Pabbi og mamma²

Nýlega var skýrt frá frjóvgunartilraunum kínversks rannsóknarteymis sem tókst að gera heilbrigð fóstur úr erfðaefni þriggja manneskja. Það eru í sjálfu sér engar fréttir. Fréttnæmt er hinsvegar að aðferðin sem notuð var í þetta skiptið þykir sumum vera tilbrigði við einræktun.

Á læknaráðstefnu sem nýlega var haldin í Bandaríkjunum var skýrt frá frjóvgunartilraunum kínversks rannsóknarteymis sem tókst að gera erfðafræðilega og formfræðilega heilbrigð fóstur úr erfðaefni þriggja manneskja með svonefndum kjarnaflutningum. Tilraunir þessar voru þróaðar í dýrum, af Bandaríkjamönnum, en þar sem leyfilegum frjóvgunartilraunum voru þröng mörk sett þar í landi var aðferðin þróuð frekar í Kína, með ofangreindum árangri. Nú hafa slíkar tilraunir einnig verið bannaðar þar.

Konan sem tilraunin varð gerð á hafði áður gengið í gegnum nokkrar misheppnaðar tæknifrjóvgunaraðgerðir. Vanda konunnar, sem og margra annarra ófrjórra kvenna má rekja til galla í hvatberaerfðaefni, en það er að finna í umfrymi eggfruma.

Því var brugðið á það ráð að taka kjarnann úr frjóvguðu eggi konunnar og flytja hann inn í kjarnalausa eggfrumu annarrar konu sem innihélt heilbrigt hvatberaerfðaefni. Eftir þennan kjarnaflutning var heppnuðum fósturvísum komið fyrir í legi konunnar, og af þeim urðu þrjú fóstur.

Tilraunin, sem í byrjun gekk vonum framar, endaði þó að lokum með fósturmissi. Staðhæfa aðstandendur tilraunarinnar að hér sé í engu um að kenna frjógvunartækninni sjálfri heldur megi ástæður missisins rekja til líffræðilegra vandamála sem upp komu vegna fjölda fóstranna.

Tíðindin hafa skapað talsverð læti, og þykir mönnum hér hafa verið farið hættulega nærri þeim mörkum, siðferðilegum og lagalegum, sem lúta að

einræktun, en líkindin með einræktun og þessari frjóvgunartilraun felast einmitt í kjarnaflutningunum.

Þannig er nefnilega mál með vexti að nú þegar hefur fæðst í heiminn barn sem að á 3 erfðafræðilega foreldra. Það eru ekki fréttirnar. Þá var hinsvegar notuð önnur aðferð og ekki stuðst við kjarnaflutninga og það er í þessum mun sem æsingurinn liggur.

Vísindamennirnir þvertaka aftur á móti fyrir þennan samanburð, og segja fjarstæðukennt að líkja þessu saman. Í einræktun felist kjarnaflutningurinn í flutningi á erfðaefni úr ‚fullorðinni’ frumu í tóma eggfrumu sem síðan þurfi sérstaka meðhöndlun eða endurforritun til þess að geta þroskast eðlilega og orðið að fóstri. Í þessu tilviki sé hinsvegar um að ræða eðlilega frjóvgaðan kjarna, sem fluttur sé í kjarnalausa eggfrumu og þroskist eðlilega í framhaldi án nokkurrar meðhöndlunar.

Eftir alla einræktunarumræðuna, sem hefur verið hávær og eldfim í ljósi mögulegrar misnotkunar, virðist því sem að hræðslan við möguleika einræktunar sé e.t.v búin að skapa umhverfi laga og reglna sem að á sama tíma loka á aðra möguleika sem óþarfi er að hræðast. Þannig hafa tilraunir á sviði frjóvgana t.d verið takmarkaðar mjög sökum þessa.

Það er að minnsta kosti mjög miður ef að sú varkárni og forsjálni sem nauðsynlegt er að gæta gagnvart einræktun, komi þegar upp er staðið í veg fyrir framþróun og nýtingu vísinda á öðrum sviðum. Í þessu tilfelli í því að sjúklingum með frjóvgunarvandamál sé gert kleift að eignast börn.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.