Bylting eigendanna

Á hluthafafundi í Walt Disney fyrirtækinu í gær var einum þekktasta forstjóra Bandaríkjanna velt úr stóli stjórnarformanns. Ekki veitir af að arftaki hans hefur reynslu af að leiða saman stríðandi fylkingar.

Eisner og Mikki á meðan allt lék í lyndi.

Árið 1984 var Disney í töluverðum erfiðleikum og undir forystu Roy Disney (náfrændi Walts) og Stanley Gold náði Disney fjölskyldan, sem enn er stærsti hluthafi í fyrirtækinu, að forða því frá fjandsamlegri yfirtöku. Í kjölfarið var stjórn fyrirtækisins stokkuð upp. Michael Eisner (sem á afmæli á sunnudaginn, 7. mars) var ráðinn sem forstjóri og stjórnarformaður til að leiða fyrirtækið upp úr öldudalnum. Eisner hafði áður getið sér gott orð sem stjórnandi hjá ABC sjónvarpsstöðinni og Paramount kvikmyndarisanum. Með Eisner voru ráðnir sem helstu stjórnendur þeir Frank Wells, sem lést í flugslysi árið 1994, og Jeffrey Katzenberg, sem Eisner rak það sama ár og stofnaði síðar Dreamworks kvikmyndafyrirtækið ásamt Steven Spielberg

Undir stjórn þeirra félaga reis félagið upp úr öskustónni og hóf nýja sókn inn á kvikmyndamarkaðinn með myndum fyrir fullorðna undir merkjum Touchstone. Árið 1996 keypti Disney ABC sjónvarpsstöðina, það var annar stærsti fyrirtækjasamruni í Bandaríkjunum fram að þeim tíma. Það sama ár komst Eisner í heimsfréttirnar þegar hann sá árangur erfiðis síns undanfarin tóf ár og innleysti hlutabréf sem hann fékk í bónus fyrir rúmar 560 milljónir dollara.

Mikki missir flugið

Að sögn gagnrýnenda átti Eisner einna stærstan þátt í að glata Nemo og félögum.

Síðustu ár hafa verið fyrirtækinu nokkuð erfið og það hefur ekki staðið samkeppninni snúning. Margt hefur verið gagnrýnt í rekstri fyrirtækisins en helst er hönd á það festandi að ABC sjónvarpsstöðin hefur tapað miklu áhorfi. Nú er aftur svo komið að tilboð hafa borist um yfirtöku á fyrirtækinu. Kapalrisinn Comcast gerði stjórn Disney tilboð, sem hún hafnaði samstundis þrátt fyrir að margir teldu það vænlegt. Það var lóð á vogarskálar þeirra sem hafa verið fremstir í gagnrýni sinni á stjórnun fyrirtækisins undanfarið.

Síðasta haust sögðu Roy Disney og Stanley Gold af sér úr stjórninni og hvöttu Eisner til að fara að þeirra dæmi. Þeir hófu svo opinbera herferð gegn Eisner sem náði hámarki á hluthafafundi í gær er rúm 43% hluthafa greiddu Eisner ekki atkvæði sitt til setu í stjórn félagsins. Stór þáttur í óánægju hluthafa mun vera að fyrir nokkrum dögum sleit Steve Jobs forstjóri Pixar viðræðum við Disney um áframhaldandi samstarf. Saman gerðu fyrirtækin mjög vinsælar teiknimyndir sem höluðu inn a.m.k. 3 milljarða dollara. M.a. Toy Story og hina frábæru Finding Nemo.

Stjórnin óhæf?

Ætli George Mitchell sé rétti maðurinn til að leiða Disney til fyrri frægðar eða hefur hann of mikið að gera í lögmannsstörum sínum?

Disney og Gold hafa gagnrýnt Eisner fyrir að safna í stjórnina já-mönnum, að hann sé algjör einvaldur í fyrirtækinu og stjórnin hafi því glatað sjálfstæði sínu og eftirlitshlutverki. Þeir félagar voru líka á móti nokkrum öðrum stjórnarmönnum: John Bryson fyrir að sitja í stjórn þrátt fyrir að eiginkona hans sé stjórnandi í Disneysamstæðunni; Judith Estrin fyrir að stjórna launanefnd stjórnarinnar vegna þess að Eisner hefur fengið yfir 700 milljónir dala frá fyrirtækinu síðan 1996, þ.á.m. yfir 11 milljónir samtals í bónusa fyrir 2002 og 2003; og síðast en ekki síst George Mitchell fyrir meint vanhæfi vegna reynsluleysis og anna í öðrum störfum.

Stjórnin virðist þó ekki alveg af baki dottin því hún kaus Mitchell nýjan stjórnarformann samhliða því að nú yrði skilið milli hlutverka stjórnarformanns og forstjóra, sem yrði eftir sem áður Michael Eisner. George Mitchell er okkur að góðu kunnur úr fréttum, en þessi fyrrum öldungardeildarþingmaður demókrataflokksins var lengi áberandi sem helsti sáttasemjari í vopnahlésviðræðum á Norður-Írlandi.

Verður Eisner aðeins sá fyrsti til að fjúka?

Disney og Gold telja Eisner hafa gleymt hefðinni og skorta framtíðarsýn. En hér er framtíðarsýn þeirra fyrir hönd Eisners.

Flestir spá því að Eisner hætti fljótlega, enda er hermt að hann eigi góða gyllta fallhlíf í fórum sínum, en veglegir starfslokasamningar vestanhafs eru kallaðir því nafni. Einna frægastur slíkra samninga, upp á 140 milljónir dala, er einmitt frá því þegar Eisner rak einn stjórnenda sinna Michael Ovitz eftir 14 mánaða starf árið 1996.

Djörfustu spámenn vestanhafs hafa nú velt vöngum yfir hvort ný bylting fjárfesta sé að hefjast. Að þeir verði gagnrýnari en áður á störf stjórnenda fyrirtækjanna og í kjölfar þessara atburða verði skorin upp herör gegn feitum bónusum og starfslokasamningum. Nú verði hluthafarnir í sviðsljósinu og ofurforstjórarnir fái að kenna á því. En það sem er alveg víst er að á næstu mánuðum verður fróðlegt að fylgjast með Disneysamsteypunni og að heldur betur mun reyna á sáttasemjarahæfileika George Mitchell.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)