11/12

Sönn vinátta er eitt það dýrmætasta sem nokkur maður getur eignast í lífinu. Vináttan er höfundi einkar hugleikin í dag.

aesop12.jpgÍ frægri dæmisögu Esóps er fjallað um tvo ferðalanga sem rákust á bjarndýr á ferðalagi sínu. Annar mannanna var snöggur til; klifraði upp í tré og faldi sig. Hinn sá að undankomu var ekki auðið, kastaði sér á jörðina, hélt niður í sér andanum og þóttist vera dauður. Björnin kom upp að honum, snerti hann með trýninu og þefaði af honum frá toppi til táar. Björnin yfirgaf svæðið fljótlega þar sem birnir borða ekki hræ. Eftir að björnin fór klifraði hinn ferðalangurinn niður úr trénu og spurði vin sinn hverju björnin hefði hvíslað í eyrað hans. „Hann gaf mér þetta ráð“ svaraði ferðafélaginn. „Aldrei ferðast með vini sem yfirgefur þig þegar hætta nálgast“.

Boðskapur þessarar gömlu dæmisögu er að erfiðleikar séu prófsteinn á vináttu. Vinátta snýst nefnilega ekki um að standa með einstakling þegar vel gengur heldur einnig þegar eitthvað bjátar á. Það er ekki fyrr en vandi eða erfiðleikar steðja að sem styrkleiki vináttunnar kemur í ljós. Það gildir nefnilega það sama um vináttuna og hjónaband, hún er í blíðu og stríðu.

Við þekkjum fjölmörg dæmi um einstaklinga sem horfðu upp á svokallaða vini hverfa sem dögg fyrir sólu um leið og þeir fóru að eiga erfitt. Alla vega virðist það einkenna næstum allar „átakanlegar reynslusögur“ sem birtast á prenti hér á landi að hinir meintu vinir séu fljótir að yfirgefa viðkomandi sögumann. Það er eflaust sárt að missa alla vini sína á þennan hátt en spyrja má hvort umræddir einstaklingar séu ekki mun betur settir vinalausir en með falska vini.

Það er kannski kaldhæðnislegt að þurfa að ganga í gegnum einhverja eldraun til að geta auðkennt hverjir séu raunverulegir vinir. En vandinn þarf ekki að vera sérlega stór eða tilkomumikill til þess að hann gagnist við að aðgreina raunverulega vini frá þeim fölsku. Raunin er sú að allir þurfa að ganga í gegnum einhverja erfiðleika í lífinu, stóra sem smáa, og þá kemur eðli vináttunnar fljótlega í ljós. Stundum verðum við fyrir vonbrigðum með fólk sem við töldum okkur geta treyst en oftar en ekki fáum við staðfestingu á góðu innræti þeirra sem standa okkur næst. Og þegar við kynnumst slíku fólki sem stendur með manni í gegnum alla erfiðleika þá er okkur hollast að halda fast í viðkomandi.

Hetjufrásagnir af fólki sem kaus að standa og falla með vinum sínum finnast í öllum þjóðfélögum. Eins er enginn skortur á sögum af fólki sem stendur frammi fyrir því að auðveldast og þægilegast sé að svíkja vini sína og/eða yfirgefa þá. Oftar en ekki var rífleg umbun í boði fyrir að gefa vini sína upp á bátinn. Stundum stenst fólk prófraunina en oftar segir sagan að fólk falli á dramtískan hátt. Ætli frægasta sagan af þessum toga hafi ekki átt sér stað í grasagarðinum Getsemane fyrir tæplega 2000 árum síðan. Þá brást viðkomandi illilega sem átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar.

Þrátt fyrir hetjuljómann sem einkennir flestar sígildar frásagnir um gildi traustrar vináttu þá eru nákvæmlega sama hugsun á bak við gjörðir sögupersónanna og okkar sjálfra þegar við stöndum frammi fyrir vinum okkar sem eiga bágt og/eða þurfa á okkur að halda. Metum við okkar eigin hagsmuni þyngri en vináttuna? Erum við tilbúin að fórna vini okkar fyrir persónulegan gróða eða þægindi?

Þeir sem svara þessum spurningum neitandi eru sannir vinir. Þess vegna eigum við að ríghalda í þá vini okkar sem hafa sýnt okkur tryggð, hjálpsemi og umburðarlyndi þegar við höfum þurft á því að halda.

Þeir eru hetjur.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.