Að vera, eða ekki vera, pláneta …

Út úr myrkviðum geimsins kom smáhnötturinn Sedna og bankaði upp á hjá stjörnufræðingum og fjölmiðlafólki. Nú skeggræðir fólk um það hvort hér sé komin tíunda reikistjarna sólkerfisins og sýnist sitt hverjum. Áður en hægt verður að taka ákvörðun um það hvort meðtaka eigi þennan litla grjóthnullung í sólkerfisklúbbinn er þó nauðsynlegt að komast að niðurstöðu um það hvort staðan sé yfir höfuð laus til umsóknar.

Tíunda plánetan?

Sólkerfið okkar samanstendur af sólinni, níu plánetum (eða reikistjörnum) og aragrúa af smádóti sem svífur um himingeiminn. Ef smádótið er á braut umhverfis einhverja af plánetunum nefnist það tungl. Sumt smádótið ferðast stundum nálægt sólinni, þar sem yfirborð þess gufar upp og myndar skínandi rykský, líkt og hala aftur úr hnettinum. Slíkir hnettir nefnast, merkilegt nokk, halastjörnur. Hnullungar sem hvorki eru tungl né halastjörnur nefnast svo smástirni.

Smástirnin eru að mestu leyti talin svífa um sólkerfið í þremur hópum. Elsti hópurinn nefnist einfaldlega smástirnabeltið og er á milli Mars og Júpíters. Annað belti liggur fyrir utan ystu reikistjörnuna, Plútó, og nefnist Kuiper beltið. Þriðji hópurinn nefnist Oort skýið, og er hann talinn liggja eins og hringlaga ský eða skurn, allt í kringum sólkerfið, enn lengra frá sólinni en Kuiper beltið.

Fyrir stuttu fundu stjörnufræðingar við Caltech og Yale háskólana grjóthnullung fyrir utan braut Plútó og hafa þeir sem uppgötvuðu hann viljað gefa honum nafnið Sedna. Stærð Sednu er nokkuð á reiki, en þó er talið öruggt að hún er stærsti hluturinn sem fundist hefur fyrir utan braut Plútó.

Sedna er talsvert minni en tunglið.

Sedna er einnig stærsti hluturinn sem svífur um geiminn og hefur ekki verið settur í ákveðinn hóp (sól, reikistjarna eða tungl), og næstum jafnstór og Plútó. Sumum þykir því Sednu ekki sýnd tilhlýðileg virðing með því að kalla hana smástirni, líkt og þúsund önnur. Þeir vilja því kalla hana plánetu. En ekki eru þó allir á eitt sáttir við það og hafa sínar ástæður.

Vandinn er að allar líkur eru á að fleiri hnettir á stærð við Sednu leynist í jaðri sólkerfisins. Það gæti verið um tugi, jafnvel hundruð slíkra að ræða. Ef Sedna er pláneta munum við því að öllum líkindum þurfa að fjölga plánetum sólkerfisins margfalt.

Það er því úr vöndu að ráða. Vísindamennirnir sem fundu Sednu hafa lagt til að Sedna verði ekki kölluð pláneta. Þess í stað verði Plútó úthýst og verði einungis þekkt sem stærsti meðlimur Kuiper beltisins héðan í frá. Reikistjörnurnar yrðu því aðeins átta.

Það er því ljóst að von er á nokkrum deilum um stöðu Plútó í sólkerfinu. Ýmsir hafa látið sér detta í hug nýjan flokk, reikistjarnlingur eða plánetlingur (planetoid), fyrir þá hnetti sem eru næstum því nógu stórir til að vera plánetur, en ekki alveg.

Sú stórfrétt gæti því borist á næstunni að Plútó hafi lækkað í tign, og sé þá orðinn stærsti reikistjarnlingurinn. En hvort sem Plútó bætist í tölu reikistjarnlinga eða ekki, þá er nánast öruggt að sá hópur mun stækka umtalsvert á næstu árum.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)