Skyldur stjórnvalda

Hverjar eru skyldur stjórnvalda gagnvart fórnarlömbum mannréttinda í öðrum löndum? Ber þeim ekki skylda til að sjá til þess að rödd íbúanna heyrist? Forseti Kína, Jiang Zemin, fær hlýjar móttökur á meðan stórum hópi Íslendinga eru sendar kaldar kveðjur.

Í dag mun fjöldi fólks safnast saman á Austurvelli til að mótmæla stefnu kínverskra stjórnvalda í mannréttindamálum. Sú stefna einkennist af fjölda- og forræðishyggju af verstu sort. Þeir sem eru á öndverðum meiði við yfirvöld eru stimplaðir byltingarmenn, fangelsaðir eða jafnvel teknir af lífi. Þannig verður friðelskandi fólk eins og fylgismenn Dalai Lama og iðkendur Falun Gong að óvinum ríkisins númer eitt.

Mikil reiði ríkir meðal fólks yfir ákvörðun stjórnvalda að hleypa ekki iðkendum Falun Gong inn í landið. Sú ákvörðun er lítt studd rökum. Prófessorum frá Taívan sem ætluðu að sækja ráðstefnu um heilbrigðismál var synjað um vegabréfsáritun. Það sannar að ekki er verið að stöðva þekkta ofbeldismenn eða óeirðaseggi heldur er einfaldlega miðað við þjóðerni eða litarhátt fólks. Það í sjálfu sér er ótækt, en engu betra er að mismuna fólki á grundvelli skoðana eða trúarbragða. Það gengur þvert á stjórnarskrá Íslands og almenn mannréttindi.

Stjórnvöld hafa aldrei sagt að fólkið sem það hleypir ekki inn í landið sé hættulegt. Aðeins að það reyni að komast að Zemin þannig að hann sjái það og láti þá staðar numið. Að mínu mati ber íslenskum stjórnvöldum að sjá til þess að allir sem vilja geti mótmælt á friðsaman hátt þannig að forseti Kína sjái. Það er óásættanlegt að íslensk stjórnvöld viðurkenni ósk Zemins um að hann sjái ekki mótmælendur.

Það er einkum tvennt sem hefur verið rætt um í þessu samhengi. Annars vegar vegna öryggis forsetans, sem stjórnvöld telja ekki ógnað og reynslan virðist sýna að verði ekki ógnað af Falun Gong (hugsanlega frekar af íslenskum ungmennum sem hafa átt það til að kasta snjóboltum í ráðherra og Molotov kokteilum í sendiráð). Helst virðist sem almenningi stafi ógn af vígasveitum forsetans.

Hins vegar er það spurningin hvort íslensk stjórnvöld eigi yfir höfuð að hafa samband við Kína. Margir munu í dag mótmæla komu Zemins til Íslands og eru mótfallnir samskiptum íslenskra stjórnvalda við Kína. Það verður þó að hafa í huga að framfarir verða helst í gegnum viðskipti milli þjóða. Litlir hlutar Kína hafa tekið nokkrum framförum hvað varðar lífsgæði og frjálsræði vegna þess að þeir hafa verið opnaðir fyrir erlendum fyrirtækjum. Frjáls viðskipti eru besta leiðin til að frelsa kínversku þjóðina undan skoðanakúgun og ofbeldi.

Ég býð Zemin ekki velkominn til landsins. Hins vegar tel ég að gestgjafarnir hafi nú tækifæri til að koma boðskap frelsis og mannréttinda áleiðis á meðan þeir hafa óskipta athygli kínverska forsetans. Það er tækifæri sem þeim ber skylda til að nýta. Þótt gestgjafarnir hafi dregið verulega úr trúverðugleika sínum gagnvart þjóðinni með skerðingu á tjáningarfrelsi og mismunun á grundvelli skoðana, þá mega þeir ekki bregðast íslensku þjóðinni og um leið þeim milljónatugum sem látið hafa lífið í baráttu fyrir bættum mannréttindum í Kína.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)