Höfðingi hættir

Tímamót urðu um áramótin þegar Matthías Johannessen lét af störfum sem ritstjóri Morgunblaðsins. Fáir hafa sett meiri svip á íslenska fjölmiðlasögu en Mattíhas og hefur hann ásamt Styrmi Gunnarssyni stýrt Morgunblaðinu upp í hærri hæðir en raunin er um aðra íslenska fjölmiðla.

Tímamót urðu um áramótin þegar Matthías Johannessen lét af störfum sem ritstjóri Morgunblaðsins. Fáir hafa sett meiri svip á íslenska fjölmiðlasögu en Mattíhas og hefur hann ásamt Styrmi Gunnarssyni stýrt Morgunblaðinu upp í hærri hæðir en raunin er um aðra íslenska fjölmiðla. Vinnubrögð Matthíasar ættu að vera kennslubókarefni í blaðamennsku. Hann hefur ætíð lagt mikla áherslu á vandað málfar og yfirvegaða frásögn. Vinnubrögð hans þegar mál tengjast persónum hafa einkennst af þeirri nærgætni sem því miður verður æ sjaldgæfari í fjölmiðlaheiminum.

Oft er talað um skilnað Morgunblaðsins við Sjálfstæðisflokkinn en lengst framan af öldinni fylgdi blaðið flokknum ákaft að málum. Morgunblaðið er raunar miklu eldra en Sjálfstæðisflokkurinn og var stofnað af borgaralegum öflum til að sporna gegn framgangi sósíalismanns. Það ætlunarverk borgaraaflanna tókst, enda reyndist „Moggalýgin“ á endanum sönn. Þegar baráttunni gegn sósíalismanum og þeirri hættu sem af honum stafaði lauk með fullnaðarsigri var hjónabandsgrundvöllur Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins í raun brostinn og því eðlilegt að leiðir skildu. Á sama tíma tók Morgunblaðið forystu í faglegri og metnaðarfullri umfjöllun um þjóðmál með miklu víðtækari hætti en áður hafði tíðkast. Ýmsum þykir þó á stundum sem Morgunblaðinu sé of mikið í mun að sýna fram á að aðskilnaðurinn við Sjálfstæðisflokkinn sé alger.

Í Morgunblaðinu í dag eru kynntar athyglisverðar skipulagsbreytingar á ritstjórn blaðsins. Styrmir Gunnarsson verður einn ritstjóri en honum til aðstoðar verða Karl Blöndal og Ólafur Þ. Stephensen, sem nú er kominn aftur „heim“ á Moggann eftir þriggja ára fjarveru. Miklar bollaleggingar hafa farið fram síðustu mánuði um eftirmann Matthíasar en þessi skipulagsbreyting virðist vera skynsamleg og eðlileg með hliðsjón af umfangi starfseminnar. Þar að auki er hreinlega vandséð að nokkur gæti fetað í fótspor Matthíasar Johannessen á Morgunblaðinu.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.