Slúður í stjórnsýslu

Jón Ólafsson hefur höfðað mál vegna þess að upplýsingar um stöðu rannsóknar á skattamálum hans hafa borist fjölmiðlum áður en hann hefur sjálfur fengið þær. Áhugavert verður að fylgjast með framgangi þessa máls. Það virðist nefnilega vera sem fjölda íslenskra ríkisstarfsmanna finnist það sjálfsagt mál að leka trúnaðarupplýsingum um viðfangsefni sín í fjölmiðla.

Í síðustu viku fór Jón Ólafsson fram á svör við því með hvaða hætti embætti ríkislögreglustjóra og skattrannsóknastjóra hafi haft samband við fjölmiðla og hvaða upplýsingar embættin hafi veitt þeim. Kemur fram í kröfunni rökstuðningur fyrir því að annað hvort embættið hafi lekið upplýsingum um málið til fjölmiðla.

Sama hvað mönnum finnst um Jón Ólafsson, sem seint verður talinn í uppáhaldi hjá undirrituðum, og hvort sem leki hefur átt sér stað í þessu tilviki eður ei, þá verður því ekki neitað, að með þessari kvörtun hans kemur upp á yfirborðið sívaxandi mein í íslensku þjóðlífi. Það virðist nefnilega vera sem fjölda íslenskra ríkisstarfsmanna finnist það sjálfsagt mál að leka trúnaðarupplýsingum um viðfangsefni sín í fjölmiðla.

Af einhverjum ástæðum virðist það vera þannig að sumir einstaklingar innan stjórnsýslunnar verði svo upp með sér yfir athygli, frá fjölmiðlum að þeir láti flest flakka og skeyti litlu um trúnað eða aðrar starfsskyldur. Jafnframt þekkist það að opinberir starfsmenn leki upplýsingum í fjölmiðla, að því er virðist til að auka hróður embættisins eða í von um auknar fjárveitingar.

Umkvörtunarefni Jóns er, ef réttmætt reynist, síður en svo einsdæmi um slíkan leka. Í greininni Lek Samkeppnisstofnun er alvarlegt mál.

Yfirmenn stofnunarinnar hafa borið af sér sakir og gefið til kynna að lekinn stafi frá félögunum sjálfum. Slíkar fullyrðingar eru svo ósennilegar, að þær jaðra við að vera óskammfeilnar. Lekinn er í öllum tilvikum slæmur fyrir olíufélögin sem grefur verulega undan öllum slíkum fullyrðingum. Það verður að teljast afskaplega ósennilegt að félögin séu að skaða sig með kerfisbundnum leka í næstum alla fjölmiðla á landinu. Einnig hafa birst trúnaðarupplýsingar um öll félögin sem þýðir að sá, sem ber ábyrgð á lekanum, hefur haft víðtækari aðgang að trúnaðarupplýsingum en hvert einstakt félag. Það vekur jafnframt athygli að mál félaganna eru einnig til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra, og þaðan hafa engar fréttir borist. Einungis viðskipti félaganna við Samkeppnisstofnun komast í alla fjölmiðla örstuttu eftir að þau eiga sér stað. Það er því fráleitt að halda því fram að olíufélögin séu sjálf að leka þessum trúnaðarupplýsingum.

Það sem veldur mestum áhyggjum er að þær upplýsingar sem verið er að leka frá Samkeppnisstofnun eru líklega einungis í höndum örfárra yfirmanna innan stofnunarinnar. Sem dæmi má nefna að einungis þrír af æðstu yfirmönnum stofnunarinnar sátu sáttafund í síðustu viku en upplýsingar frá þeim fundi voru komnar í fjölmiðla innan nokkurra klukkustunda frá því að honum lauk. Að vanda voru fréttirnar af þeim fundi verulega neikvæðar fyrir olíufélögin. Það þýðir að miklar líkur séu á því að einhverjir af æðstu ráðamönnum stofnunarinnar séu ítrekað að brjóta starfs- og trúnaðarskyldur sínar í starfi.

Burtséð frá því hvað mönnum finnst um ásakanirnar á hendur olíufélögunum þá er það alltaf verulegt áhyggjuefni ef æðstu ráðamenn opinberrar stofnunar eru tilbúnir til að brjóta lög en á starfsmönnum samkeppnisstofnunar hvílir fortakslaus trúnaðar- og þagnarskylda í starfi svo sem kveðið er á um í 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og 50. gr. samkeppnislaga.

Það vekur athygli að þrátt fyrir dæmi um meintan leka í máli Jóns Ólafssonar, augljósan leka í Landsímamálinu og máli Olíufélaganna þá hafa embættin ekki sjáanlega brugðist við. Þessi mál hafa ekki verið rannsökuð, eða athuguð á nokkurn hátt. Þetta áhugaleysi bendir sterklega til þess að yfirmenn innan embættanna sjái ekki hag sinn í því að rannsaka þau. Staðreyndin er hins vegar sú, að á meðan ekki er brugðist við, munu þessi lögbrot opinberra starfsmanna halda áfram. Embættin ein geta tekið á þessu því fjölmiðlar munu væntanlega aldrei sjá ástæðu til að vekja athygli á eða fetta fingur út í þessi lögbrot þar sem þeir væru þá að slá á hendina sem færir þeim fréttnæmar upplýsingar.

Mál Jóns Ólafssonar verður það fyrsta þar sem reynir á þessar ávirðingar. Vonandi verður það til þess að embættin taki á þessum málum, geri hreint fyrir sínum dyrum og stöðvi ólöglegt flæði upplýsinga til fjölmiðla.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.