Hver er vinsælasta íþróttagrein í heimi?

Þessari spurningu hefur verið varpað fram margoft og ótrúlegt en satt að þá virðist ekki vera til einhlítt svar við henni. Fulltrúar allra vinsælustu greinanna reyna að halda því fram að þeirra grein sé vinsælust, líklega í þeirri trú að það auki vinsældir hennar enn frekar. Sömuleiðis virðast áhugamenn um íþróttir gjarnan fullyrða að sú grein sem þeim lyndir best sé sú vinsælasta í heimi, kannski til að réttlæta fyrir öðrum áhuga sinn á greininni.

Þessari spurningu hefur verið varpað fram margoft og ótrúlegt en satt að þá virðist ekki vera til einhlítt svar við henni. Fulltrúar allra vinsælustu greinanna reyna að halda því fram að þeirra grein sé vinsælust, líklega í þeirri trú að það auki vinsældir hennar enn frekar. Sömuleiðis virðast áhugamenn um íþróttir gjarnan fullyrða að sú grein sem þeim lyndir best sé sú vinsælasta í heimi, kannski til að réttlæta fyrir öðrum áhuga sinn á greininni.

Það er ekki heyglum hent að komast yfir opinberar tölur yfir fjölda iðkenda í mismunandi íþróttagreinum og þannig reyna að meta vinsældir greinanna. Slíkar tölur virðast ekki vera til á hinu víðfeðma alneti en sem betur fer hafa tveir frændur vorir í Svíaskíri haft þörf á því að fá sömu upplýsingar og pistlahöfundur.

Sænsku skötuhjúin Jóhann og Sandra ákváðu að komast að því í eitt skipti fyrir öll hvaða íþróttagrein hefur flesta skráða iðkendur. Þetta gerðu þau eftir að hafa haldið því fram í sakleysi sínu að handbolti væri næst vinsælasta íþrótt í heiminum á heimsíðu sinni. Eðlilega hlutu þau mikið aðkast fyrir og ákváðu að gera á þessu formlega könnun. Könnunin fólst í því að skötuhjúin sendu fyrirspurn á alþjóðleg samtök mismunandi íþróttagreina og báðu um tölur yfir skráða þátttakendur og fjölda aðildarlanda. Niðurstöður þeirrar könnunar koma kannski á óvart en samkvæmt henni er blak sú íþrótt sem er með flesta skráða iðkendur. Þar á eftir kemur körfubolti, borðtennis er í þriðja sæti og knattspyrna ekki nema í fjórða sæti. Þess má geta að samkvæmt könnuninni er handbolti mun óvinsælli en t.a.m. tennis, róður og hnit (badminton).

Pistlahöfundur er mikill áhugamaður um knattspyrnu og stóð hann í þeirri trú að knattspyrna væri vinsælasta íþróttagrein í heimi sama hvort litið væri til iðkendafjölda, áhangenda eða peninga sem væru í spilunum innan greinarinnar. Það verður því að viðurkenna að þessar niðurstöður koma nokkuð á óvart, þ.e.a.s. ef það er e-ð mark takandi á þeim.

Jóhann og Sandra benda svo á það í umfjöllun um þessar niðurstöður að líklega er ekki hægt að taka nokkuð mark á þeim. Svo virðist vera að einungis alþjóða knattspyrnusambandið hafi gert formlega könnun innan sinna vébanda og þannig áætlað með nokkurri nákvæmni fjölda knattspyrnuiðkenda. Þeir reyndust vera um 242 milljónir á heimsvísu. Er sú tala síst ofáætluð en t.a.m samkvæmt könnuninni eru iðkendur í S-Ameríku taldir vera um 20 milljónir. Sem virðist lítið miðað við að maður hefur alltaf staðið í þeirri trú að hvert mannsbarn í Brasilíu gerði lítið annað en að sparka í bolta og þar búa um 180 milljónir.

Sambærileg tala frá blaksambandinu var um 900 milljónir! Jóhanni og Söndru fundust þessar tölur, eðlilega, mjög háar. Einn af hverjum sex einstaklingum í heiminum á að spila blak reglulega. Það stenst augljóslega engan veginn. Þegar var svo aðeins gengið á blaksambandið spýtti það út úr sér að líklega væru skráðir iðkendur ekki nema 33 milljónir í heiminum. Smá mismunur þar. Alþjóða körfuknattleikssambandið (FIBA) hélt því fram að það væru um 400 milljónir körfuknattleiksmanna í heiminum. Það virðist sömuleiðis nokkuð hátt. Sér í lagi með tilliti til þess að körfubolti virðist nánast hvergi njóta mikilla vinsælda utan Bandaríkjanna, allavega ekki í líkingu við knattspyrnu.

Af þessari litlu könnun Svíanna má sjá að raunverulega er ekki enn vitað hvaða íþróttagrein í heiminum er vinsælust. Þangað til endanleg staðfesting fæst á því, og önnur sérsambönd en FIFA gera sambærilegar kannanir, mun pistlahöfundur halda því til streitu að knattspyrna sé langvinsælasta íþróttin í heiminum. Hún hefur flesta iðkendur, flesta áhangendur og beinar útsendingar frá stórviðburðum s.s. heimsmeistarakeppni trekkja að fleiri áhorfendur en aðrar íþróttagreinar. Eða hvað?

Góða helgi!

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)