Óljóst innihald

Það getur verið erfitt að meta sannleiksgildi fullyrðinga í auglýsingum um ágæti ákveðinnar vöru og áhrif hennar á heilsu og/eða útlit. Með væntanlegri löggjöf um fullyrðingar seljenda gætu neytendur þó fengið kærkomna aðstoð.

Á degi hverjum dynja á manni auglýsingar, þar sem ákveðin vara er lofuð í hástert og allir hennar mögnuðu eiginleikar tíundaðir. Það er áhugavert að velta fyrir sér vitleysunni sem oft er sett fram til að reyna að ná athygli markhópsins hverju sinni. Sjálfsagt hafa allir á einhverjum tímapunkti látið glepjast af slíkri vitleysu eða misgáfulegum fullyrðingum um gæði vöru.

En hverju skal trúa? Eins og það er gott að efast og gagnrýna það sem verður á vegi manns, myndi líklegast ekkert annað komast að, væri maður með þá heilögu stefnuskrá að láta aldrei platast. Auk þess þyrfti maður helst að hafa heilt teymi vísindamanna á sínum snærum til að fá með vissu botn í málið.

Hver hefur ekki heyrt staðhæfingar um t.d. heilsuplástra sem megra, bæta og kæta, og jafnvel vinna á vöðvabólgu, eða krem sem að hreinlega eyða appelsínuhúð og hrukkum já eða veita fullnægingar. Eða fullyrðingar um heilsusamlega matvöru, t.d morgunkorn sem að stuðlar að heilbrigðum beinum, einbeitingu, orku og heilsu hjartans, eða t.d aloe vera jógúrt, hin gefandi jógúrt sem inniheldur 100 virk efni sem eru nauðsynleg fyrir heilsu og útlit.

Sem betur fer horfir til betri vegar í þessum málum, enda er í vændum setning nýrra laga á Evrópska efnahagssvæðinu um fullyrðingar seljenda sem snerta heilsu og næringu. Ekki er vanþörf á enda geta hæpnar eða jafnvel rangar fullyrðingar um innihald matvæla jafnvel stefnt heilsu manna í voða. Þetta getur til dæmis átt við um þegar sérstök áhersla er lögð á heilsusamlega hráefnið í vörunni, en önnur hráefni hennar, sem e.t.v eru óheilsusamleg eru ekki tiltekin. Í bæklingi sem Evrópusamtök neytenda (BEUC) hafa gefið út eru bakaðar baunir einmitt teknar sem dæmi um þetta, þannig útlagt að þær séu svo hollar að þær komi fyllilega í stað eins af þeim 5 grænmetisskömmtum sem mælt er með að fólk neyti daglega, en geta þess ekki að þessi eini skammtur innihaldi hinsvegar meira en 30% af ráðlagri daglegri saltinntöku.

Meðal þess sem að lögin munu kveða á um, er að allar fullyrðingar varðandi vöru sem settar eru fram og snúa að heilsu eða næringu verði vísindalega sannreyndar og krafa sett um að næringarinnihaldslýsing standist. Vara sem fullyrt er að sé heilsusamleg má heldur ekki hafa næringarfræðilega ókosti eins og of mikið magn sykurs, fitu eða salts. Sömuleiðis má ofneysla þessara vara ekki valda öfugum áhrifum við þau sem auglýst eru. Vara sem er fullyrt að innihaldi ríkulegt magn einhvers hráefnis verður að innihalda það hráefni, og koma verður fram í hvaða magni það er til staðar. Þetta tiltekna hráefni verður einnig að hafa þau áhrif á heilsuna sem fullyrt er um.

Að mati Evrópusamtaka neytenda eru þó vankantar á löggjöfinni, og hafa þau gagnrýnt það að hvergi sé minnst á að leggja bann við heilsufullyrðingum þar sem að börn eru markhópurinn. Það er auðvelt að taka undir þennan málflutning samtakanna, sérstaklega þegar litið er til ofþyngdar barna sem yfirvofandi heilsuvandamáls. Það er grátlegt að sjá súkkulaðistöng auglýsta með fullyrðingunum ‘designed for kids’, ‘chosen by mums’ og ‘made with good quality ingredients’ , stöng sem síðan samanstendur varla af neinu öðru en sykri. Eða þegar sleikjótegund er poppuð upp sem sælgæti með lágt fituinnihald!

Pistlahöfundi þóttu fréttir af þessari nýju löggjöf góðar og tímabærar. Þó að auðvitað verði eftir sem áður best að treysta á dómgreind sína til að meta slíkar heilsufullyrðingar, þá er gott til þess að vita að í nánustu framtíð verði að minnsta kosti eitthvert lát á óljósum og jafnvel ósönnum fullyrðingum, settum fram til að höfða til ákveðins markhóps. Í þessu tilviki þeirra sem er umhugað um heilsu og útlit. Jafnframt er von að tekið verði tillit til þeirrar kröfu neytenda, að börnum, sem hinsvegar hafa ekki uppá þessa dómgreind að hlaupa, verði hlíft við ágangi seljenda.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.