Skák og mát

Um helgina stóð Skáksamband Íslands fyrir stórskemmtilegu skákmóti sem hét Reykjavík Rapid 2004. Margir af fremstu skákmönnum heims tóku þátt í mótinu sem lauk með sigri Garrí Kasparovs sterkasta skákmanns heims.

Um helgina stóð Skáksamband Íslands fyrir stórskemmtilegu skákmóti sem hét Reykjavík Rapid 2004 og voru úrslit mótsins sýnd beint á ríkissjónvarpsrás allra landsmanna. Margir af fremstu skákmönnum heims tóku þátt í mótinu sem lauk með sigri Garrí Kasparovs sterkasta skákmanns heims. Úrslitaskákirnar tefldi Kasparov við Short og endaði fyrri með sigri Kasparovs en sú síðari með jafntefli sem nægði Kasparov til sigurs í mótinu.

Reykjavík Rapid 2004 hefur vakið athygli á heimsvísu enda margar af skærustu skákstjörnum heims meðal þátttakenda. Sterk skákmót hafa áður verið haldin hér á landi og að skákmót af þessum styrkleika sé haldið á Íslandi undirstrikar þá staðreynd að Ísland þykir góður staður til að halda slík stórmót.

Skák hefur líklega alla tíð verið vinsæl á Íslandi. Talið er að skák hafi verið stunduð af víkingunum sem námu hér fyrst land og svo stytt afkomendum þeirra stundir í gegnum aldirnar. Skák virðist eiga vel við Íslendinga og ber fjöldi stórmeistara okkar og almennur áhugi fyrir skák vitni um það. Nú eigum við níu stórmeistara og tvo sem hafa verið í hóp tíu bestu skákmanna heims. Merkilegur árangur fyrir litla þjóð sérstaklega í ljósi þess að skák er vel þekkt og nokkuð vinsæl um allan heim.

Skák á líklega upphaf sitt að rekja til Indlands. Vitað er að fyrir um 4500 árum var spilað einhverskonar tafl þar. Einnig er hugsanlegt að skákin eigi rætur sínar að rekja til Kína. Hvað sem því líður þá hefur skákin staðist tímans tönn enda margt heillandi við leikinn.

Fjöldinn allur af rannsóknum hefur verið gerður á gagnsemi þess að tefla. Það sem kemur ef til vill á óvart er að skák hefur ekki einungis jákvæð áhrif á rökhugsun, minni og hæfileikann til þess að leysa verkefni heldur líka jákvæð áhrif á lesskilning og munnleg samskipti þrátt fyrir að almennt sé bannað að tala meðan teflt er. Þessi örvun sem heilinn fær við að tefla virðist því hafa víðtæk jákvæð áhrif á hugsunina skerpa hana og auka einbeitinguna.

Grettistaki hefur verið lyft á Íslandi í kynningu á skákinni á síðustu árum og hefur þar barnastarf Hróksins vakið verðskulduga athygli enda framtak sem á sér varla hvergi hliðstæðu. Eins hefur lið Hróksins í Íslandsmótinu í skák og samsetning þess komið af stað umræðu og áhuga á Íslandsmótinu og skák almennt.

Flestir geta lært að tefla enda eru reglurnar einfaldar. Mannganginn er hægt að læra á undir 10 mínútum og þá er hægt að finna sér andstæðing til að tefla við. Strax er hægt að hafa gaman af leiknum. Einfalt er að finna sér andstæðing til að tefla við til dæmis á Netinu.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)