Hún byrjar bratt!

Hún fer bratt af stað kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar vestanhafs. Þegar enn eru tæpir átta mánuðir til kosninga hefur John F. Kerry lýst repúblikana hóp lævísra lygara og repúblikanar hafa svarað með því að kalla Kerry, Ted Kennedy í megrunarkúr.

Hún fer bratt af stað kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar vestanhafs. Þegar enn eru tæpir átta mánuðir til kosninga hefur John F. Kerry lýst repúblikana hóp lævísra lygara og repúblikanar hafa svarað með því að kalla Kerry, Ted Kennedy í megrunarkúr.

George Bush ætlar ekki að flaska á því sem föður hans varð á fyrir forsetakosningarnar 1992 að byrja kosningabaráttuna of seint. Hann hefur formlega lýst því yfir að baráttan sé hafin þó svo langt sé í kosningar sem raun ber vitni. Auglýsingaherferðir hans eru byrjaðar, þær dýrustu í sögu forsetakosninga í Bandaríkjunum. Bush stendur enda Kerry mun framar í peningamálum. Sjóðir hans eru allir fullir og talið er að hann hafi jafnvirði 7 milljörðum íslenskra króna meira milli handanna en keppinauturinn.

Ljóst er að kosningabaráttan verður hörð – jafnvel sú harðasta frá upphafi. Yfirlýsingarnar sem nefndar voru hér að framan bera vott um það. Það er líka um mikið að tefla. Demókrötum er mjög í mun að leikurinn frá 2000 endurtaki sig ekki.

John Kerry byrjar vel. Hann gersigraði forval Demókrataflokksins og er ótvíræður frambjóðandi flokksins sem stendur heill að baki honum. Hann hefur birst mönnum sem raunhæfur kostur við Bush sem næsti forseti Bandaríkjanna og hefur forskot á Bush samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum.

Í Bandaríkjunum er kosið um meira en bara „hefðbundin“ mál eins og skattamál, velferðarmál og atvinnumál. Öndvert við það sem við eigum að venjast hér heima er einnig kosið um grundvallargildi og viðhorf til lífsins, t.d. um hvort hjónabönd eigi aðeins að vera fyrir fólk af gagnstæðu kyni. Kerry er flokkaður sem mjög frjálslyndur maður og kemur það okkur Íslendingum kannski einkennilega fyrir sjónir að það sé talið hans helsti veikleiki.

Evrópubúum er auðvitað mest umhugað um þá utanríkisstefnu sem Bandaríkjamenn reka og margir eru þeirrar skoðunar að þar þurfi að venda kvæði í kross. Bandarískir kjósendur láta sig það ekki mjög miklu varða þó það sé auðvitað eitt af málunum sem kosið er um.

Óhætt er að segja að utanríkisstefna Bandaríkjamanna í tíð George Bush hafi einkennst af yfirgangi og virðingarleysi fyrir alþjóðalögum og alþjóðastofnunum. Einhliða aðgerðir er aðalmálið – fyrirbyggjandi árásir. Hægt er að lýsa henni með eftirfarandi orðum: „Við gerum það sem okkur sýnist, þegar okkur sýnist!“ Slæm fordæmi hafa verið reist – fordæmi sem mega ekki þoka þeim meginreglum sem taldar eru hafa gilt í þjóðarétti, eins og til dæmis þeirri að skýrt samþykki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þurfi til hernaðarárása á önnur ríki.

Kerry hefur sagst ætla að þoka frá stefnu Bush í utanríkismálum. Þegar af þeirri ástæðu er undirritaður stuðningsmaður hans.

Allt er betra en Bush!

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)