Freud og sálgreining

Sigmund Freud er í dag líklega sá kennismiður í sálfræði sem almenningur kannast mest við. Þegar fólk hugsar um sálfræðinga og geðlækna sjá líklega flestir fyrir sér sófann góða sem fólk leggst á áður en það greinir frá vandamálum sínum. En hverjar voru kenningar Freuds og var eitthvað vit í þeim?

Sigmund Freud er í dag líklega sá kennismiður í sálfræði sem almenningur kannast mest við. Þegar fólk hugsar um sálfræðinga og geðlækna sjá líklega flestir fyrir sér sófann góða sem fólk leggst á áður en það greinir frá vandamálum sínum.

Freud var geðlæknir og upphafsmaður sálgreiningarinnar, sem er í dag umdeild stefna innan sálfræði. Áhugi Freud beindist einna helst að undirmeðvitundinni og hinu afbrigðilega í sálarlífi mannanna. Freud taldi kenningar sínar marka tímamót í sögu sálfræðinnar sem þær vissulega gerðu.

Kenningar Freud um sálgreininguna byggðust aðallega á athugunum hans í starfi sínu sem geðlæknir. Hann beitti iðulega samtalsmeðferð á sjúklinga sína, en hann fékk oft fólk til sín til meðferðar sem hann taldi þjást af taugaveiklun og hugsýki. Þessi samtalsmeðferð fór þannig fram að hann lét sjúklinginn leggjast á bekkinn og tala um allt það sem upp kom í huga hans og stundum beitti hann jafnvel dáldeiðslu. Með þessu taldi hann sig geta sjúkdómsgreint sjúklinginn og meðhöndlað hann. Freud notaði svo dæmisögur af þessum samtölum óspart til stuðnings kenningum sínum.

Grunnur sálgreiningarinnar er kenning Freuds um bælinguna (e. repression). Freud taldi að ómeðvitaðar hugsanir og langanir fólks bældust niður og að jafnvel vitneskjan um þær bældist niður. Þessar bældu ómeðvituðu hugsanir og langanir yllu okkur svo miklum vandræðum sem fram kæmu t.d í formi taugaveiklunar og hugsýki. Freud taldi að með samtalsmeðferðinni, sem sálgreiningin fæli í sér, mætti komast að því hvaða hugsanir og langanir þetta væru. Afhjúpun þeirra myndi svo stuðla að betri líðan fólks og jafnvel bata þess.

Gagnrýni á kenningar Freuds hafa fyrst og fremst beinst að skorti á vísindalegum sönnunum fyrir þeim og gildi þeirra. Þegar Freud var beðinn um sannanir fyrir kenningum sínum vísaði hann ávallt í dæmisögur af samtölum sínum við sjúklinga. Hann gerði engar samanburðarannsóknir á kenningum sínum og færði í raun aldrei vísindalegar sönnur fyrir þeim. Fylgismenn Freuds og eftirmenn hans hafa ekki heldur getað sýnt fram á að kenningar sálgreiningarinnar eigi við rök að styðjast eða sýnt fram á ótvírætt gildi hennar sem meðferðarúrræðis. Þrátt fyrir þetta sálgreiningin ekki aðeins hluti af sögu sálfræðinnar heldur er hún iðkuð um allan heim enn þann dag í dag.

Freud var mjög góður penni og verk hans bera vitni um það. Hann fékk til að mynda bókmenntaverðlaun eitt sinn fyrir verk sín. Þegar verk hans eru lesin er í raun mjög auðvelt að „láta blekkjast“ og heillast af skrifum hans og því kannski skiljanlegt að einhverjir geri það.

En þrátt fyrir að vísindalegar sannanir skorti fyrir gagnsemi kenninga Freuds má ávallt hafa gaman af þeim og hugmyndaauðgi hans og tilraunum til að skýra hið afbrigðilega í sálarlífi mannanna.

Latest posts by Ingunn Guðbrandsdóttir (see all)