Clinton í Kornhlöðunni?

Nú eru aðeins þrír dagar þangað til Bill Clinton lætur af embætti forseta Bandaríkjanna eftir átta ára valdasetu. Menn eru þegar farnir að velta fyrir sér arfleið og eftirmælum Clintons, þ.e. hverju áorkaði hann í embætti og fyrir hvað verður hans helst minnst.

Nú eru aðeins þrír dagar þangað til Bill Clinton lætur af embætti forseta Bandaríkjanna eftir átta ára valdasetu. Menn eru þegar farnir að velta fyrir sér arfleið og eftirmælum Clintons, þ.e. hverju áorkaði hann í embætti og fyrir hvað verður hans helst minnst. Það er í sjálfu sér merkilegt að Clinton er fyrsti forsetinn úr röðum demókrata sem bandaríska þjóðin kýs tvívegis til að gegna embættinu síðan Franklin D. Roosevelt sat á forsetastóli. Clinton mistókst hins vegar það sem Ronald Reagan tókst, að tryggja flokki sínum áframhaldandi húsbóndavald í Hvíta húsinu eftir embættissetu sína. Samkvæmt skoðanakönnunum (sem orðið hafa einkenni, og að margra mati helsti áhrifavaldur, Clinton-tímabilsins) hafa fáir forsetar notið jafn mikilla vinsælda og Clinton. Vart verður um það deilt að Clinton er í senn viðkunnalegur og afburða klókur stjórnmálamaður. Hitt er hins vegar umdeildara hverju hann fékk í raun áorkað í embætti en nánar verður fjallað um það hér í DEIGLUNNI um næstu helgi, þegar kastljósinu verður beint að forsetaskiptunum.

En burtséð frá arfleið og eftirmælum Clintons er fróðlegt að velta því fyrir sér hvað hann komi til með að taka sér fyrir hendur. Í nánustu framtíð þarf hann að takast á við eftirhreytur Monicu-málsins, þar sem hann er enn ekki kominn fyrir vind hvað varðar lögsókn og sakfellingu. Þá verður athyglisvert að fylgjast með hvernig fyrrverandi forseta tekst til með að vera maki öldungardeildarþingmanns, að því gefnu að Hillary sjái sér nokkurn hag yfir höfuð í áframhaldandi hjúskap, nú þegar Clinton er orðinn eins og hver annar grár fiðringur á Hooter’s Bar (Kaffi Reykjavík). En ef að líkum lætur mun Clinton hafa lifibrauð sitt af fyrirlestrum, en slík iðja hefur á síðari árum orðið afar gróðavænleg fyrir menn sem látið hafa af áberandi stöðum.

Frá því er greint í Washington Post í dag, að Colin Powell, sem tilnefndur hefur verið í stöðu utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi hagnast um sem nemur 27,3 milljónum dala, eða 2,3 milljörðum króna, á fyrirlestrum eftir að hann hætti sem yfirmaður bandaríska herráðsins fyrir fáeinum árum. Segir í frétt Post að Powell hafi flutt átta til tíu fyrirlestra í hverjum mánuði fyrir fyrirtæki, verslunarsamtök, menntastofnanir o.þ.h. og tekið að jafnaði 59.500 dali í þóknun hverju sinni, eða rúmar fimm milljónir króna. Þetta er því afar fýsilegur kostur fyrir Clinton, sem skuldar tugi eða hundruð milljóna króna vegna lögfræðikostnaðar, auk þess sem fyrirlestrar þýða mikil ferðalög…

Á laugardaginn næstkomandi verður hér í DEIGLUNNI fjallað um embættistöku George W. Bush og hvaða fyrirheit hún gefur. Daginn eftir verður sjónum beint að Bill Clinton á ný og þá vöngum velt yfir arfleið Clintons og eftirmælum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.