Reykjavík fellur

Í nýlegri könnun Vísbendingar, tímarits um íslenskt atvinnulíf, kemur fram að Seltjarnarnes er draumasveitarfélag Íslendinga, eins og undanfarin ár.

Í nýlegri könnun Vísbendingar, tímarits um íslenskt atvinnulíf, kemur fram að Seltjarnarnes er draumasveitarfélag Íslendinga, eins og undanfarin ár. Nesið fær 7,5 í einkunn en við matið eru vegnir og metnir nokkrir þættir í rekstri sveitarfélaga. Segir m.a. í niðurstöðu Vísbendingar: „Margt er til fyrirmyndar í sveitarfélaginu, skuldir eru með því lægsta sem gerist og áfram er haldið að greiða niður skuldir, útsvarið er í lágmarki og mannfjöldinn helst tiltölulega stöðugur.“

Um árið kvað Reykvíkingur á þann veg, að Seltjarnarnesið væri lítið og lágt, að þar hugsuðu menn smátt. Ef marka má þessa könnun Vísbendingar er hæpið að Reykvíkingar geti lengur litið svo hnarreistir vestur á Nes. Sveitarfélagið Reykjavík fellur nefnilega um tólf sæti í þessari könnun frá síðasta ári og er nú í 13. sæti af þeim 32 sveitarfélögum sem tekin eru með í könnuninni. Að mati Vísbendingar er ástæðan fyrir falli Reykjavíkur fyrst og fremst útsvarshækkun og sú staðreynd að veltufjárhlutfallið er óhagstæðara en áður.

Því verður ekki haldið fram að könnun Vísbendingar sé algildur mælikvarði á hvar best sé að búa. En könnunin mælir hins vegar hlutlægum hætti hvernig þekktar stærðir í rekstri sveitarfélaga breytast frá ári til árs. Þótt borgarstjóri haldi því fram að pólitík snúist ekki um bókhald, þá er það engu að síður svo, að meðferð fjármuna af hálfu sveitarstjórna hefur veruleg áhrif á lífsskilyrði íbúa í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Könnun Vísbendingar tekur mið af þessari meðferð fjármuna. Undir stjórn R-listans fellur Reykjavík – og hún fellur hratt.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.