Tími til að tengja

workshop.jpgUpplýsingaflóðið sem ólgar á netinu er slíkt að talað er um að netvædd samfélög séu að verða ofmötuð af staðreyndum og svörum, en um leið skorti á í gagnrýnni hugsun. Er ekki bara kominn tími til að tengja?

workshop.jpgFyrir nokkrum árum hefði fáa órað fyrir þeim breytingum sem orðið hafa í kjölfar tölvu- og netvæðingarinnar. Þá er jafnt átt við samfélagslegar breytingar sem og þær sem orðið hafa í tjáskiptum manna á milli. Það er ekki svo langt síðan að leitun var að fólki sem kunni á tölvum skil, en annað er aldeilis upp á teningnum í dag. Ef nauðsyn hefur ekki knúið fólk til þess að gera sig kunnugt internetinu, þá hefur forvitni gert það.

Við lifum á öld upplýsinga. Með tilkomu internetsins hefur heimurinn allur minnkað, og við stöndum frammi fyrir uppsprettu ofgnóttar upplýsinga, sem oftar en ekki er vandi í að ráða. Ekki er alltaf hlaupið að því að ákvarða hvað séu góðar og gildar upplýsingar, og hverjar séu vafasamar.

Upplýsingaflóðið, sem ólgar á netinu er slíkt, að talað er um að netvædd samfélög séu að verða ofmötuð af staðreyndum og svörum, en spurningar láti á sér standa. Offramboð á upplýsingum annarsvegar og skortur á hæfileikanum til að meta þær hinsvegar, hefur leitt af sér vaxandi þörf fyrir skilgreiningu á hugtaki því sem kallað er upplýsingalæsi.

Í því felst að gera sér ljóst hvenær upplýsinga er þörf, hvaða upplýsinga, hvernig skuli leita þeirra, meta áreiðanleika þeirra og hvernig þær séu síðan notaðar á skilvirkan hátt. Kunna að velja og hafna, og líta gagnrýnum augum á það sem fyrir ber.

Fólk virðist almennt hafa ríka tilhneigingu til að yfirfæra það traust sem það hefur í gegnum tíðina sett á ritað mál í bókum algerlega yfir á netið, og það er varhugavert. Víðfeðmi netsins er slíkt að ógjörningur er að hafa einhvers konar gæðaeftirlit með því efni sem þangað fer inn, en þar má innanum finna innlegg misfróðra og misvandaðra einstaklinga. Þar eins og á öðrum samfélagslegum vettvangi þrífast glæpir og svindl.

Svo dæmi sé tekið, getur verið varasamt að leggja traust sitt á upplýsingar um heilsu og sjúkdóma í þessu tilliti. Er pistlahöfundi sérlega minnisstæður uppgjafarsvipur heimilislæknisins eitt skiptið er hann fékk sjúklinginn drekkhlaðinn sjúkdómsgreiningum og meðferðarúrræðum, heitum af netinu inná borð til sín. Hafði hann í framhaldi yfir sjúklingnum varnaðarorð sem ekki hafa gleymst. Hafði hann sömuleiðis á orði, að hann stæði á stundum álíka lengi í því að sjúkdómsgreina og í því að rökræða greininguna við netvæddan og upplýstan sjúklinginn.

Ennþá virðist samt aðaláherslan vera lögð á það að gera sem flestum kleift að hafa aðgang að upplýsingunum, og metnaður lagður í aukin tækifæri til nettenginga.

En fyrir ótrauðan aðgang að slíku ofurmagni af upplýsingum hljótum við að gjalda verðinu sem felst í gagnrýnni hugsun. Þetta hafa þeir sjálfsagt þegar tamið sér sem notað hafa netið af einhverju ráði. Það er hinsvegar ekki sjálfgefið og svo ber að hafa í huga að ár hvert bætast ungir óharðnaðir einstaklingar í hópinn, sem þurfa að læra að fóta sig á netinu eins og annars staðar.

Því er spurning hvort það sé ekki kominn tími til að leggja áherslu á að tengja. Ekki bara tengja tölvu við net, heldur tengja gagnrýna hugsun við það sem þar er að finna.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.