Röskva lofar hlýnandi veðri með vorinu

Það er oft talið til marks um menntaþroska að hafa náð að tileinka sér hógværð og lítillæti í samskiptum sínum við annað fólk og stæra sig ekki um of af verkum sínum.

Það er oft talið til marks um menntaþroska að hafa náð að tileinka sér hógværð og lítillæti í samskiptum sínum við annað fólk og stæra sig ekki um of af verkum sínum. Í Háskóla Íslands, æðstu menntastofnun þjóðarinnar, hafa samtök félagshyggjufólks, Röskva, verið í forsvari fyrir alla stúdenta um nokkurt skeið. Á þessu tímabili hefur Röskva komið ýmsu góðu til leiðar, eins og oft vill verða um þá sitja í ábyrgðarstöðum, og hafa Röskvuliðar í gegnum tíðina verið ólatir við dásama starf sitt fyrir stúdenta. En eftir því sem á hefur liðið og verkin orðið minna stórkostleg, er eins og forráðamenn Röskvu keppist enn og frekar við að stæra sig af afrekum sínum og þá eru ekki spöruð stóru orðin.

Ágætt dæmi um þetta er grein Röskvuliðans Dagnýar Jónsdóttur í Morgunblaðinu í dag. Fyrirsögnin með greininni segir í raun allt sem segja þarf: Röskva bætir kennslu við Háskólann. Ekki hafa stúdentar við HÍ orðið varir við áþreifanlega framför í kennslu við Háskólann og enn síður að Röskva, sem hverfandi áhrif hefur á kennslumálin sem slík, hafi haft frumkvæðið að slíkri framför. Það er kannski alveg eins líklegt að einhver Röskvuliðinn skrifi grein þegar tekur að vora og haldi því fram að Röskva almáttug hafi lengt daginn og linað frostið í þágu stúdenta, sem hundleiðir voru orðnir á skammdegi og kulda.

Aðeins aftar í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Gylfa Magnússon, forstöðumann viðskiptafræðiskorar HÍ, þar sem hann gerir að umtalsefni auglýsingu Röskvu [í líki meirihluta stúdentaráðs] í Morgunblaðinu þar sem lýst var eftir einkunnum í ákveðnum námskeiðum. Grein Gylfa ber fyrirsögnina Óþolandi skortur á kraftaverkum og er hún einnig lýsandi fyrir framgöngu Röskvu í stúdentaráði. Staðreyndin er nefnilega sú að einkunnaskil kennara hafa batnað mikið en eins og Gylfi rekur í grein sinni eru sum námskeið það fjölmenn að ómögulegt er að komast yfir úrlausnirnar innan marka frestsins. En hvað gerir Röskva? Hleypur til og eyðir fjármunum stúdenta í auglýsingu í Morgunblaðinu í því augnamiði að auka vinsældir sínar meðal þeirra sem sífellt leita sökudólga. Þannig er það hjá Röskvu; þegar ekki er til að dreifa nógu safaríkum baráttumálum eru þau fabrikeruð og blásin upp.

Eins og að framan sagði hefur Röskva komið mörgum góðum málum til leiðar á valdatíma sínum. En þegar þróttur samtakanna beinist í æ ríkari mæli að innihaldslausum upphrópunum og sjálfsupphafningu, hljóta menn að spyrja sig hvort ekki sé komið að óumflýjanlegu og ótímabundnu leyfi frá valdastólum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.