Þrándur í götu friðar

arafat5.jpgGamli hryðjuverkaleiðtoginn Yasir Arafat er þrándur í götu friðar fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann er þó ekki réttdræpur þess vegna, eins og Ísraelar hafa gefið í skyn, en brotthvarf hans er engu að síður mikilvægur þáttur í að hægt verði að koma á friði á svæðinu.

arafat5.jpgÁstandið fyrir botni Miðjarðarhafs hefur ekki í langan tíma verið eins viðkæmt og um þessar mundir. Loftárás Ísraelsmanna á meintar hryðjuverkabúðir í Sýrlandi sýna svo ekki verður um villst að lítið þarf til að ófriðarbálið, sem geisað hefur á hernumdu svæðunum síðustu þrjú ár, breiðist um allt svæðið með tilheyrandi hörmungum.

Á síðustu vikum og mánuðum hefur komið betur og betur í ljós hvaða lykilhlutverki Yasir Arafat gegnir í því að viðhalda ófriðinum. Ísraelsmenn hafa lengi haldið því fram að Arafat, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir tíu árum, sé meinsemd sem beri að fjarlægja. Harðlínumenn í Ísrael eiga síst minnstan þátt í því hvernig málum er komið og þeirra ásökunum í garð friðardúfunnar Arafats hefur hingað til verið lítinn gaumur gefinn.

Sú skoðun hefur verið útbreidd að heimsókn Ariels Sharon, þá þingmanns í stjórnarandstöðu, í Haram as-Sharif-moskuna, helgan stað Palestínumanna, hinn 28. september árið 2000 hafi verði kveikjan að ófriðinum sem síðan hefur geisað. Það var hins vegar að tilstuðlan palestínsku heimastjórnarinnar, þ.e. Arafats sjálfs, sem ófriðarbálið var kveikt – heimastjórnin hvatti til uppreisnar. Skömmu áður hafði Arafat afþakkað gott friðarboð Baraks, þáverandi forsætisráðherra Ísrael.(*)

Síðan uppreisnin hófst hafa bæði Palestíumenn og Ísraelar mátt þola miklar hörmungar. Stöðugar skærur milli ísraelska hersins og palestínskra vígamanna hafa kostað margt saklaust fólk lífið. Þá hafa mörg hundruð óbreyttra borgara í Ísrael fallið í skelfilegum sjálfsmorðsárásum – sem eru í flestum tilvikum þrautskipulagðar.

Uppreisnin hefur hins vegar ekki skilað Palestínumönnum áleiðis í baráttu sinni fyrir sjálfstæði og betra lífi. Nýlega lét Mohammed Dahlan, sem var yfirmaður öryggismála í skammlífri ríkisstjórn Mahmouds Abbas, þau orð falla að uppreisn Palestínumanna hafi verið mistök. Hann segir að lífsskilyrði palestínsks almennings séu verri nú en þau voru áður en uppreisnin braust út. Abbas sagði af sér embætti fyrir þremur vikum eftir harðvítuga valdabaráttu við Yasser Arafat, leiðtoga Palestínumanna. Miklar vonir voru bundnar við að Abbas kæmi friðarferlinu af stað á nýjan leik, en Arafat kom í veg fyrir það.

Og Arafat er hvergi nærri hættur. Ahmed Qureia, nýskipaður forsætisráðherra Palestínumanna, tilkynnti Arafat eftir stormasaman fund miðstjórnar Fatah-samtakanna, stjórnmálaflokks Arafats, að hann ætlaði að segja af sér. Qureia nýtur líkt og Abbas virðingar út fyrir raðir Palestínumanna og þótti líklegur til að leiða Palestínumenn til betri vegar.

Arafat er auðvitað ekki eina hindrunin á veginum til friðar. Harðlínumenn í Ísrael eru einnig farartálmar og illskuöfl í arabaheiminum kynda undir óróa á svæðinu. Friðarferlið á sér marga óvini. Fæstir þeirra hafa hins vegar verið sæmdir friðarverðlaunum Nóbels.

————–


(*) Sjá pistil eftir undirritaðan frá 25. apríl 2002, Ábyrgð Arafats sem þjóðarleiðtoga.
Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.