Gleðileg jól

Gleðileg jólHvernig les upplýst fólk á 21. öldinni Biblíuna? Er Biblían höfundarverk Guðs eða safn hugleiðinga og frásagna fólks sem leitaði sannleikans og leitaði Guðs í lífi sínu og í mannkynssögunni?

Um þetta fjallar Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson í jólahugvekju sinni á Deiglunni. Deiglan óskar lesendum sínum gleðilegra og friðsælla jóla.

Gleðileg jól!Halldór Hansen, barnalæknir, sem lést á árinu sagði mér frá því að Sigurður Nordal, sá mikli lærdómsmaður, hefði sagt að hann hefði ríka samúð með því fólki sem væri hikandi og leitandi í trúmálum en hann óttaðist það fólk sem teldi sig hafa fundið sannleikann.

Trúin er leyndardómur. Hún verður seint útskýrð út í hörgul. Þar verður hver og einn að feta sinn veg og bera virðingu fyrir vegferð annarra. En Biblían geymir dýpstu hugrenningar um samband mannsins við Guð og í Biblíunni fáum við vitnisburð um Jesú frá Nazaret sem er hjarta Guðs og opinberun kærleika hans. Þess vegna er dýrmætt að minnast fæðingar hans og halda gleðileg jól.

Við lesum um fæðingu Jesú í Mattheusar- og Lúkasarguðspjalli og eru frásögurnar ekki alveg samhljóma. Hjá Mattheusi er smiðurinn Jósep framarlega á sviðinu og þar koma vitringarnir til sögunnar og þar segir frá ákvörðun Heródesar um að myrða öll sveinbörn yngri en tveggja ára. Það var þess vegna sem Jósep fór með Maríu og drenginn til Egyptalands þar sem þau dvöldu þar til hættan var um garð gengin.

Lúkas nefnir ekki þessa atburði. Mattheusarguðspjall er gyðinglegast guðspjallanna og hér er greinilega verið að tengja Jesús við Móses en lífi hans var ógnað á sama hátt og lífi Jesú og báðir koma þeir frá Egyptalandi – hvor með sinn sáttmála; þann gamla og hinn nýja.

Fyrri sáttmálinn kom af fjallinu Sinai en sá síðari er Fjallræðan þar sem Jesús talar um guðsríkið.

Í frásögn Lúkasar er það yngismærin María sem er í aðalhlutverkinu. Barnið fæðist og er lagt í jötu og fjárhirðar votta nýfæddum konungi virðingu. Lúkasi er umhugað um að koma strax að kjarna málsins – að Jesús var konungur og það voru þeir fátæku og smáu í þjóðfélaginu sem lutu fyrst konungdómi hans.

Mikilvægi þessara frásagna felst ekki í því hvort vitringar eða fjárhirðar komu að sögunni eða hvort Jesús var lagður í jötu eða hvort farið var til Egyptalands. Það má vel vera að hvorug þessara frásagna sé nákvæm sagnfræði. Það má einu gilda. Mikilvægið felst í því að báðar frásögurnar halda fram þeirri niðurstöðu að þetta barn sem fæddist var Jesús konungurinn, frelsarinn. “Immanuel – Guð er með oss.”

Enginn fræðimaður í ritningunum, sem tekinn er alvarlega, telur fæðingarfrásögurnar vera sagnfræði heldur er litið á þær og þær túlkaðar sem táknmál trúarinnar og guðfræðinnar. En það þarf vissulega ekki að hagga við trúarsannfæringu okkar. Þvert á móti styrkir það samband okkar við Guð þegar þessar sögur og annað í trúarbrögðunum misbýður ekki skynsemi okkar. Það er erfitt að trúa með hjartanu ef skynsemi og skilningur fylgir ekki með. Gleymum því ekki að Guð gefur okkur skynsemina og hæfileikann til að trúa og hvoru tveggja þarf að vera í jafnvægi.

Mikilvægi þessara frásagana felst í því að þessi Jesús – sem gekk um og gerði gott, læknaði sjúka og gerði þá kröfu að við ættum að elska Guð af öllu hjarta og náungann eins og okkur sjálf – hann var opinberun Guðs með einstæðari hætti en áður hafði þekkst eða hefur orðið síðan. Það er þess vegna rétt og skilt að minnast fæðingar hans og það gerum við best með því að nota tilefnið til að glæða guðdómsneistan sem býr innra með okkur sjálfum.

Þetta eru frábærar sögur sem við lesum fremst í guðspjöllunum um fæðingu frelsarans og tilveran væri fátæklegri án fjárhirðanna og jötunnar, englakórsins og vitringanna sem fylgdu stjörnunni og færðu nýfæddum konungi gjafir. Þessar sögur hafa sannarlega allar trúarlegar tilvísanir en það er ekki nauðsynlegt að trúa þeim bókstaflega.

Þær benda allar á Jesú sem fæddist sem barn og ólst upp hjá góðum foreldrum og fór út á götur og torg og prédikaði um þann Guð sem gefur og krefur; gefur gæsku og góðvild, sem lýsir upp og viðheldur vonarneista og kærleika í veröldinni; en krefur manninn um að hann á að bera ábyrgð á sjálfum sér. En þó ekki aðeins á sjálfum sér heldur einnig samferðafólki sínu. Við eigum að bera hvers annars byrðar. Við eigum að gæta bræðra okkar og systra.

Jólin eru góður tími til að styrkja samband okkar við Guð en það gerum við best með því að horfa til Jesú og læra af honum og við eigum líka að styrkja samband okkar hvert við annað. Þá eigum við gleðileg jól.

Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)