Er Eurovision besta kosningakerfið?

Hvaða kosningakerfi er líklegast til að skila niðurstöðu sem endurspeglar best skoðanir kjósenda. Er það ef til vill kerfi sem svipar til Eurovision kosningarinnar sem allir kannast við – en af hverju „deux points“?

Í athyglisverðri grein eftir Partha Dasgupta og Eric Maskin í mars hefti Scientific American er fjallað um sanngirni mismunandi kosningakerfa. Mælikvarðinn sem þau leggja til grundvallar er að notast eigi við það kerfi sem líklegast er til að skila niðurstöðu sem endurspeglar best skoðanir kjósenda. Svarið að þeirra áliti er kosningakerfi sem svipar til Eurovision kosningarinnar og aðferðum sem hafa á Íslandi verið notaðar í prófkjörum.

Fyrirkomulagið í flestum lýðræðisríkjum er að kjósendur velja eitt framboð þegar kosið er. Í stað þess leggja höfundar til að kjósendur raði framboðum upp innbyrðis. Ef tveir frambjóðendur eru í boði skiptir ekki máli hvor aðferðin er notuð en ef framboðin eru fleiri geta áhrifin verið talsverð á niðurstöðu kosninganna.

Tvær eftirminnilegar kosningar eru notaðar sem dæmi til að sýna fram á hvernig mismunandi kerfi hefðu leitt til ólíkra niðurstaðna. Taka þau forsetakosningarnar í Frakklandi árið 2002 sem dæmi en þar komst þjóðernissinninn Le Pen í seinni umferð á móti Chirac með því að slá út Jospin sem þótti fyrirfram líklegri að komast í seinni umferðina á móti Chirac. Seinna dæmið sem er skoðað er forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2000 þar sem Gore fékk fleiri atkvæði en Bush.

Í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna árið 2002 voru 9 frambjóðendur, vinsælastir af þeim voru Chirac, Jospin og Le Pen. Ef enginn frambjóðandi fær hreinan meirihluta í fyrstu umferð eiga samkvæmt frönskum kosningareglum tveir efstu frambjóðendurnir að fara áfram í aðra umferð. Raunin var sú að Chirac fékk 19,9% atkvæða, Le Pen 16,9% og Jospin 16,2%. Þó að Jospin hafi orðið þriðji bentu kannanir til að hann hefði unnið auðveldlega ef hann mætti Le Pen einum. Jospin hefði jafnvel getað haft sigur af Chirac hefðu þeir tveir mæst. Þar sem kjósendur gátu aðeins valið einn frambjóðanda skiptir ekki máli hvert val þeirra var á milli þeirra innbyrðis og því gat frambjóðandi eins og Le Pen haft veruleg áhrif á kosningaúrslitin.

Ef frambjóðendum hefði verið raðað innbyrðis er líklegt að flestir hefðu valið Chirac og Jospin í fyrsta eða annað sætið. Le Pen hefði verið settur í fyrsta sætið af hluta kjósenda en fáir hefðu raðað Le Pen í annað sæti. Le Pen hefði annað hvort rekið lestina eða verið valinn fyrstur því stuðningsmenn Chirac og Jospin hefðu líklega sjaldan valið Le Pen í annað sætið.

Með Eurovision stigagjöf er líklegt að Le Pen hefði því fengið fæst stig og annað hvort Chirac eða Jospin hefðu farið með sigur af hólmi. Það myndi líklega skera úr um sigurvegarann hvern stuðningsmenn Le Pen hefðu valið númer tvö. Kosninganiðurstaða þar sem Chirac og Jospin væru efstir hefði því verið nær vilja fleiri kjósenda en ef Le Pen hefði verið í öðru sæti. Enda vann Chirac seinni umferðina örugglega þar sem stuðningsmenn Jospin völdu frekar Chirac heldur en Le Pen.

Svipaða sögu er hægt að segja út frá forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2000. Byrjum á að gefa okkur að aðeins fjórir hafi verið í framboði og aðeins fjórar tegundir af kjósendum væru til sem raða frambjóðendum innbyrðis á eftirfarandi hátt:

1. Nader kjósendur (2%): Nader, Gore, Bush, Buchanan

2. Gore kjósendur (49%): Gore, Bush, Nader, Buchanan

3. Bush kjósendur (48%): Bush, Buchanan, Gore, Nader

4. Buchanan kjósendur (1%): Buchanan, Bush, Gore, Nader

Ef frambjóðendum eru gefin stig til samræmis við innbyrðis röðun og notaðar eru tölur frá því í kosningunum (prósentutalan í svigunum) ynni Bush með talsverðu forskoti því Gore kjósendurnir velja hann númer tvö en Bush kjósendurnir vilja frekar Buchanan en Gore númer tvö í röðina. Ef hins vegar Bush kjósendurnir velja Gore umfram Buchanan númer tvö þá vinnur Gore naumlega.

Niðurröðun frambjóðenda innbyrðis getur því gefið allt aðra niðurstöðu en val á einungis einum frambjóðenda þegar þrír eða fleiri eru í framboði. Ekkert eitt kosningakerfi er hins vegar réttlátt í alla staði en meirihlutakosning er að sama skapi ekki alltaf besta lausnin. Meirihlutakosning þar sem hver þjóð gefur aðeins einni þjóð eitt stig í Eurovision væri til dæmis ekki góð lausn til að skera úr um hvaða lag væri best.

Ef Eurovision er skoðað dugar Íslandi að fá fjögur stig til að vinna frá öllum löndum ef stigagjöfin er eins dreifð á milli hinna þjóðana og hugsast getur. Sigur Heaven myndi þá vera nærri skoðun flestra þrátt fyrir að hver þjóð fyrir sig hefði gefið sex öðrum löndum fleiri stig en okkur!

Latest posts by Berglind Hallgrímsdóttir (see all)