End of an Era

Það stefnir í að 2004 verði ár breytinga, ár umróts í íslensku samfélagi. Davíð Oddsson, Ari Teitsson og Menntaskólinn í Reykjavík eru tákngervingar þesa umróts.

Í gær urðu þau merku tíðindi að Menntaskólinn í Reykjavík beið lægri hlut i spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur. Það kom í hlut skóla, sem er rúmlega 150 árum yngri en Lærði skólinn, að binda enda á þessa lengstu sigurgöngu í sögu keppninnar, Borgarholtsskóla úr Grafarvogi. En þegar sigurganga MR hófst árið 1993 var Borgarholtsskóli ekki til og Grafarvogur frumstætt samfélag í raun.

Pistlahöfundur er í hópi þeirra sem var viðstaddur þetta vor þegar sigurganga MR hófst í Valsheimilinu. Þá var kreppa í íslensku samfélagi, internetið var ekki til, tölvur á stangli, engir gsm-símar en þó eitthvað um að menn væru að rogast með 3 kílóa NMT-síma um bæinn, hrópandi sig hása við slæm móttöku- og sendingarskilrði – en samt að þykjast vera fínir menn.

Á þeim tíma sem síðan er liðinn hefur spurningalið Menntaskólans staðið af sér ótrúlegar breytingar á íslensku samfélagi. Það hafði t.a.m. engin áhrif á staðfestu liðsins og einbeittan sigurvilja þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var lögfestur hér á landi árið 1994. Sama má segja um sölu ríkisbankanna og þá miklu einkavæðingu sem riðið hefur yfir samfélagið á þessum tíma.

Og MR-ingarnir stóðu einnig af sér tilkomu Netsins í íslenskt samfélag, gsm-væðingu ungu kynslóðarinnar og nýtt form á geymslu og sýningu hreyfimynda, svokallað DVD. MR-ingar stóðu það meira að segja af sér að sjá KR vinna loks titil árið 1994 og verða síðar Íslandsmeistara.

Þeir stóðu líka af sér áður óþekkta uppsveiflu í íslensku efnahagslífi, komust í gegnum hlutabréfaæðið og -fallið án teljandi vandkvæðna og fóru í raun varhluta af alþjóðavæðingunni. Á meðan þjóðarskútan logaði stafnanna á milli í deilum um öryrkjadóma, um brottkast og miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði héldu MR-ingar sínu striki í Gettu betur.

Sigurganga MR í þessari vinsælu spurningakeppni hefur þannig verið haldreipi á erfiðum og viðsjárverðum tímum – fasti sem hægt var að miða alla áætlanagerð við, klettur í hafi breytinga.

Sigur Borgarholtsskóla er hins vegar tímanna tákn; hið nýja ryður burt því gamla. Fyrir íhaldsmenn og MR-inga – en pistlahöfundur er hvort tveggja – getur verið erfitt að kyngja þessu, en ef við lítum blákalt á málið var sigur Borgarholtsskóla á MR í gær ekki einungis sanngjarn og verðskuldaður, heldur í raun nauðsynlegur fyrir íslenskt samfélag heild sinni.

MR-ingar verða víst, eins og aðrir menn, að sætta sig við að lífið er hverfult. Ósigur MR í gær markar vissulega endalok merks tímabils – end of an era, eins og kaninn segir – og menn verða einfaldlega að takast á við það. En það sem kannski gerir þessi tímamót enn erfiðari að kljást við er sú staðreynd, að árið 2004 virðist ætla að verða ár mikils umróts í íslensku samfélagi.

Sem kunnugt er mun Davíð Oddsson láta af embætti forsætisráðherra í haust, en hann tók við því embætti stuttu áður en sigurganga MR í spurningakeppninni hófst. Og nýlega lét Ari Teitsson af embætti formanns bændasamtakanna eftir áralangt og óeigingjarnt starf í þágu bænda. Það er auðvitað erfitt að takast á við þessar breytingar, þetta umrót, sérstaklega þegar allt virðist ætla að lenda á manni á sama tíma.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.