Talað eftir vindi

Í hádeginu í dag stóð Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands, fyrir fundi um þýðingu Öryrkjadómsins fyrir makatengingu námslána.

Í hádeginu í dag stóð Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands, fyrir fundi um þýðingu Öryrkjadómsins fyrir makatengingu námslána. Gestir fundarins, sem Vaka hélt í samstarfi við Orator, félag laganema, voru alþingismennirnir Hjálmar Árnason (B), Lúðvík Bergvinsson (S), Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (D) og Ögmundur Jónasson (Vg). Fátt nýtt kom fram á fundinum um sjálft öryrkjamálið en ýmislegt í máli fundarmanna vakti þó athygli. Einkum var athyglisvert að fylgjast með málflutningi jafnaðarmannanna Lúðvíks Bergvinssonar og Ögmundar Jónassonar sem töluðu eindregið gegn tengingu bóta við tekjur maka. Þeir félagar töldu báðir, einkum Lúðvík, að samkvæmt Öryrkjadóminum stæðist ekki að tengja framfærslulán námsmanna við tekjur maka hans. Þorgerður Katrín og Hjálmar voru á öndverðri skoðun.

Þorgerður Katrín benti réttilega á, að grundvallarmunur væri á námslánum annars vegar og bótum almannatryggingakerfisins hins vegar – námslán væru lán, bætur þyrfti ekki að greiða til baka. Þá benti Þorgerður jafnframt á að nám væri hverjum og einum valkvætt, en því væri hvorki þannig farið um örorku né elli. Námsmenn ættu því ekki stjórnarskrárvarinn rétt til framfærslu hins opinbera. Þetta er afar góður punktur hjá Þorgerði Katrínu og undirstrikar hversu hlálegur málflutningur núverandi forystumanna stúdenta er á köflum í lánasjóðsmálinu. Vissulega má deila um hvort framfærslugrunnur lánþega hjá Lín sé of lágur miðað við lífsgæðakröfur flestra stúdenta, en að halda því fram að, að þeir sem ákveða að mennta sig eigi stjórnarskrárvarinn rétt til að samfélagið fæði þá og klæði er lýðskrum af verstu sort.

En það er einmitt þannig lýðskrum sem vinstri mönnum er svo tamt, einkum þegar einhverjar þær aðstæður skapast í þjóðfélaginu sem gera almenning móttækilegan fyrir því. Þannig er öryrkjamálið dæmigert. Jafnaðarmenn í báðum vinstri flokkunum keppast nú við að hallmæla tekjutengingu bóta, að því að það er líklegt til að skapa tímabundinn byr í seglin. En eins og Þorgerður Katrín benti réttilega á, þá voru það einmitt vinstri menn sem bera ábyrgð á tekjutengingarkerfinu að mestu leyti. T.a.m. hefur verið dregið stórlega úr tekjutengingu af núverandi stjórn LÍN, en þegar Árni Þór Sigurðsson, nú í Vinstrigrænum, var formaður stjórnarinnar var skerðingarhlutfallið hækkað verulega.

Forsendur lýðskrums er sú tilhneiging almennings að nenna ekki að kynna sér málin. Lýðskrumararnir tala þannig í fjölmiðlavænum fyrirsögnum og leika á tilfinningasemi fólks. DEIGLAN hvetur lesendur sína til að kynna sér gögn þessa umdeilda máls, eins og þau liggja fyrir, og móta sér sjálfstæða skoðun á þessu máli. Slóðir að helstu gögnum málsins eru hér að neðan.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.