250 manns á biðlista

Timothy McVeigh verður tekinn af lífi í Indiana-ríki í Bandaríkjunum 16. maí næstkomandi. Hann var dæmdur til dauða fyrir morð á 168 manneskjum í mannskæðasta hryðjuverki á bandarískri grundu fyrr og síðar sem framið var í höfuðborg Oklahoma-ríkis fyrir tæpum sex árum.

Timothy McVeigh verður tekinn af lífi í Indiana-ríki í Bandaríkjunum 16. maí næstkomandi. Hann var dæmdur til dauða fyrir morð á 168 manneskjum í mannskæðasta hryðjuverki á bandarískri grundu fyrr og síðar sem framið var í höfuðborg Oklahoma-ríkis fyrir tæpum sex árum. Þrátt fyrir að aftökur séu fordæmdar af flestum lýðræðisþjóðum heims, er bandarískur almenningur hlynntur þeim upp til hópa. Illvígustu glæpamenn eru taldir eiga skilið hina endanlegu refsingu, að missa líf sitt. Uppreisnarástæður – hefnd – er talinn ríkur þáttur í afstöðu almennings og birtist þessi þáttur með áberandi hætti í máli McVeighs, þar sem 250 manns eru á biðlista eftir því að fá að fylgjast með aftökunni.

Venjan er sú, að átta aðstandendur fórnarlamba glæpamannsins er gefinn kostur á að fylgjast með síðustu andartökum hans. Er yfirvöldum því nokkur vandi á höndum við að koma þessum fjölda fyrir. Til samanburðar má nefna að fjöldi áhorfenda að aftökunni verður svipaður og að meðalhandboltaleik á Íslandi. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um hvernig mæta megi þessari eftirspurn. Ekki er talið að óhugsandi að aftökunni verði sjónvarpað um sérstakt kapalkerfi til þeirra sem telja sig eiga tilkall til að fylgjast með henni. Er það ekki svo mjög fjarri þeirri framkvæmd sem viðhöfð var í vestrinu til forna, að misyndismenn voru hengdir á almannafæri, þar sem úrgangur gekk úr öllum opum þeirra þegar snaran kippti í. En McVeigh nýtur þess vitaskuld, að hið opinbera mun sprauta hann með eiturefnum sem eyða honum innan frá.

Timothy McVeigh á skilið hin verstu örlög fyrir glæp sinn. Það er umhugsunarvert hvort líflát sé harðasta refsingin þegar ófreskja eins og McVeigh á í hlut. Líklega verður hann gerður af píslarvætti þeirra sem berjast gegn alríkinu með grófa og ömurlega rangtúlkun einstaklingsfrelsisins að vopni.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.