Stoke í umspil – þrátt fyrir allt

Íslendingaliðið Stoke City tryggði sér í gær sæti í úrslitakeppni ensku 2. deildarinnar, annað árið í röð með því að leggja Swindon að velli á Britannia-leikvanginum, 4:1. Markmið stjórnenda liðsins um að lenda í öðru af tveimur efstu sætunum, og komast þar með beint upp í 1. deild, náðist ekki og verða það að teljast nokkur vonbrigði.

Íslendingaliðið Stoke City tryggði sér í gær sæti í úrslitakeppni ensku 2. deildarinnar, annað árið í röð með því að leggja Swindon að velli á Britannia-leikvanginum, 4:1. Markmið stjórnenda liðsins um að lenda í öðru af tveimur efstu sætunum, og komast þar með beint upp í 1. deild, náðist ekki og verða það að teljast nokkur vonbrigði. Stoke hefur spilað prýðilega á köflum í vetur og bar til að mynda sigurorð af úrvalsdeildarliði Charlton og 1. deildarliði Barnsley í deildarbikarkeppninni, en óstöðugleiki hefur einkennt leik liðsins og það hefur tapað mörgum dýrmætum stigum gegn neðstu liðum deildarinnar.

Tæplega 21 þúsund manns fylgdust með leik Stoke og Swindon í gær og getur ekkert annað lið í 2. deild státað af jafn miklum áhorfendafjölda í vetur og Stoke City. Aðsókn að heimaleikjum Stoke er líka í efri kantinum miðað við 1. deild og teldist hreint ekki afleit í sjálfri úrvalsdeildinni. Þegar Íslendingar tóku við stjórn Stoke var meðalfjöldi áhorfenda í kringum 9 þúsund á leik en í vetur hefur hann verið um 13 þúsund. Það segir sjálft að þessi umskipti hafa verulegan fjárhagslegan ávinning í för með sér.

Það hefur þess vegna vakið nokkra athygli að stjórn Stoke City hefur haldið að sér höndum varðandi leikmannakaup í vetur og aðeins einn leikmaður hefur verið keyptur til félagsins frá því að keppni hófst sl. haust, Andrew Cook fyrir 300 þúsund pund. Fyrir leiktíðina var einn leikmaður keyptur, Wayne Thomas á 250 þúsund pund. Til samanburðar má geta þess að Wigan Athletic, sem hafnaði í næsta sæti fyrir neðan Stoke, keypti leikmenn fyrir 1,5 milljónir punda til að styrkja liðið fyrir lokabaráttuna.

En þrátt fyrir allt á Stoke enn ágæta möguleika á að ná því markmiði að leika í 1. deild á næsta keppnistímabili. Stoke mætir Walsall heima og að heiman í undanúrslitum umspilsins og verða það vafalítið erfiðar viðureignir. Walsall er eitt reyndasta lið deildarinnar og var lengst af á toppnum framan af vetri. Fyrri leik liðanna í vetur lyktaði með 3:0 sigri Walsall en seinni leikurinn á Britannia var markalaus. Takist Stoke að leggja Walsall að velli mætir liðið annað hvort Wigan eða Reading í úrslitaleiknum.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)