Fjárreiður stjórnmálaflokka: Leyndardómurinn mikli

Ólíkt því sem gerist í nánast öllum öðrum þróuðum lýðræðisríkjum eru stjórnmálaflokkar á Íslandi ekki framtalsskyldir og fjárreiður þeirra ekki gerðar opinberar. Af þessum sökum er lítið vitað um fjármál flokkanna eins og gefur að skilja. Enginn veit hversu mikið kolkrabbinn gefur Sjálfstæðisflokknum, hversu mikið sambandsfyrirtækin gefa Framsókn og hversu mikið Jón Ólafsson gefur Samfylkingunni. Og enginn veit hvort klisjurnar í setningunni hér á undan eiga sér nokkra stoð í raunveruleikanum.

Ólíkt því sem gerist í nánast öllum öðrum þróuðum lýðræðisríkjum eru stjórnmálaflokkar á Íslandi ekki framtalsskyldir og fjárreiður þeirra ekki gerðar opinberar. Af þessum sökum er lítið vitað um fjármál flokkanna eins og gefur að skilja. Enginn veit hversu mikið kolkrabbinn gefur Sjálfstæðisflokknum, hversu mikið sambandsfyrirtækin gefa Framsókn og hversu mikið Jón Ólafsson gefur Samfylkingunni. Og enginn veit hvort klisjurnar í setningunni hér á undan eiga sér nokkra stoð í raunveruleikanum.

Nokkur umræða hefur reyndar farið fram um þetta mál hér á landi á undanförnum árum. Árið 1995 skipaði forsætisráðherra meira að segja nefnd sem átti að fjalla um málið. Árið 1999 komst þessi nefnd að þeirri niðurstöðu að æskilegast væri að gera ekkert í þessu. Rökin voru meðal annars að félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar frá 1995 komi í veg fyrir að fjárreiður stjórnmálaflokka séu gerðar opinberar. Þetta verða að teljast nokkuð undarleg rök. Einnig hefur frumvarp til laga um fjárreiður stjórnmálaflokka verið lagt fram á Alþingi á hverju ári frá 1995 en aldrei fengist afgreitt. Frumvarpið er mjög hóvært. Samkvæmt því þurfa stjórnmálaflokkar að gera reikninga sína opinbera og tilgreina sérstaklega alla aðila sem styrkja þá um 300.000 kr. eða meira. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir neinum takmörkunum á leyfilegum fjárframlögum einstakra aðila til stjórnmálaflokkar.

Aðalrök flutningsmanna frumvarpsins eru að leynd og pukur með fjármál stjórnmálaflokka auki á tortryggni í garð þeirra, sem er skaðlegt fyrir lýðræðið. Flutningsmenn frumvarpsins benda einnig á að þetta fyrirkomulag geti leitt til hagsmunaárekstra. Þessi rök, a.m.k. þau fyrri, eru góðra gjalda verð. Mig langar hins vegar til þess að færa annars konar rök fyrir því að fjárreiður stjórnmálaflokka séu gerðar opinberar og því að takmörk séu sett á leyfileg framlög einstakra aðila.

En áður en ég vík að þessum rökum langar mig aðeins að nefna helstu mótrökin. Þeir sem eru á móti því að fjárreiður stjórnmálaflokka séu gerðar opinberar og takmörk sett á leyfileg framlög benda á að í slíku felist skerðing á frelsi einstaklinga til þess að verja fjármunum sínum eins og þeim sýnist. Þetta er vissulega rétt. Og þeir sem eru á því að frelsi einstaklingsins sé ofar öllu eru þess vegna væntanlega á móti lögum um fjárreiður stjórnmálaflokka. En frelsi einstaklingsins er vitaskuld ekki ofar öllu. Frelsi einstaklingsins er mikilvægt. En velmegun er einnig mikilvæg, svo og annars konar réttlæti. Þess vegna getur verið skynsamlegt að setja lög um fjárreiður stjórnmálaflokka ef unnt er að færa rök fyrir því að það hafi í för með sér nægilega mikla aukningu velmegunnar eða annars konar réttlætis til þess að vega upp á móti frelsisskerðingunni sem í því felst.

Til þess að færa góð rök fyrir lögum um fjárreiður stjórnmálaflokka er því nauðsynlegt að færa rök fyrir því að óheft leynileg fjárframlög leiði til óhagkvæmni. Alveg eins og til eru kenningar í hagfræði sem útlysta nákvæmlega hvaða forsendur þurfa að vera uppfylltar til þess að frjáls samkeppni leiði til hagkvæmrar niðurstöðu eru til kenningar í hagfræði sem útlysta nákvæmlega hvaða forsendur þurfa að vera uppfylltar til þess að þrýstihópalýðræði leiði til hagkvæmra lagasetninga. Skilyrðin eru sáraeinföld. Annars vegar má ekki vera neinn kostnaður í því fólginn að stofna þrýstihóp og hins vegar verður lobbyisminn sem þrýstihóparnir stunda að vera hagkvæmur (e. non-distorting) og ekki fela í sér neinn kostnað. Þrýstihópalýðræði er sem sagt óhagkvæmt að svo miklu leyti sem það er kostnaðarsamt að stofna þrýstihópa og lobbya stjórnmálamenn. Vitaskuld er kostnaðarsamt að stofna þrýstihópa. Og það leiðir til þess að hópar um dreifða hagsmuni, svo sem „neytendur gegn tollum”, verða ekki til. Á meðan hópar stærri aðila sem eiga hver um sig mikilla hagsmuna að gæta, svo sem „grænmetisbændur fylgjandi vernd” (og LÍÚ), vaða uppi og koma oft á tíðum í gegn lögum sem skaða þjóðfélagið í heild.

Öll löggjöf sem jafnar aðstöðu mismunandi hópa minnkar líkurnar á því að skaðleg löggjöf nái fram að ganga og eykur því hagkvæmni og velmegun í þjóðfélaginu. Löggjöf um fjárreiður stjórnmálaflokka sem svifti hulunni af leyndardómnum mikla og setti helst hámörk á framlög frá einstökum aðilum er löggjöf af þessu tagi.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.