Hvað er þá verið að þvo af vörunni?

sveppir_01.jpgNú er víst verið að pranga upp á Íslendinga útlensku grænmeti sem þykist vera íslenskt og í ofanálag er því haldið fram að sumt útlenskt grænmeti sé þvegið með íslensku vatni. En íslenska vatnið er auðvitað ekki nóg. Það þarf líka íslenska sápu. Meira að segja til þess að þvo alíslenska ráðherra – hvað þá útlenskt grænmeti.

sveppir_01.jpgÍsólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri í Hrunamannahreppi, er áhyggjufullur maður. Íbygginn á svip kom hann fram í Ríkissjónvarpinu í gær til þess að vara íslenska neytendur við þeim blekkingarleik sem hann segir að innflytjendur útlensks grænmetis hafi gripið til þess að jafna samkeppnisstöðu sína við íslensku framleiðendurna. Nú þykjast útlenskir sveppir víst vera íslenskir.

Raunar hefur sveitarstjórinn miklar áhyggjur af þessu máli öllu saman og fyrir skemmstu birti hann prýðilega grein í Morgunblaðinu þar sem farið var yfir stöðu mála. Þar sagði þingmaðurinn fyrrverandi m.a.:

„Gaman er að fylgjast með framþróun í þessum efnum þar sem garðyrkjubændur sækja sér æ meiri fræðslu til Hollands sem er í raun það land sem er grænmetismiðstöð Evrópu. Það er löngu viðurkennt að íslenskar matvörur eru í hæsta gæðaflokki. Við gefum því alltof sjaldan gaum. Hráefnið er ferskt enda loftið hér heilnæmt og við eigum alla möguleika til þess að vernda hreinleikann.“

Já já. Vernda hreinleikann. Skárra væri það nú.

Og sveitarstjórinn fjallar líka um osta:

„Að undanförnu hafa Neytendasamtökin verið að tala um hátt verð á íslenskum ostum. Menn deila að vísu um niðurstöður þeirrar könnunar. Víst er að ostaframleiðslu á Íslandi hefur fleygt fram. Gott hráefni og ostameistarar okkar eru lykillinn að góðum árangri í ostagerð, en þeir hafa lært hjá frændum okkar í Danmörku og er það vel. Enda sækjum við grunninn í matargerðarlist okkar þangað. Gott og nauðsynlegt er að eiga virk neytendasamtök.“

Jú jú. Gott að eiga virk neytendasamtök. Þau geta til dæmis hjálpað okkur þegar útlenskir grænmetisframleiðendur láta sveppina sína þykjast vera íslenska.

Og svo var hann líka í sjónvarpinu formaður Félags íslenskra grænmetisbænda. Hann var þungur á brún og talaði um útlensk salatblöð en á umbúðum einhverra þeirra mun því vera haldið fram að þau séu þvegin með íslensku vatni. Þau þykjast ekki vera íslensk en svona næstum því.

Formaðurinn sagði að slík merking væri nú ekki mjög hughreystandi; menn hlytu að velta því fyrir sér hvað sé verið að hreinsa af útlenska salatinu.

Jah. Ekki efast ég um hvað það er… Það eru náttúrlega útlensku óhreinindin sem þarf að þrífa af salatinu – og þá dugir væntanlega ekkert annað en íslenskt vatn. Íslenski hreinleikinn smitast þá kannski yfir á útlenska óhreinleikann.

En það eru nú ekki allir framsóknarmenn eins vissir um ágæti íslensks vatns og þeir Ísólfur Gylfi og formaður grænmetisbænda. Til dæmis hún Valgerður Sverrisdóttir. Hún fór í sturtu í gær og bauð ljósmyndurum með. En íslenska vatnið var greinilega ekki nóg til að þrífa Valgerði, þótt einhverjir segi að það dugi til að hreinsa útlenskt grænmeti.

Það þarf sápu. Og Valgerður var að prófa nýja sápu. Hún er sérgerð fyrir Ísland. Íslensk sápa í íslensku vatni. Hreinna getur það ekki orðið hefði maður haldið.

Og það sér auðvitað hver heilvita maður að ef það þarf bæði íslenskt vatn og íslenska sápu til þess að þrífa íslenskan ráðherra þá er yfirlýsing um að útlenskt grænmeti sé þvegið með íslensku vatni ekki mjög hughreystandi. Það þarf líka sápu!

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.