Páskahugvekja

„Við þurfum að vanda okkur alla daga og allar stundir í samskiptum okkar hvert við annað. Mesta ógnin í samskiptum manna og þjóða er trúarofstæki og þjóðernishroki,” segir Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson meðal annars í páskahugvekju á Deiglunni. Hann segist ekki hafa séð myndina – en er búinn að lesa bókina.

Ég hef ekki séð myndina – en ég hef lesið bókina.

Í guðspjöllunum fá síðustu stundirnar í lífi Jesú mikla umfjöllun. Það má segja að þriðjungur hvers guðspjalls fjalli um atburðina frá Pálmasunnudegi til páskadags. Af því er eðlilegt að draga þá ályktun að þessir atburðir skiptu sérstaklega miklu máli í huga lærisveinana.

Þegar sagan um Jesú er sögð og færð í letur nokkrum áratugum eftir krossfestinguna þá rísa þessir atburðir hátt í minningu skrásetjaranna. En það er varasamt að líta á frásögurnar eingöngu sem sagnfræðilegar staðreyndir. Í guðspjöllunum eru þær einnig guðfræðileg túlkun á atburðum sem höfðu varanleg og mikil áhrif á lærisveinanna.

Alla tíð síðan hefur kristið fólk lesið passíuna á föstunni og haft fyrir hugarsjónum síðustu atburðina í lífi Jesú og hver og einn hefur metið þá og séð útfrá eigin hugmyndum og tilfinningum. En einnig út frá samtímanum á hverri tíð. Það skiptir máli hvernig lesið er. Það skiptir máli hvaða augum við lítum dauða Krists og það hefur um leið áhrif á það hvernig sá Guð er sem við trúum á.

Það er athyglisvert að fylgjast með því að kirkjudeildir skipast nokkuð í fylkingar í afstöðu sinni til kvikmyndar Mel Gibson. Þær kirkjudeildir sem eru bókstafstrúar og íhaldsamar ljúka upp miklu lofsorði um þessa mynd en frjálslyndar kirkjur og leitandi eru mun varkárari og sjá í myndinni margt sem ekki fellur að guðsmynd þeirra eða skilningi á hlutverki gyðinga og rómverja í þessari dramatísku frásögn.

Kenning kirkjunnar um friðþægingardauða Krists er mikilvæg í kristinni trú. Að allt varð þetta að koma fram eins og búið var að segja fyrir um í gamla testamenntinu. Það var óumflýjanlegt. Ef vilji Guðs ætti að ná fram þá yrði Jesús að deyja. Þessi hugmynd á sér rætur í fórnarhugtaki gyðinga og þekkist með öðrum trúarbrögðum þar sem fórnir dýra og jafnvel manna áttu að laga til í veröldinni og koma skikk á líf fólks. Eins og saklaust lamb var Jesús leiddur fram til slátrunar til að fresa lýðinn.

Mörgum finnst þessi hugmynd ógeðfeld að hugsa sér góðan Guð sem vill með þessum hætti sætta manninn við sig og að tilgangurinn helgi meðalið. Þá sé nær að hugsa sér að Jesús sé ásjóna og hjarta Guðs í heiminum, saklaus og kærleiksríkur, en varð að lúta þeim örlögum að hið illa sigraði á krossinum. Spillt vald, hroki og illska sameinaðist gegn því góða, fagra og fullkomna.

Þannig hef ég lesið þessa bók sem átök góðs og ills. Þau átök eiga sér stað í veröldinni allri og einnig nær mér í minni eigin veröld og ekki síst í eigin sál. Veröldin stynur undan ófriði og óréttlæti. Nærri okkur sjáum við líka spillingu og mannfyrirlitningu og daglega erum við að taka ákvarðanir í stóru og smáu sem skipta okkur og aðra máli. Við þurfum að vanda okkur alla daga og allar stundir í samskiptum okkar hvert við annað. Mesta ógnin í samskiptum manna og þjóða er trúarofstæki og þjóðernishroki. Í þeim málum hlýtur hver og einn að gá að sér og fást við sjálfan sig.

Mér er nærtækara að horfa á líf Jesú frekar en dauða hans. Ég lít á páskanna sem hátíð vonar, trúar og kærleika. Þetta þrennt sem fellur aldrei úr gildi og af þessu þrennu er kærleikurinn mestur. Þó að útlitið sé oft dökkt og saklausir séu krossfestir dögum oftar þá megum við ekki missa sjónar á því bjarta og góða sem Jesús frá Nazaret kennir okkur. Þegar við bindum um sárin og leggjum lífinu lið þá er það vitnisburður um upprisu Krists og að kærleiksandi andi hans er enn að starfi í lífinu. Ef hann lifir í huga og hjarta þeirra sem á hann trúa þá eru páskarnir hátíð lífsins og þá er Kristur upprisinn.

Gleðilega páskahátíð.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)