Fram, fram í framboð!

asthor.jpgÍslendingar munu á árinu velja sér forseta. Ástþór Magnússon er einn þeirra sem hyggjast skila inn framboði og hefur framboð hans hefur verið gagnrýnt fyrir að kalla á of mikinn kostnað m.v. líklegt fylgi. Pistlahöfundur telur alla slíka umræðu vera til þess fallna að grafa undan þeim lýðræðislegu gildum sem þjóðfélag okkar byggir á.

Ástþór Magnússon Wium ásamt eiginkonu sinni, hinni rússnesku Natalíu Wium. Þau gengu í hjónaband fyrir rúmum hálfum mánuði.

Umræðan um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, sem munu eiga sér stað í nóvember á þessu ári, hefur verið afar áberandi í fjölmiðlum upp á síðkastið og kemur líklegast einungis til með að aukast eftir því sem nær dregur. Spennan nú snýst um það hver verður forsetaefni Demókrata og þegar það er endanlega komið á hreint mun slagur Demókrata við Bush hefjast fyrir alvöru og allur heimurinn mun fylgjast með í ofvæni.

En það eru ekki bara Bandaríkjamenn sem ganga til kosninga um forseta sinn á árinu. Íslendingar munu einnig fá tækifæri til að velja sér þjóðhöfðingja í ár þó umræðan um þær kosningar muni líklegast ekki ná athygli alls heimsins eins og þær fyrrnefndu. Þær kosningar verða þó engu að síður mikilvægar fyrir a.m.k. þær örfáu hræður sem hér búa og fjölmiðlaumfjöllun um þær mikil, þó hún muni að öllum líkindum ekki heldur teygja sig mjög langt út fyrir landsteinana.

Þegar hafa komið fram nokkrir aðilar sem hafa hug á að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Þar á meðal er Ástþór Magnússon sem beið ósigur í síðustu forsetakosningum sem fram fóru hér á landi. Ástþór fékk þá einungis 2,6% greiddra atkvæða. Hann lætur þó engan bilbug á sér finna og kemur tvíefldur til leiks fyrir þessar kosningar með heimasíðu, forsetasamning, eiginkonu og tombólu og er, af yfirlýsingum sínum að dæma, sannfærður um að hann muni verða næsti forseti Íslands.

Það er kannski of sterkt til orða tekið að halda því fram að fyrirhugað framboð Ástþórs hafi kallað á neikvæða umræðu um forsetaembættið. Slík umræða hefur verið til staðar lengi. Hins vegar hefur síður en svo slegið á umræðuna að maður sem fékk einungis stuðning 2,6% þjóðarinnar við síðasta framboð skuli geta orðið þess valdur að halda þarf kosningar með öllum þeim tilkostnaði sem því fylgir.

Í ríki sem státar sig af lýðræði er ótækt að gagnrýni á kosningar eða embætti byggist á því að fólk sem uppfyllir öll skilyrði kjörgengis geti boðið sig fram. Það er rétt að lýðræðinu fylgir ýmis kostnaður og einnig nokkur áhætta. Það er ekki tími hér til að fara ofan í saumana á kostum og göllum lýðræðis enda ekki endilega þörf á því. Það nægir að segja að það er engin tilviljun að lýðræðislegt stjórnskipulag hefur verið talið fylgjast að við virðingu fyrir mannréttindum, vilja einstaklinganna og frelsi. Þetta eru þau gildi sem Íslendingar hafa í gegnum árin viljað tileinka og sér og í því felst einfaldlega að þeir sem uppfylla skilyrði kjörgengis mega bjóða sig fram.

Umræða um forsetaembættið er þörf og er pistlahöfundur alls ekki meðal þeirra sem verja tilvist þess með kjafti og klóm. Hún mun hins vegar verja lýðræðislegar og opnar kosningar hvar og hvenær sem er. Embætti forseta Íslands er til. Það kann að vera óþarft, en það er til. Þess vegna má Ástþór Magnússon bjóða sig fram – svo fremi sem hann uppfyllir öll skilyrði til þess þegar kemur að því að skila inn framboði. Ef vilji fólks stendur til að koma í veg fyrir slík framboð eða tilkostnað við forsetakosningar væri nær að reyna að komast að niðurstöðu um embættið sjálft en ekki að ráðast á frambjóðendurna.

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)