Meira einstaklingsframtak í miðborgina

midbaer.gifVandi miðborgarinnar hefur oftar en einu sinni verið til umfjöllunar hér á Deiglunni og ástæður hans reifaðar. Mörgum er hlýtt til miðborgarinnar og því ekki að ástæðulausu að menn velti því fyrir sér hvers vegna Laugavegurinn og götur þar í kring séu nánast tómar að jafnaði, nema þá helst þegar skemmtistaðir loka um helgar.

midbaer.gifNokkrar af helstu ástæðum þess að miðborgin hefur drabbast niður eru þær að bílastæðaskortur er mikill, auk þess sem stöðumælagjöld, -sektir og önnur brotagjöld vegna lagningar bíla hafa hækkað umtalsvert. Þá hafa stóru verslunarmiðstöðvarnar tvær laðað mikinn fjölda verslana að.

Spurning er hvort ekki sér rétt að afnema gjöld í bílastæðahúsum á háannatíma verslana við Laugaveginn, seinnipart dags og um helgar, og kenna þannig fólki að nota þau. Eins hjákátlega og það hljómar finnst mörgum of langt að labba þá nokkru metra sem eru frá húsunum að Laugaveginum en fleiri myndu án efa nýta þau ef gjaldfrjálst væri í stæðin.

Einstaklingsframtakið skiptir hins vegar mestu máli ef bæta á miðborgina. Nokkrar verslanir í miðborginni hafa alveg sérstakt aðdráttarafl, í það minnsta á undirritaða. Þar má meðal annars nefna Mondó, en fallegar gluggútstillingar þar leiða oft til þess að undirrituð leggur bílnum og freistast inn að skoða. Kokka er skemmtileg búð fyrir þá sem finnst gaman að stússast í eldhúsinu með áhöld atvinnumanna og skóbúðirnar tvær, 38 þrep og Kron, lífga verulega upp á það skóúrval sem í boði er. Væri þess óskandi að fleiri hefðu frumkvæði að því að stofna sérvöruverslanir með sál.

Leiguverð hefur lækkað á atvinnuhúsnæði frá því sem var, vextir eru með lægsta móti og gengi krónu á móti erlendum gjaldmiðlum verið tiltölulega sterkt sem gera innkaup á erlendum vörum ódýrari. Ytra umhverfið er með hagstæðasta móti og því er tækifærið til staðar fyrir fólk með góðar viðskiptahugmyndir. Ánægjulegt væri að sjá einstakling byggja upp atvinnurekstur á Laugaveginum eða þar í kring og stuðla á þann hátt að uppbyggingu miðborgar.

Latest posts by Guðrún Pálína Ólafsdóttir (see all)

Guðrún Pálína Ólafsdóttir skrifar

Guðrún Pálína hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2002.