Þjóð meðal þjóða

Sautjándi júní var haldinn hátíðlegur um land allt í dag. Hátíðardagskrá var venju samkvæmt á Austurvelli í morgun og þar héldu ræður formaður þjóðhátíðarnefndar Reykjavíkur, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, og Davíð Oddsson, forsætisráðherra. Undir forystu R-listans í Reykjavíkurborg hefur sá siður verið tekinn upp í þessa dagskrá að formaður þjóðhátíðarnefndar heldur pólitíska ræðu við setningu hátíðardagskrár. Áður fyrr var hlutverk formanns nefndarinnar að setja hátíðina og bjóða fólk velkomið.

Sautjándi júní var haldinn hátíðlegur um land allt í dag. Hátíðardagskrá var venju samkvæmt á Austurvelli í morgun og þar héldu ræður formaður þjóðhátíðarnefndar Reykjavíkur, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, og Davíð Oddsson, forsætisráðherra. Undir forystu R-listans í Reykjavíkurborg hefur sá siður verið tekinn upp í þessa dagskrá að formaður þjóðhátíðarnefndar heldur pólitíska ræðu við setningu hátíðardagskrár. Áður fyrr var hlutverk formanns nefndarinnar að setja hátíðina og bjóða fólk velkomið.

Ræða Steinunnar Valdísar vakti athygli, enda kaus hún að fjalla nær eingöngu um þá atburði sem hæst hafa drifið síðustu daga; heimsókn Kínaforseta og viðtökur íslenskra stjórnvalda. Það er sjálfsagður réttur hvers og eins að tjá skoðanir við hvert tækifæri, en hvort við hæfi sé að formaður þjóðhátíðarnefndar beini spjótum sínum að hátíðarræðumanni dagsins, forsætisráðherra, skal ósagt látið.

Ræða forsætisráðherra var með hefðbundnara sniði og kannski ekki eins innihaldsrík og undangengin ár. Árið 2000 fjallaði forsætisráðherra í nokkuð löngu máli um Evrópusambandið og hversu aðild að því myndi skerða þau réttindi sem íslenska þjóðin hafði áunnið sér í harðri sjálfstæðisbaráttu. Í fyrra fjallaði forsætisráðherra ítarlega um efnahagsmálin og blés þá á allar svartsýnisspár, sem uppi voru fjölmargar á þeim tíma. Nú hefur komið í ljós að forsætisráðherra hafði á réttu að standa um þróun efnahagsmála og nú þegar kosningavetur er framundan hlýtur það að verða ríkisstjórnin gott veganesti að efnhagslífið er í mikilli uppsveiflu.

En þrátt fyrir prýðilegan árangur í efnahagsmálum er ríkisstjórn Davíðs Oddssonar í mótbyr. Ráðherrar hennar hafa haldið illa á spöðunum í nokkrum málum, sem að vísu hafa ekki úrslitaáhrif á afkomu eða viðgang þjóðarinnar, en hafa engu að síður vakið mikla athygli og fengið afar neikvæða umfjöllun. Ljóst er að ríkisstjórnin olli fjölmörgum fylgjendum sínum sárum vonbrigðum með framgöngu sinni í tengslum við heimsókn Jiangs Zemins. Það er synd að klaufaleg framganga ráðherra ríkisstjórnarinnar í nokkrum málum skuli varpa skugga á góð störf hennar og færa þannig heldur bitlausum andstæðingum vopnin í hendurnar.

Þann sautjánda júní fagnar íslenska þjóðin því að vera sjálfstæð þjóð í eigin landi. Því er jafnframt fagnað að íslenska þjóðin sé þjóð meðal þjóða. Hún sé „alvöru þjóð“ í „alvöru ríki“: Á þeim 98 árum sem liðin eru frá því að íslenska þjóðin varð „þjóð meðal þjóða”, þegar Hannes Hafstein varð fyrsti íslenski ráðherrann, hefur þessi litla þjóð sett mark sitt á samtímasöguna. Yfir því getum við Íslendingar glaðst og verið stoltir. Því má hins vegar aldrei gleyma að á svipuðum tíma og íslenska þjóðin braust undan stjórn Dana, brutust einstaklingar um allan hinn vestræna heim undan oki einveldis. Uppfrá því varð ríkið til fyrir fólkið en ekki fólkið fyrir ríkið.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)