Sterkastimaðuríslands.is

Það er víst kominn tími til að karlmenn taki þátt í kynjaumræðunni á Íslandi. Það las ég a.m.k. á Internetinu. Spurningin sem karlmenn standa frammi fyrir er þessi: „Af hverju að draga flugvélar úr því að það er hægt að fljúga þeim?“

Það er víst kominn tími til að karlmenn taki þátt í kynjaumræðunni á Íslandi. Það las ég a.m.k. á Internetinu í pistli eftir „Kristbjörgu konu“ sem skrifar á Spegilinn á Vísi. Þetta er alveg hárrétt hjá henni því karlmenn hafa of lengi setið á hliðarlínunni í þessu ákaflega mikilvæga máli. Í raun má segja að fátt sé mikilvægara um þessar mundir en einmitt kynjaumræðan því öll erum við eins kyns og ekki annars kyns og því fylgja auðvitað alls kyns vandkvæði. Hvers kyns vangaveltur um þessi mál eru því brýn nauðsyn.

Samfélagið hefur á síðustu árum verið skilgreint upp á nýtt. Nú eru allir hlutir annað hvort karllegir eða kvenlegir. Samfélagið er semsagt orðið kynlegt. Þetta er óneitanlega góð þróun því í kynlegur samfélagi ættu allir að geta lifað í fullkominni sátt við kyn sitt en slíku er því miður ekki til að dreifa í dag. Staðreyndin er nefnilega sú að fæstir hafa komist í nægilega mikla snertingu við kyn sitt en lifa þess í stað ófullnægðu lífi þar sem þeir streitast við að uppfylla kröfur samfélagsins og Hollywood um staðlaðar kynjaímyndir. Oft er því haldið fram að firringin nái hámarki í fegurðarsamkeppnum kvenna. Þetta er þó ekki rétt. Firringin nær án nokkurs vafa hámarki í svokölluðum aflraunakeppnum karla. Þar er dregin upp sú mynd af karlmönnum að þeir séu einskis virði nema þeir geti lyft þungu grjóti upp á tunnur og dregið farþegaþotur rosalega hratt. En er ekki kominn tími til þess að karlmenn spyrji sig þeirrar spurningar í fullri alvöru: “Hvenær kemur sú staða upp í raunveruleikanum að maður þurfi að draga flugvél mjög hratt?” Svarið er sennilega að sú staða komi afar sjaldan upp hjá flestum. En samfélagið gerir þessar kröfur og það er kannski ástæðan fyrir því að fjölmargir ungir drengir standa í þeirri trú að besta leiðin til þess að koma flugvélum á milli staða sé að draga þær fremur en að fljúga þeim.

Hingað til hafa karlmenn gleymst í kynjaumræðunni en nú birtir vonandi til og karlfrelsið fær þá athygli sem þörf er á. Fyrsta krafan er vitaskuld sú allar tegundir aflraunakeppna verði lagðar af en eins fyrir mann eins og mig er það óþolandi að þurfa að horfa upp á einhver heljarmenni í sjónvarpinu hlaupandi um með tvöhundruð kílóa hjólbarða en eiga sjálfur í mesta basli með að koma ferðatösku slysalaust út úr húsi. Hvernig á ég að geta staðist samkeppni við þessa menn? Það er óraunhæft að bera mig saman við Hjalta Úrsus og raunar er það óraunhæft að bera Hjalta Úrsus við nokkurn mann. En fjölmiðlarnir segja okkur að svona eigi karlmenn að vera. Þessu verður að linna.

Ef kvenveldið heimtar að áfram verði keppt í aflraunum þá er það mín krafa að stofnuð verði ný aflraunakeppni hin snarasta. Hún skal heita sterkastimaðurislands.is en þar verður keppt í hinum hefðbundnu greinum en að auki þurfa keppendur að sýna fram á þekkingu sína á heimsmálunum og heilbrigðan vitsmunalegan metnað. Þá munu ungir drengir á Íslandi kannski skilja að karlmennskan snýst ekki bara um dvergakast og að halda á rafgeymum í sem lengstan tíma heldur að vera sáttur við það testórsterónmagn sem okkur var ætlað.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.