Stúdentar mótmæltu skólagjöldum

Stúdentar fjölmenntu á mótmælafund á vegum Stúdentaráðs Háskóla Íslands í gær til að hvetja fundarmenn háskólafundar til að taka afstöðu gegn skólagjöldum. Stúdentar sýndu frábæra samstöðu í málinu enda á ferðinni mál sem snertir alla stúdenta.

Stúdentaráð Háskóla Íslands telur að með því að taka upp skólagjöld við Háskólann sé verið að velta fjárhagsvanda skólans yfir á stúdenta.

Í gær dró verulega til tíðinda í umræðunni um það hvort að taka eigi upp skólagjöld við Háskóla Íslands. Háskólafundur, æðsti samráðsvettvangur skólans, kom saman að beiðni Háskólaráðs til þess að taka afstöðu til þess hvort að óska ætti eftir því við menntamálaráðherra að hann beiti sér fyrir breytingu á lögum þannig að Háskólanum verði heimilt að innheimta skólagjöld.

Það er óhætt að segja að stúdentar brugðust hart við þegar beiðni Háskólaráðs lá fyrir. Fjöldi manns hafði samband við Stúdentaráð til þess að spyrja frétta af málinu. Stúdentar sýndu frábæra samstöðu í gær með því að fjölmenna á mótmælafund á vegum Stúdentaráðs og hvöttu fundarmenn háskólafundar til að greiða atkvæði gegn skólagjöldum.

Stúdentaráð hefur síðastliðið ár beitt sér í umræðunni um skólagjöld. Stúdentaráð hefur lagt sig fram við að benda á mögulegar lausnir á fjárhagsvanda Háskólans. Davíð Gunnarsson, fráfarandi formaður Stúdentaráðs, afhenti menntamálaráðherra skýrslu fyrir stuttu þar sem hugmyndir ráðsins voru kynntar. Stúdentaráð hefur meðal annars bent á það að Háskólinn hefur ekki fengið greitt fyrir alla virka nemendur við skólann og hefur skólinn því mátt mæta auknum fjölda nemenda án þess að fá fjárframlög í samræmi við það. Í skýrslunni var einnig vakin athygli á því að einkaleyfisgjald Happdrættis Háskóla Íslands nemur 20% af tekjum þess, eða 115 milljónum króna. Gjaldið er eingöngu tekið af Happdrætti Háskólans þrátt fyrir að starfandi séu mörg önnur peningahappdrætti í landinu.

Stúdentaráð hefur einnig bent á ýmsar leiðir til að hagræða í kennslu. Þessar leiðir, sem byggjast meðal annars á aukinni þátttöku framhaldsnema við kennslu, hafa verið reyndar erlendis og hafa gefið góða raun.

Stúdentaráð Háskóla Íslands telur að með því að taka upp skólagjöld við Háskólann sé verið að velta fjárhagsvanda skólans yfir á stúdenta. Það er örþrifaráð að innheimta skólagjöld af stúdentum, þegar aðrar leiðir hafa ekki verið skoðaðar. Reynslan hefur sýnt að þar sem skólagjöld hafa verið tekin upp í ríkisreknum háskólum hefur framlag ríkisins dregist saman. Það er því ljóst að upptaka skólagjalda við Háskóla Íslands mun ekki leysa fjárhagsvanda skólans til frambúðar.

Umræðan um skólagjöld leiðir mann að spurningunni hvort að tryggja eigi öllum jafnrétti til náms. Rannsóknir frá Bretlandi sýna að sá hópur stúdenta, sem fyrst heltist úr lestinni var, einstæðar mæður. Hér á landi eru stúdentar mjög fjölbreyttur hópur og ljóst að ef skólagjöld verða tekin upp munu ákveðnir hópar þurfa frá að hverfa.

Þá hafa heyrst raddir sem spyrja hvers vegna skattgreiðendur eigi að standa straum að kostnaði háskólanáms stúdenta við Háskóla Íslands. Það er vert að hafa það í huga að skattgreiðendur greiða nú til dags nám fyrir alla stúdenta á háskólastigi í landinu, því allir njóta þeir framlaga frá ríkinu. Einnig hefur það heyrst að mun vænlegra sé að leggja á skólagjöld til þess að forða öðrum en stúdentum að greiða fyrir háskólanámið, enda muni það sliga stúdenta í framtíðinni að geiða þann gríðarlega kostnað sem skattheimtunni fylgir. En það virðist gleymast að með hærri skólagjöldum mun lánþegum Lánasjóðs íslenskra námsmanna fjölga mikið, lánin hækka og þar með álögur á stúdenta í framtíðinni. Það virðist oft gleymast hvernig þau lán eru fjármögnuð, og að vextir þeirra eru niðurgreiddir af ríkinu.

Háskólafundur frestaði á fundi sínum í gær að taka afstöðu til skólagjalda þar sem fundarmenn óskuðu eftir lengri tíma til skoða málið betur. Stúdentaráð mun halda áfram að taka virkan þátt í umræðunni um skólagjöld og hvetja Háskólann til þess að skoða innri þætti skólans áður en gripið verður til þess örþrifaráðs að taka upp skólagjöld. Það er ljóst að stúdentar hafa látið í sér heyra og komið því á framfæri með afgerandi hætti, að þeir munu ekki láta þetta yfir sig ganga.