránni með lagasetningu. Enginn hafi ásetning til slíks. Hins vegar hefur það margoft gerst í réttarsögunni að dómstólar hafa talið að löggjöf fari í bága við stjórnarskrá. Það má því segja að þingmenn sem samþykkt hafa slík lög hafi brotið gegn stjórnarskránni af gáleysi, m.ö.o. óvart.

Velta má því upp, í ljósi alls þessa, hvort tilefni er til að koma upp einhvers konar lagaráði, skipuðu virtum lögspekingum, sem kvæði upp úr um það fyrirfram hvort löggjöf færi gegn stjórnarskrá. Þótt slíkt álit yrði ekki bindandi fyrir Hæstarétt í máli, sem síðar risi vegna slíkrar löggjafar, gætu þingmenn, með betri samvisku en nú er, samþykkt lög sem vafi léki á um að brytu í bága við stjórnarskránna. Þeir hefðu þannig kvittun í höndunum, eins konar syndakvittun, og gætu með góðri samvisku sagt: „Við vissum ekki betur, Pétur!“

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)