Líknarfélög og erfðafjárskattur

T-boern-mette.jpgÞann 10. desember síðastliðinn lagði fjármálaráðherra fram frumvarp til laga um erfðafjárskatt. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi lög frá árinu 1984 um sama efni. Í frumvarpinu kemur fram að helstu breytingar miði að því að lækka skatthlutföll og hækka skattfrelsismörk og draga þar með úr jaðarskattsáhrifum. Samkvæmt frumvarpinu verður vikið frá stighækkandi skatthlutföllum sem í eðli sínu er ógagnsætt og flókið fyrirbæri. Þá verður einstaklingum í staðfestri samvist tryggð sömu réttindi og hjón og sambýlisfólk af gagnstæðu kyni hafa samkvæmt núgildandi lögum.

T-boern-mette.jpgÞann 10. desember síðastliðinn lagði fjármálaráðherra fram frumvarp til laga um erfðafjárskatt. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi lög frá árinu 1984 um sama efni. Í frumvarpinu kemur fram að helstu breytingar miði að því að lækka skatthlutföll og hækka skattfrelsismörk og draga þar með úr jaðarskattsáhrifum. Samkvæmt frumvarpinu verður vikið frá stighækkandi skatthlutföllum sem í eðli sínu er ógagnsætt og flókið fyrirbæri. Þá verður einstaklingum í staðfestri samvist tryggð sömu réttindi og hjón og sambýlisfólk af gagnstæðu kyni hafa samkvæmt núgildandi lögum.

Allar skattalækkanir eru að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni. Þá er það einnig fagnaðarefni að staða samkynhneigðra sé rétt samkvæmt frumvarpinu. Það skýtur hins vegar skökku við að í annars góðu frumvarpi um lækkun og einföldun erfðafjárskatts er lagt til að tekin verði upp 10% skattur á opinbera sjóði, líknar- og menningarstofnanir eða félög, sem hingað til hafa verið skattfrjáls. Dapurleg rök eru færð fyrir þessari breytingu í frumvarpinu, en þar segir einungis um þetta atriði: „… er talið að ekki séu lengur forsendur fyrir sérstökum undanþágum sem verið hafa í gildi hingað til auk þess sem það hefur valdið vandkvæðum í framkvæmd að meta framangreind atriði.“ Ef vandkvæði við mat er helsta ástæðan fyrir því að taka upp skatt á líknar- og menningarstofnanir má einfaldlega breyta ákvæðinu á þann veg að ekki fari á milli mála til hvers konar félaga og stofnana skattleysið nær til. Þannig fer það væntanlega aldrei á milli mála hvað er kirkja og réttast væri að sjálfsögðu að orða ákvæðið þannig að skráð trúfélög væru undanþegin erfðafjárskatti. Varðandi önnur líknarfélög og stofnanir mætti þar miða við þá aðila sem falla undir 4. tölulið 4. gr. laga um tekju- og eignarskatt, þ.e. lögaðilar…, ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Væri samkvæmt þessu ekki um flókið mat að ræða.

Líknar- og menningarfélög skipa ákveðinn sess í vestrænum þjóðfélögum og er hlutverk þeirra að einhverju leyti að hlúa að bágstöddum eða menningarstarfi þar sem stuðningi eða aðkomu ríkisins sleppir. Hægt er að fullyrða að almenn sátt ríki um það í þjóðfélaginu að slík félög og stofnanir séu undanþegin skatti, svo sem lengi hefur verið raunin.

Eðlilegast er að sjálfsögðu að hlúa sem best að lagaramma og skattleysi fyrir slík félög og gera þeim þannig kleift að taka að sér verk sem ríkið hefur ekki á höndum og í mörgum tilvikum mætti ríkið hreinlega hætta stuðningi sínum eða í það minnsta draga verulega úr honum, t.d. við suma menningarstarfsemi, og leyfa samfélaginu frekar að reka og veita slíka þjónustu í gegnum menningarfélög, sem ríkið lætur þá afskiptalaus í formi skattleysis.

Þá er ljóst að sú þjónusta sem líknar- og menningarfélög veita, oft á tíðum með fórnfúsu sjálfboðaliðastarfi, skilar sér margfalt til baka til þjóðfélagsins og sparar ríkinu þannig ákveðin fjárútlát. Það er, slík félög veita þjónustu sem ella væri krafa um að ríkið veitti þegnum landsins, má þessu til stuðnings nefna starf félagasamtaka á borð við Krabbameinsfélagið og Kvenfélagið Hringinn.

Að hverfa frá þeim sjálfsagða stuðningi ríkisvaldsins við líknar- og menningarfélög sem felst í undanþágu frá skatti er óheillaskref. Vonandi verður annars góðu frumvarpi breytt til betri vegar í meðförum þingsins.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.