Flugeldar og forsjárhyggja

Fyrir nokkrum dögum skiptust landsmenn á ótöldum milljörðum í formi jólagjafa og rann álagningin af þeim vöruskiptum í vasa kaupmanna.

Fyrir nokkrum dögum skiptust landsmenn á ótöldum milljörðum í formi jólagjafa og rann álagningin af þeim vöruskiptum í vasa kaupmanna. Álíka gáfulegar fjárfestingar eru fyrirhugaðar á næstunni, því eftir tvo daga mun landinn fagna enn einum áramótunum með því sprengja nokkur hundruð milljónir í loft upp. Hin seinni iðja er nokkuð séríslenskt og á einhvern hátt væntumþykjanleg í fáránleika sínum. Það er svo innilega mannlegt að væla og skæla yfir kröppum kjörum og sprengja síðan yfirdráttinn upp í loft í fögnuði yfir enn einum áramótunum.

Við hver áramót verða slys af völdum flugelda og er ýmist um að kenna gáleysi eða gölluðum flugeldum. Það er nokkuð sérstakt að sala slíks varnings skuli vera helsta fjáröflun samtaka sem hafa það eitt að markmiði að bjarga mannslífum og koma í veg fyrir slys. En þetta er þó kannski ekki verri fjáröflun en mörg önnur. DEIGLAN vill nota þetta tækifæri og hvetja lesendur sína til varkárni um þessi áramót. Slík hvatning á lítið skylt við þá forsjárhyggju að banna fólki alla hluti sem á einhvern hátt gætu reynst því skaðlegir.

Það er einmitt slík forsjárhyggja sem alið hefur upp í mörgu fólki eindæma ósjálfstæði og aumingjaskap. Af þessum meiði eru kvartanir sem nú eru sagðar berast frá foreldrum menntaskólanema um að iðjuleysi þeirra í verkfalli leiði börnin inn á braut fíkniefnaneyslu. Þetta er afar sorglegt dæmi um hvernig foreldrar reiða sig meira og minna á þátttöku ríkisvaldsins í uppeldi barna sinna. Það verður að gera þá kröfu til fólks að það axli þá ábyrgð sem því fylgir að eignast og ala upp börn. Foreldrar njóta margvíslegrar fjárhagslegrar aðstoðar frá samfélaginu en afsal foreldra á uppeldisskyldum sínum til hins opinbera er einfaldlega allt annar handleggur.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.