Hvert atkvæði á 1.500 kr.

Í gær fór fram atkvæðagreiðsla í Reykjavík sem bróðurparturinn af borgarbúum sá ekki ástæðu til að taka þátt í, þótt verið væri að kjósa um eitt umtalaðasta málefni borgarinnar hin síðari ár.

Í gær fór fram atkvæðagreiðsla í Reykjavík sem bróðurparturinn af borgarbúum sá ekki ástæðu til að taka þátt í, þótt verið væri að kjósa um eitt umtalaðasta málefni borgarinnar hin síðari ár. Undanfarnar vikur og mánuði hefur umfjöllun um mögulegan flutning Reykjavíkurflugvallar eftir 2015 tröllriðið þjóðfélagsumræðunni og skoðanakannanir hafa sýnt fram á mikinn áhuga borgarbúa á þessu máli. Af hverju er þá þátttakan ekki meiri en raun ber vitni? Ástæðan er einföld: mikill meirihluti borgarbúa sá að lokum í gegnum blekkingarleik R-listans í málinu.

Henni var ætlað það hlutverk að beina athygli borgarbúa frá ábyrgð núverandi meirihluta á málinu og þeirri ósamstöðu sem ríkir innan R-listans um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Í nafni „borgaralýðræðis“ var því haldið að fólk, að það fengi einhverju um það ráðið, hvar flugvöllurinn yrði staðsettur eftir fimmtán ár. En atkvæðagreiðslan hafði hvorki formlega né efnislega þýðingu – og sem betur fer, þá nennir meirihluti fólks ekki að láta hafa sig fífli með þátttöku í slíkri atkvæðagreiðslu.

Niðurstaðan er áfall fyrir þá sem í hjarta sínu vilja sjá flugvöllinn á burt, þar sem öflugur málflutningur þeirra hlaut ekki hljómgrunn hjá borgarbúum. En hún er enn meira áfall fyrir R-listann. Hvert atkvæði sem greitt var í þessum marklausu kosningum kostaði borgarbúa um fimmtánhundruð krónur, eða 40-50 milljónir króna í það heila. Eftir situr borgarstjóri með síðasta hálmstráið í höndunum; siðferðslega skyldu, sem felst í að virða að vettugi fyrirfram samþykktar reglur um atkvæðagreiðsluna. Að mati DEIGLUNNAR markar þessi sneypuför R-listans upphafið að undanhaldi hans í Reykjavíkurborg.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.