Þá var öldin önnur

Flestir kannast væntanlega við að hafa heyrt einhvern af eldri kynslóðinni rifja upp hvernig hlutirnir voru í gamla daga. „Ekki gátum við nú sofið út um helgar“, „Það þótti nú fullgott að eiga eitt par af spariskóm“ og svo framvegis. Það er sennilega ellimerki þegar maður er farinn að standa sig að því að því að nota svona orðalag sjálfur …

Flestir kannast væntanlega við að hafa heyrt einhvern af eldri kynslóðinni rifja upp hvernig hlutirnir voru í gamla daga. „Ekki gátum við nú sofið út um helgar“, „Það þótti nú fullgott að eiga eitt par af spariskóm“ og svo framvegis.

Ég hef á undanförnum árum staðið mig að því að láta út úr mér, eða að minnsta kosti hugsa, slíkar setningar. Þetta eru setningar á borð við: „Ekki átti ég nú GSM síma þegar ég var fjórtán“ eða „Ég komst nú alveg í gegnum unglingsárin þótt ég hefði ekki spjallrásir eða MSN“. Stundum sýni ég líka yngri skyldmennum mínum lítinn skilning þegar þau kvarta yfir því að það sé bara ekkert í sjónvarpinu!, hvorki á Stöð 2, Skjá einum, Breiðbandinu né fjölvarpinu. Þá gerist ég föðurlegur og útskýri að þegar ég var ungur var nú bara ein stöð, og ekkert sjónvarp á fimmtudögum.

Ég verð líka alltaf jafn undrandi þegar ég sendi SMS til ungmenna, á borð við „Kem kl. 18“, og fæ til baka svar 20 sekúndum seinna, „OK, nennirdu ad koma vid i sjoppu og kaupa kok i leidinni“, eða viðlíka skilaboð, sem tækju mig fimm til tíu mínútur að setja saman á GSM símann minn.

Flestar þær breytingar sem koma svona aftan að manni eru jákvæðar. Og þótt sumar sumar fréttir séu slæmar fréttir er oftast von á jákvæðari tíðindum í kjölfarið. Ég man þegar súrt regn varð allt í einu mikið vandamál, en ég man líka þegar vandamálið leystist. Ég man þegar það kom í ljós að ísskápar eyddu ósonlaginu, en ég man líka þegar nýir ísskápar komu á markaðinn sem gera það ekki. Ég man þegar fyrstu tilfellin af eyðni settu heimsbyggðina á annan endann, en ég man líka þegar AZT kom á markað.

Ég man þegar menn byrjuðu að tala um að lífeyriskerfi vesturlanda væru í hættu og að þungar byrðar muni leggjast á mína kynslóð og þær næstu, vegna þess að gamla fólkið hefði ekki staðið nógu vel að sínum lífeyrissparnaði. En ég velti því líka fyrir mér hversu mikið mín kynslóð, sem væntanlega mun hafa eitthvað um eða yfir 400 þúsund krónur í meðaltekjur á mánuði, getur álasað eldri kynslóðum, sem höfðu 50 þúsund króna mánaðartekjur, fyrir að spara ekki nóg. Við munum samt sem áður búa í stærri húsum, njóta meiri menntunar, ferðast meira, hafa aukinn frítíma, og geta blaðrað meira í gemsana okkar en þau gátu.

Auðvitað er hægt að vera svartsýnn, eins og sú sem býsnaðist yfir því að þrátt fyrir að nú ættu allir þvottavélar þá eyddi fólk jafnmiklum tíma í þvotta eins og fyrir þrjátíu árum, því fólk þvær fötin bara oftar. En fyrir bjartsýnismann eins og mig virkaði hálfasnalegt af henni að horfa framhjá þeirri staðreynd að við hljótum þá að vera í miklu hreinni fötum.

Ef börnin mín munu hafa það betra en ég þá þýðir það bara eitt: Heimur batnandi fer. Ef ég gleymi því einhvern tíma og verð gamall og bitur kall, vona ég að þau minni mig á þennan pistil í hvert skipti sem ég tuldra ólundarlega: þegar ég var á þínum aldri …

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)