Nú reynir á sjálfstæði Seðlabankans

Nokkurs óróa hefur gætt í þjóðfélaginu vegna hreyfinga á gengi krónunnar á síðustu dögum. Í raun má segja að með gengisfalli krónunnar í síðustu viku reyni í fyrsta skipti á nýfengið sjálfstæði Seðlabankans. Það er því athyglisvert að skoða viðbrögð stjórnmálamanna við þessum atburðum.

Nokkurs óróa hefur gætt í þjóðfélaginu vegna hreyfinga á gengi krónunnar á síðustu dögum. Í raun má segja að með gengisfalli krónunnar í síðustu viku reyni í fyrsta skipti á nýfengið sjálfstæði Seðlabankans. Það er því athyglisvert að skoða viðbrögð stjórnmálamanna við þessum atburðum.

Í stórum dráttum hafa viðbrögðin verið skynsamleg. Á miðvikudaginn í síðustu viku, þegar gengið var í frjálsu falli, bar reyndar eitthvað á stóryrðum um nauðsyn þess að ríkisstjórnin og Seðlabankinn gripi til aðgerða. En strax á fimmtudaginn var allt annað hljóð komið í menn. Þannig sagði Davíð Oddson, aðspurður í kvöldfréttum útvarpsins, að ríkisstjórnin ætlaði ekki að grípa til aðgerða vegna þróunarinnar: „Nú verðum við að treysta því að markaðurinn hafi sinn gang og Seðlabankinn rísi undir því sjálfstæði sem honum hefur verið veitt.”

Um helgina sagði síðan Össur Skarphéðinsson að búið væri að setja leikreglur um starfsemi Seðlabankans og að mikilvægt væri að halda sig við þær. Hann sagði að Samfylkingin gerði ekki kröfu um að stjórnvöld gripu inn í gjaldeyrismarkaðinn núna. Menn yrðu að virða það sjálfstæði sem búið væri að veita bankanum.

Þessi viðbrögð verða að teljast mikið gleðiefni. Nú er ljóst að sjálfstæði Seðlabankans er ekki eingöngu í orði heldur einnig að einhverju leyti á borði. Það gefu augaleið að 6 % gengisfall á einum degi felur í sér talsverða freistingu fyrir stjórnmálamenn. En sá pólitíski kostnaður sem það felur í sér að ógna sjálfstæði Seðlabankans virðist strax vera orðinn það mikill að stjórnmálamenn þora ekki að láta freistast.

Freistingar síðustu viku eru hins vegar lítilfjörlegar í samanburði við freistingarnar sem bíða stjórnmálamanna þegar harna fer á dalnum af einhverri alvöru. Í Peningamálum, ársfjórðungsriti Seðlabankans sem gefið var út síðastliðinn föstudag, kemur berlega í ljós að Seðlabankinn er farinn að undirbúa jarðveginn fyrir niðursveiflu í efnahagslífinu. Þar segir: „Verri verðbólguhorfur og þrýstingur á gengi krónunnar munu hamla frekari vaxtalækkun í bráð, jafnvel þótt minni umsvif í hagkerfinu gætu gefið tilefni til þess. Líkur hafa því aukist á að tímabundinn samdráttur verði fylgifiskur þess að kæfa þá verðbólgu sem nú er í gangi.”

Það er því útlit fyrir að seinna á árinu muni reyna verulega á sjálfstæði Seðlabankans. En um leið reynir á þroska íslenskra stjórnmálamanna. Það er vonandi að viðbrögð þeirra þá verði þeim til jafn mikils sóma og viðbrögð þeirra í síðustu viku.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.