Sandkassaleikur stóru strákanna

Hún hefur verið lærdómsrík ritdeilda þeirra Illuga Jökulssonar og Jóns Steinars Gunnlaugssonar um tjáningarfrelsið. Málstaður Jóns Steinars er sterkari að mínu mati en hvorugur þeirra hefur komið sérlega sterkur frá rifrildinu sjálfu.

Þeir Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, og Illugi Jökulsson, rithöfundur, eru báðir málsmetandi menn í þjóðfélaginu, sama hvað skoðun þeir kunna að hafa hvor á öðrum. Það er e.t.v. ekki til neinn altækur mælikvarði á það hvað telst að vera málsmetandi maður en ljóst er að nokkur hópur fólks leggur sérstaklega vel við hlustir þegar þessir tveir menn opna muninn og lesa af gaumgæfni það sem þeir skrifa.
Á síðustu dögum hefur merkileg ritdeila sprottið upp á milli þeirra Jóns Steinars og Illuga. Allt byrjaði þetta á því þegar Jón Steinar, í viðtali í Silfri Egils, lýsti þeirri skoðun sinni að ekki bæri að hefta tjáningarfrelsið undir neinum kringumstæðum. Illugi svaraði Jóni Steinari, í Málinu á Skjá einum, stuttu seinna þar sem hann gerði lítið úr skoðunum Jóns Steinars og Gunnars Smára Egilssonar og hæddi þá fyrir barnalega frelsisást og hélt því blákalt fram að nasisminn hefði aldrei náð fótfestu í Þýskalandi ef tjáningarfrelsið hefði þar verið skert með skynsamlegum hætt. Jón Steinar svaraði Illuga í Morgunblaðsgrein, sem seint verður talin til hans betri verka. Illugi sá þó ástæðu til þess að svara honum aftur í Málinu. Pistill Illuga var á svipuðum nótum og grein Jóns Steinars í Morgunblaðinu. Þetta er mjög miður þar sem fjöldi fólks fylgist áreiðanlega nokkuð spenntur með þeim félögum og étur viskumola þeirra óhikað upp.

Ég fer ekki í grafgötur með að ég er efnislega sammála Jóni Steinari og ósammála Illuga í þessari deilu. Skoðun Illuga stenst einfaldlega ekki nánari. Eins og áður sagði hélt Illugi því fram í pistli á Skjáeinum að það hefði verið hægt verið að koma í veg fyrir uppgang nasismans með valkvæðu tjáningarfrelsi og með því gefur hann auk þess í skyn að óheft tjáningarfrelsi hafi verið ein helsta stoð nasismans. Þetta er vægast sagt einfeldningsleg röksemdarfærsla og hún er röng. Ástæður þess að nasisminn fékk óheftan uppgang í Þýskalandi voru þær að gyðingahatur var landlægt í Þýskalandi og hafði verið um margra alda skeið. Í bók sinni Hitler´s Willing Executioners, segir Daniel Jonah Goldhagen, prófessor við Harvard, frá því hversu grunnt var á gyðingahatrið í Þýskalandi löngu áður en valdataka nasista átti sér stað. Það sem þurfti til þess að uppskera af þeim hatursakri var tvennt. Í fyrsta lagi þurftu aðstæður í þjóðfélaginu að vera þannig að þjóðin þyrfti á blóraböggli að halda. Þetta skilyrði var uppfyllt vegna hinnar miklu kreppu sem ríkti í Þýskalandi. Í öðru lagi þurfti að tryggja að varnaðarraddir þeirra, sem sáu hvert stefndi, yrðu þaggaðar niður. Það var gert með því að nota ríkið og herinn til að magna upp svo mikinn ótta að fólk þyrði ekki að hafa skoðanir sem væru á öndverðum meiði við stjórnvöld.
Það var því ekki tjáningarfrelsið sem gerði Hitler kleift að hrinda sínum viðurstyggilegu hugmyndum í framkvæmd. Það var skortur á tjáningarfrelsi sem sá til þess.

Illugi telur réttlætanlegt að banna birtingar á ákveðnum skoðunum. Honum gengur án nokkurs vafa gott eitt til en honum yfirsést hið mikilvægasta í málinu. Það er að stóra skrefið í átt til skerðingar á frelsi er að skilyrða það yfir höfuð. Um leið og samþykki verður um einhvers konar skerðingu á tjáningarfrelsinu þá skapast aðstæður sem gera stjórnvöldum kleift að banna alls kyns annan málflutning sem almenn sátt er um að sé rangur eða skaðlegur. Þannig mætti færa rök fyrir því að banna eigi þá skoðun að jörðin sé flöt á þeim forsendum að hún sé augljóslega röng og því skaðleg. Það mætti banna gömlu fólki að þakka sígarettum og viskí langlífi sitt þar sem það samræmist ekki gildandi manneldissjónarmiðum.

Umræðan um tjáningarfrelsi á síðustu vikum er að miklu leyti sprottin vegna þess að DV ákvað fyrir skömmu að birta stórt viðtal við ungan rugludall sem hefur að haldreipi í lífinu þá skoðun að hann sé betri en aðrir vegna þess að hann er næmur fyrir sólbruna og húðkrabbameini. Hugmyndir hans dæma sig sjálfar. Hlutverk þeirra sem vita betur er að fordæma málflutninginn og benda á það hversu kjánalegur hann í raun sé. Þessar hugmyndir geta meira að segja varla flokkast sem skoðanir, svo kjánalegar eru þær – eða er til dæmis hægt að hafa þá “skoðun” að jörðin sé flöt? Nei. Það er einfaldlega rangt. Eins er það ekki “skoðun” að halda því fram að sumir kynþættir séu öðrum æðri. Það er einfaldlega rangt og fólki verður að leyfast að halda kjánaskap sínum á lofti því þannig öðlast skynsamari viðhorf aukið gildi.

Jón Steinar og Illugi búa báðir við óskert tjáningarfelsi og hafa báðir óvenjulega góða aðstöðu til að notfæra sér það. Fjölmargir taka mark á þeim Illuga og Jóni Steinari og því er það sorglegt að þeir hafi látið upplýsta umræðu um mikilvægt mál snúast upp í kjánalegan sandkassaleik og gert eigin persónur að lykilatriðum í umræðunni. En í tjáningarfrelsinu felst auðvitað líka frelsið til að vera kjánalegur.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.