Horfur í fríverslun

fruits of free trade.jpgAllt frá endalokum síðari heimstyrjaldar hefur ákveðin eining verið ríkjandi innan alþjóðakerfisins; draga skuli úr tollum og öðrum viðskiptahömlum, forðast verði eftir fremsta megni viðskiptastríð milli ríkja, og að vænlegasta leiðin til að ná þessum markmiðum sé í gegnum fjölþjóða fríverslunarsamninga. En eftir hina misheppnuðu samningalotu í Cancun, s.l. haust, er hins vegar óvíst hvert framhaldið verður.

fruits of free trade.jpgAllt frá endalokum síðari heimstyrjaldar hefur ákveðin eining verið ríkjandi innan alþjóðakerfisins; draga skuli úr tollum og öðrum viðskiptahömlum, forðast verði eftir fremsta megni viðskiptastríð milli ríkja, og að vænlegasta leiðin til að ná þessum markmiðum sé í gegnum fjölþjóða fríverslunarsamninga. Í meginatriðum hefur þessi stefna skilað sér vel. Síðan 1950 hafa heimsviðskipti aukist um 2200%.

Doha-lotan svokallaða, sem hleypt var af stokkunum í nóvember 2001, var viðleitni í þessa átt. Aðalmarkmið hennar var að minnka viðskiptahömlur á þeim sviðum sem fríverslun gagnaðist fátækum ríkjum hvað mest – einkum landbúnaði. Síðustu forvöð til að ljúka þessum markmiðum, átti upphaflega að vera í árslok 2004. Nánast engar líkur eru á því að það takist. Hörmungarnar í Cancun, s.l. september, sáu um að svo yrði. Hverjar afleiðingarnar eiga eftir að verða, er enn óljóst. Í versta falli, gætu þær orðið til þess, að Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) liðaðist í sundur. Sá sem segði að slíkt væri nú fullmikil bölsýni, hefði sennilega nokkuð fyrir sér. En möguleikinn er samt sem áður fyrir hendi.

Höldum okkur á neikvæðu nótunum. Úr því sem komið er, þá væri það fagnaðarefni ef hægt væri að endurlífga samningaviðræður Doha-lotunnar einhvern tíma á þessu ári. En jafnvel það, mætti flokka undir óskhyggju. Margar ástæður eru fyrir því. Víkjum að þeim þremur helstu.

Fyrst má nefna, að sá aðili sem helst gæti blásið nýju lífi í Doha-lotuna, Bandaríkin, hafa í síauknu mæli verið að kanna möguleika sína á að gera tvíhliða- og svæðisbundna fríverslunarsamninga. Frá sjónarhóli Bandaríkjastjórnar, er þetta betri valkostur heldur en fjölþjóðasamningar undir stjórn WTO. En þótt þess háttar samningar séu í sjálfu sér alls ekki slæmir, þá eru þeir lakari en fjölþjóða fríverslunarsamningar. Og þá sérstaklega fyrir fátækustu þjóðirnar. Í WTO eru ákvarðanir teknar samhljóða og hafa allar þjóðir neitunarvald. Áhrif fátækustu þjóðanna eru því mun meiri þar, heldur en þau hefðu nokkurn tímann gagnvart Bandaríkjunum í tvíhliða samningum.

Að undanförnu hefur sú tilhneiging farið vaxandi í bandarískum stjórnmálum, að tala gegn fríverslun. Þetta hefur verið sérstaklega áberandi hjá forsetaframbjóðendum Demókrataflokksins. Joe Lieberman er þar kannski eina undantekningin. Þessi ábyrgðarlausa afstaða þeirra er undarleg í ljósi þess, að Demókratar hafa jafnan verið hlynntir fríverslun (frekar en Repúblikanar), eða allt frá tímum Franklin Roosevelt. Og þótt margt slæmt megi hafa um Bill Clinton, þá gerði hann mjög vel í þeim efnum. Forsetakosningarnar fara svo fram í byrjun nóvember og munu þær án efa, lita alla umræðu sem varðar fríverslun – til hins verra.

Það sem mætti nefna í þriðja lagi og gerir það ósennilegt að þráðurinn verði tekinn aftur upp á þessu ári, er stækkun Evrópusambandsins. Pascal Lamy, sem fer með viðskiptamál sambandsins, gaf til kynna strax eftir Cancun, að Evrópusambandið myndi ekki snúa aftur til viðræðna um fríverslun á næstunni. Á þessu ári mun það vera annars hugar, að taka við nýjum aðildarríkjum. Það verður því að teljast ólíklegt að mikill áhugi verði á þeim bænum gagnvart Doha-lotunni.

Það leynast þó bjartsýnismenn inn á milli. Einn þeirra, Jagdish Bhagwati, prófessor í hagfræði við Columbia háskóla, skrifar ítarlega grein í nýjasta hefti Foreign Affairs, sem kallast “Don´t cry for Cancun”. Hann segir meðal annars, að þrátt fyrir hrun Cancun fundarins, séu hlutirnir ekki næstum því eins slæmir og þeir virðist vera. Hann gerir lítið úr þeim samanburði sem ýmsir hafi komið með, að Cancun hafi verið Seattle 1999, eins og fljótlega muni koma í ljós þegar fram líða stundir og viðræður um Doha-lotuna haldi áfram. Það verði hægt að bæta fyrir skaðann sem varð í Cancun fljótt.

Bhagwati telur að hótanir Bandaríkjastjórnar um að horfa frekar til tvíhliða fríverslunarsamninga, verði til þess að þjóðirnar komi fljótt aftur að samningaborðinu. Þegar reiðikastið hafi runnið af þeim, þá muni þær sjá að engin hagur sé af því að Doha-lotan mislukkist. Ekki sé heldur ástæða til að hafa áhyggjur af því, þótt ekki náist að ljúka markmiðunum fyrir upphaflegan frest. Þótt það hafi aldrei verið viðurkennt opinberlega, þá hafi alltaf verið litið á markmiðið sem alltof djarft. Vísar hann til fyrri reynslu. Uruguay-lotan hafi tekið átta ár, fremur en áætluð þrjú ár.

En hvað svo sem mun verða á þessu ári, þá er það fyrir öllu að viðræðurnar haldi áfram og vel fram yfir upphaflegan tímafrest, ef þess gerist þörf. En til að svo verði, þarf einhver að sýna frumkvæði og taka fyrsta skrefið. Og sá aðili er vitaskuld Bandaríkin. Allar hugdettur um að ætla að reiða sig á forystuhlutverk Evrópusambandsins í þessum efnum, meðan Bandaríkin er utan við sig, eru vægast sagt hlægilegar.