Handtaka Khodorkovskí

Handtaka rússnesku lögreglunnar á auðkýfingnum Mikhail Khodorkovskí kom ekki á óvart en margir eru uggandi sökum þess að svo virðist sem réttarúrræðum í Rússlandi sé í auknum mæli beitt til þess að þjóna pólitískum hagsmunum fremur en réttlætinu.

Handtaka rússnesku lögreglunnar á auðkýfingnum Mikhail Khodorkovskí kom ekki á óvart. Í júlí var einn helsti samstarfsmaður hans Platon Lebedev handtekinn sakaður um þjófnað og er nú rannsakaður af lögreglu fyrir aðild sína að umboðssvikum, skattsvikum og morðum. Í umfjöllun bandaríska tímaritsins New Yorker um Vladimir Pútín, þann 13. október sl., var frá því greint að stjórnmálaspekingar í Moskvu hafi talið að handtakan á Lebedev hafi komið til vegna grunsemda Pútíns um að Khodorkovskí og félagar hans hafi í auknum mæli stutt við bakið á stjórnmálamönnum sem ekki eru Pútín hliðhollir.

Í greininni í New Yorker er rakin saga samskipta rússnesku forsetanna, Boris Yeltsín og Pútíns, við hina fáu útvöldu milljarðamæringa sem fengu auðæfi Sovétríkjanna afhend á silfurfati í upplausninni við fall kommúnismann. Samkvæmt David Remnick, höfundi greinarinnar, tryggði Boris Yeltsín endurkjör sitt í forsetakosningunum árið 1996 með því að lofa hinum nýríku Rússum nær óheftan aðgang að auðæfum Rússlands gegn stuðningi þeirra; en á þeim tíma áttu kommúnistar mikla möguleika á að ná völdum í Kreml á ný þar sem almenningur í Rússlandi var bitur og vonsvikinn með þann ákaflega takmarkaða árangur sem umbylting hagkerfisins hafði í för með sér. Í raun er það enn svo að allur þorri almennings í Rússlandi lifir við sambærileg eða verri kjör heldur en á tímum kommúnismans; a.m.k. í veraldlegum skilningi.

Við valdatöku Pútíns hafði pólitískur metnaður tveggja hinna svokölluðu “ólígarka” þegar tekið að valda ókyrrð meðal ráðandi afla í rússneskum stjórnmálum. Þeir Boris Berezovskí og Vladimir Gusinskí höfðu báðir haslað sér völl í fjölmiðlum, sá síðarnefndi með að stofna fyrstu einkareknu sjónvarpsstöðina í Rússlandi, NTV. Það var því eitt fyrsta verk Pútíns í embætti að koma þeim skilaboðum skilmerkilega áleiðis til rússneskra auðmanna að gegn afskiptaleysi á sviði stjórnmálanna fengju þeir óáreittir að halda þeim auð sem þeim hafði áskotnast í einkavinavæðingunni miklu.

Fljótlega voru þeir Berezovskí og Gusinskí hraktir á brott og megnið af eigum þeirra gerðar upptækar. Samkvæmt úttekt The Economist hafa fjórir aðrir milljarðamæringar annað hvort verið sviptir eigum sínum eða þurft að láta af stjórnmálaafskiptum vegna þrýstings frá Pútín. Einn þeirra er góðkunningi okkar Íslendinga, Roman Abramovich.

Viðbrögðin við handtökunni á Khodorkovskí og frysting á eigum hans hans, sem fyrst og fremst fólust í yfirráðum yfir olíurisanum Yukos, hefur valdið miklum titringi á fjármálamörkuðum í Rússlandi; og raunar hafa, samkvæmt The Economist, erlendar fjárfestingar dregist mjög saman allt frá því Lebedev var handtekinn í júlí. Fjárfestar, bæði rússneskir og aðrir, óttast að eðlilegir viðskiptahættir geti ekki þrifist í Rússlandi á meðan völdum forsetaembættisins er beitt á þann veg sem sterkar grunsemdir eru um.

Opinber gagnrýni Khodorkovskí á stefnu ríkisstjórnarinnar í olíumálum og ásakanir um spillingu ollu Pútín miklu hugarangri og hvort sem forsetinn sjálfur hafði forgöngu um að auðkýfingurinn væri handtekinn eða ekki þá þykir ákaflega ólíklegt að lögregluyfirvöld hefðu ráðist í slíka aðgerð án vitundar og samþykkis forsetans.

Það er vitað mál að “ólígarkarnir” hafa komist í álnir á ákaflega óréttlátum forsendum sem fátt eiga skilið við frjálsan markað. Hins vegar verður að líta til þess að skaðinn sem hlýst af viðvarandi spillingu og misbeitingu á dóms- og lögregluvaldi er miklum mun meiri. Staðreyndin er nefnilega sú að það óréttlæti sem fólst í afhendingu eigna til útvalinna flokksgæðinga, eins siðlaus og hún var, var e.t.v. eina leiðin til þess að hrinda af stað breytingum í átt til aukins frelsis á mörkuðum og í viðskiptum í Rússlandi.

Ef rússnesk yfirvöld, með forsetann í fararbroddi, ákveða að rústa það takmarkaða traust sem Rússar og umheimurinn hafa á efnahagskerfi landsins þá hefur það í för með sér áframhaldandi stöðnun í samfélaginu og áframhaldandi skort fyrir íbúana.

Frjálst markaðshagkerfi, og frjálst samfélag, hafa sína fylgifiska. Einn þeirra er að einstaklingar geta lifað bærilegu lífi án þess að eiga allt sitt undir velvilja stjórnmálamanna. Þetta virðist Rússlandsforseti eiga ákaflega erfitt að sætta sig við.

Þar sem frjálst samfélag hefur náð einhverjum þroska hafa stjórnmálamenn vitsmunalega burði til þess að líta ekki á sig sem upphaf og endi alls sem er; heldur rækja það hlutverk sem þeim er ætlað samkvæmt því umboði sem þeir hafa frá kjósendum – að setja reglurnar og sjá til þess að þeim sé framfylgt.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.