Ætti maður að veðja á Howard Dean?

Howard DeanEf marka má mat fjármálamarkaða ber Howard Dean nú höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur í prófkjöri Demókrataflokksins fyrir forsetakosningar næsta haust. Líkurnar á því að hann hljóti útnefninguna eru nú þegar komnar yfir 50%.

Howard DeanBandaríkjamenn kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að kosningabaráttu. Nú er um það bil eitt ár þar til forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum og kosningabaráttan er löngu hafin. Reyndar snýst mesti æsingurinn um þessar mundir um útnefningu Demókrataflokksins. Fyrstu prófkjör flokksins eru í Iowa, 19. janúar, og New Hampshire, 27. jánúar. Níu frambjóðendur berjast um hituna og flestir þeirra hafa staðið í látlausri kosningabaráttu svo mánuðum skiptir.

En Bandaríkjamenn kalla heldur ekki allt ömmu sína þegar kemur að markaðsvæðingu. Eitt af því sem þeim hefur nú tekist að markaðsvæða er kosningabaráttan. Og þá á ég ekki við auglýsingaflóðið sem fylgir þessari áralöngu kosningabaráttu. Nei, nú hafa nefnilega verið settir á laggirnar fjármálamarkaðir þar sem unnt er að eiga viðskipti sem verðbréf sem borga $1 ef hinn eða þessi frambjóðandinn hlýtur útnefningu Demókrataflokksins.

Viðskipti með slík verðbréf fara meðal annars fram á netinu á Iowa Electronic Markets og á TradeSports. Eins og gefur að skilja endurspeglar verðið á þessum verðbréfum líkurnar á því að hver og einn frambjóðandi hljóti útnefninguna.

Ef eitthvað er að marka fjármálamarkaðina hafa línurnar aldeilis verið að skýrast á síðustu dögum í þessari kosningabaráttu. Verðið á Howard Dean bréfinu hefur hækkað hröðum skrefum á meðan verðið á bréfum hinna framjóðendanna hefur lækkað hratt.

Í dag kostar Howard Dean bréfið milli 50 og 55 cent. Wesley Clark bréfið er næst dýrast. Það kostar um 15 cent. John Kerry, Dick Gephardt og Hillary Clinton bréfin kosta öll um 10 cent. Og bréf annarra frambjóðenda kosta mun minna. Ef lesendur telja líkurnar á því að Howard Dean vinni útnefninguna vera minni en 50% er hér kjörið tækifæri fyrir þá til þess að sýna það í verki og græða svolítinn pening í leiðinni.

Þess má að lokum geta að á TradeSports er einnig hægt að versla með Saddam bréf og Osama bréf. Slík bréf borga $1 ef þessir ágætu herramenn koma í leitirnar fyrir lok árs. Því miður er verðið á þessum bréfum í lægri kantinum. Saddam bréfið geta menn keypt fyrir 13 cent; og Osama bréfið kostar ekki nema 7 cent.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.