Sumartími á Íslandi

Margvísleg rök mæla með því að breyta tímareikningi á Íslandi en þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir á síðustu árum hefur frumvarp þess efnis ekki náð fram að ganga.

Þeir eru örugglega einhverjir sem ekki vita að við Íslendingar erum með lögfestan sumartíma allt árið um kring. Í því felst að klukkan hér á landi er að jafnaði klukkustund á undan því sem hún væri ef miðað væri við gang sólar. Fyrir rétt rúmum 36 árum samþykkti Alþingi lög sem festu sumartímann í sessi. Lög nr. 6/1968 eru ekki mjög ítarleg og innhalda aðeins eina grein: 1. gr. Hvarvetna á Íslandi skal telja stundir árið um kring eftir miðtíma Greenwich.“ Lögin tóku gildi klukkan 1 eftir miðnætti þann 7. apríl 1968.

Á síðustu árum hefur fjórum sinnum komið fram frumvarp um að taka upp nýjan sumartíma að evrópskum sið og færa þá klukkuna fram um eina klukkustund til viðbótar frá og með síðasta sunnudegi í mars og fram til síðasta sunnudags í október.

Flutningsmaður í öll skiptin var Vilhjálmur Egilsson, nú ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, en þá þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra. Í framsöguræðu sinni við flutning málsins á 126. löggjafarþingi hinn 31. október árið 2000 rökstuddi Vilhjálmur tillögu sína, og nokkurra annarra þingmanna, m.a. með svofelldum hætti:

„Helstu rökin fyrir því að taka upp sumartíma á Íslandi felast fyrst og fremst í því að þá erum við að stilla klukkuna þannig af að sólin verður hæst á lofti um klukkan hálfþrjú á daginn á vesturhluta landsins. Þetta þýðir að dagurinn er almennt tekinn fyrr miðað við það sem nú er og vinnutíma lýkur því fyrr á daginn á sumrin, því hefur þá almenningur meiri möguleika á því að njóta sólar og góðviðrisdaga á sumrin. Þess vegna eru líkur til þess að hér á landi geti skapast almenn sumarstemning á sumrin, fólk geti verið meira úti og notið þess. Það verður meira um að fólk geti t.d. borðað úti og almennt séð verið úti.“

Í greinargerð með frumvarpinu kemur ennfremur fram að algengt sé að forráðamenn íslenskra fyrirtækja og aðrir sem þurfa að hafa samskipti við Vestur-Evrópu yfir sumartímann kvarti undan því að samskiptatíminn styttist mjög verulega við að tímamismunurinn eykst úr einni klukkustund í tvær. Mjög erfitt geti verið fyrir fólk að ná saman í síma á þessum tíma. Fullyrt er í greinargerðinnni að mikill tími og fyrirhöfn mundi sparast í viðskiptum við helstu viðskiptalöndin, eins og Danmörku, Noreg, Svíþjóð, Þýskaland, Belgíu, Holland og Frakkland, ef tímamismunurinn væri ávallt ein klukkustund.

Vilhjálmur benti í ræðu sinni á að þjóðfélagið í heild tæki mið af klukkunni og ekki væri nægilegt fyrir þá sem reka fyrirtæki að hefja starfsemi klukkustund fyrr á daginn. Skólar og leikskólar hæfu almennt ekki störf fyrr en átta og því myndi það ekki ganga að atvinnulífið eitt og sér tæki upp sumartíma. síðan sagði Vilhjálmur:

„Þannig má segja að öll rök sem snúa að því hvernig við skipuleggjum okkar líf og okkar vinnutíma mæli með því að taka upp sumartíma og nýta okkur þessar stundir á sumrin þegar við höfum birtuna og þegar við höfum þau hlýindi sem við á annað borð fáum á Íslandi.“

Mál þetta varð ekki útrætt á 126. löggjafarþingi frekar en á fyrri þingum þegar það var flutt. Andstaða við málið var umtalsverð, ekki síst meðal flokksbræðra Vilhjálms í Sjálfstæðisflokknum. Einar Oddur Kristjánsson svaraði ofangreindri framsöguræðu Vilhjálms með eftirfarandi hætti:

„Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef í gegnum tíðina verið með efasemdir um að alvara væri á bak við þennan málflutning en nú kemur hv. þm. og fullyrðir að hann segi þetta allt í alvöru og ég hlýt að taka því þannig. En ég vildi spyrja hann hvort það séu einhverjar efasemdir í heiminum um það að klukkan fari eftir lengdarbaugum. Jörðin er örugglega hnöttótt og hún snýst. Eru nokkrar deilur um þetta svona almennt í heiminum? Er ekki nokkurn veginn um þetta sátt? Menn hafa gengið út frá þessari sólarklukku svo lengi sem við vitum.

Klukkan á Íslandi er samkvæmt sumartíma allt árið. Það kemur villa fram hjá hv. þm. þegar hann talar um að taka upp sumartíma. Sumartími er hér fyrir. Vissulega er virðingarvert að skapa sumarstemningu á sumrin, það er náttúrlega mun betra en að gera það á öðrum tíma, en við erum að færa klukkuna í öfuga átt ef við ætlum að hafa rétta sólklukku, við mundum færa hana aftur á bak en ekki áfram. Ég skil ekki alveg nákvæmlega hvernig við ætlum að haga okkur. Nú höfum við samband við Japan og við höfum samband við Bandaríkin. Við erum bara á þessum lengdarbaug, að vísu einir þjóða. Ef aðrar þjóðir eins og Japanar verða að lifa við það að vera á sínum lengdarbaug, er þá ekki eðlilegt að við miðum þetta við það og að við reynum að hafa rétta klukku? Það er náttúrlega gagn af því í heiminum að hafa rétta klukku. Við getum að vísu hagað okkur eins og við viljum. Hver og einn má vakna klukkan fimm eða sex og það er eflaust mjög hollt og gott að gera það en verðum við ekki að haga okkur þannig að við séum að fara eftir sólarklukkunni eins og aðrar þjóðir?“

Fjölmargir þingmenn tóku þátt í umræðunni sem snérist m.a. um mismunandi afstöðu fjarða á Íslandi og möguleika íbúa þar til að njóta sólar vegna hárra fjalla! Að lokinni fyrstu umræðu var frumvarpinu vísað til 2. umræðu með 44 samhljóða atkvæðum. Málinu var hins vegar vísað frá allsherjarnefnd án atkvæðagreiðslu.

Frumvarp til laga um tímareikning á Íslandi hefur ekki verið flutt síðan haustið 2000. Rökin fyrir breytingunni eru þó enn til staðar en Vilhjálmur Egilsson er ekki lengur í þeirri aðstöðu að fylgja málinu eftir, a.m.k. ekki á Alþingi. Hins vegar bregður svo við að allir aðrir meðflutningsmenn Vilhjálms að frumvarpinu hausti 2000 sitja enn á þingi, utan einn. Þetta eru þau Kristján L. Möller, Jón Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Einar Már Sigurðarson, Drífa Hjartardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Margrét Frímannsdóttir, Gunnar Birgisson og Guðrún Ögmundsdóttir.

Það skal viðurkennt að sá sem þetta skrifar hallast frekar að ofangreindri breytingu. Tíminn er jú eftir allt saman afstæður.

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.