Allir dagar eru afmælisdagar

Í dag fagna landsmenn fullveldisdegi þjóðarinnar enda eru 85 ár eru liðin frá því að Ísland varð fullvaldaríki. Daginn má einnig nýta til að halda upp á afmælið sitt óháð því hvenær menn eru fæddir.

Á hverjum degi er hægt að finna marga merkilega atburði sem gerst hafa þann dag. Dagurinn í dag er enginn undantekning. 1. desember er merkilegur dagur í sögu landsins því þann dag árið 1918 varð Ísland fullvalda ríki. Dagurinn var almennur hátíðisdagur fram að stofnun lýðveldisins árið 1944 þegar lýðveldisdagurinn 17. júní kom í hans stað. En það hefur fleira merkilegt gerst þennan dag, þann 1. desember árið 1959 var skrifað undir samning um friðsamlega nýtingu Suðurskautslandsins og verndun þess. Sama dag var fyrsta litmyndin tekin af jörðinni utan úr geimnum. 1. desember árið 1987 var hafist handa við að bora Ermasundsgöngin og þremur árum síðar þann 1. desember 1990 hittust franskir og enskir verkamenn í göngunum undir Ermasundinu í fyrsta sinn.

Jörðin snýst eins og kunnugt er í kringum sólina og á einu ári fer hún einn hring í kringum hana. Þessi snúningur hefur í för með sér augljósar árstíðabundnar breytingar á náttúrunni sem óneitanlega hafa talsverð áhrif á líf okkar. En sú staðreynd að tímatalið er byggt á snúningi jarðarinnar um sólina hefur ekki síður áhrif.

Það er engin tilviljun að stundum er heppilegt að skipta tímanum í ár enda margt sem þarf að gera í takt við náttúrulegar breytingar á hitastigi og birtu samfara snúningi jarðar á braut sinni um sólina. Hins vegar er margt annað sem ekki hefur eins sterk tengsl við náttúruna sem samt sem áður er gert árlega fyrst og fremst vegna þess að tímatalið sjálft er eins og það er. Dæmi um það er árleg skil á skattaskýrslu og auðvitað alls konar afmæli án þess þó að fagnaðarefnið gefi tilefni til þess að tengja það sérstaklega við afstöðu jarðar miðað við sólina.

Að mörgu leyti er eðlilegra að fagna því á hverjum degi að vera lifandi í stað þess að halda upp á afmæli sitt einu sinni á ári. Á sama hátt er eðlilegra að gleðjast daglega yfir því að Ísland sé fullvalda ríki í stað þess að telja hversu marga hringi jörðin er búin að snúast í kringum sólina frá því að það gerðist. Daglega án þess þó að halda því fram að tímaeiningin sólarhringur hafi sterkari tengsl við fagnaðarefnið en ár. Eins mætti hugsa sér að halda upp á afmæli með óreglulegum hætti þannig að mislangur tími liði á milli þess að haldið væri upp á daginn.

Þegar upp er staðið er margt sem hægt er að gleðjast yfir á hverjum einasta degi. Engin sérstök ástæða er að einskorða sig við dagatalið enda eru allir dagar afmælisdagar ef maður vill.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)