Sósíalistar ná París

Franskir sósíalistar eru komnir til valda í París undir forystu hins geðþekka Bertrands Delanoe. Hægri flokkur Jacques Chiracs, núverandi Frakklandsforseta og fyrrverandi borgarstjóra Parísar, hefur haldið borginni undanfarinn aldarfjórðung og því er um vatnaskil í franskri pólitík að ræða.

Franskir sósíalistar eru komnir til valda í París undir forystu hins geðþekka Bertrands Delanoe. Hægri flokkur Jacques Chiracs, núverandi Frakklandsforseta og fyrrverandi borgarstjóra Parísar, hefur haldið borginni undanfarinn aldarfjórðung og því er um vatnaskil í franskri pólitík að ræða. En ofsögum er þó sagt, að um sé að ræða almenna vinstri bylgju í Frakklandi, því sósíalistar töpuðu víða fylgi í nýafstöðunum sveitarstjórnarkosningum.

Lionel Jospin, sósíalisti og forsætisráðherra Frakklands, hefur vitaskuld fagnað sigri sinna manna í París. Þessi vatnaskil eru almennt talin auka líkur Jospins á að verða forseti ef hann býður sig fram gegn Chirac í forsetakosningum á næsta ári. Ríkisstjórn sósíalista hefur mistekist að ná flestum af þeim markmiðum sem að var stefnt, ef frá er talið að atvinnuleysi í Frakklandi er með því minnsta sem gerist. Það kemur þó ekki til af góðu, því atvinnuþátttaka er að miklu leyti ríkisfabrikeruð með því að atvinnurekendur eru þvingaðir til að hafa fleiri í vinnu en nauðsynlegt er, m.a. með lögum um hámarksfjölda vinnustunda.

Franskir sósíalistar gæla nú við að ná ráðandi stöðu á næsta ári með því að tryggja sér bæði þingmeirihluta og forsetaembættið en samkvæmt franskri stjórnskipun er löggjafarvaldið í skipt á milli þings og forseta. Þótt niðurstaða kosninganna í París gefi þeim góð fyrirheit, er engu að síður ljóst, að mikillar óánægju gætir annars staðar í landinu, þar sem verðmætasköpunin liggur. Ræður þar miklu undirlægjuháttur ráðamanna við landlægan yfirgang verkalýðsfélaga sem kemur niður á efnahagslegum framförum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.