Bush og skattalækkanir

IraqUn.jpgStrax í upphafi kjörtímabils George W. Bush sýndi forsetinn að efnahagsstjórn hans byggði að miklu leyti á skattalækkunum. Meirihluti bæði í efri og neðri deild bandaríska þingsins gerði honum kleift að lækka skatta um 1350 milljarða bandaríkadali næstu tíu árin þrátt fyrir mikla andstöðu demókrata sem óttuðust að fjárlagahallinn ykist í kjölfarið.

IraqUn.jpgÞegar kjörtímabil George W. Bush hófst, eftir ein umdeildustu úrslit í forsetakosningum í sögu Bandaríkjanna, spáðu margir því að innanríkismál fengju mun meiri athygli en utanríkismál.

Vegna hryðjuverkaárásar 11. september og atburðarásar sem enginn sá fyrir neyddust Bandaríkjamenn þó til að beina athygli sinni út fyrir landsteinana.

Kjörtímabil Bush hefur því einkennst af átökum í alþjóðastofnunum, frekar en í bandaríska þinginu og stríðinu gegn hryðjuverkum sem náði hámarki annars vegar í innrás í Afganistan, sem hófst 7. október 2001 og hins vegar í innrás í Írak ári seinna. Á meðan hafa innanríkismálin ekki fengið mikla athygli og beinist gagnrýni á störf forsetans að miklu leyti á stefnu hans í hagstjórn Bandaríkjanna.

Hvetja eða letja skattalækkanir?

Strax í upphafi kjörtímabils Bush sýndi forsetinn að efnahagsstjórn hans byggði að miklu leyti á skattalækkunum. Meirihluti bæði í efri og neðri deild bandaríska þingsins gerði honum kleift að lækka skatta um 1350 milljarða bandaríkadali næstu tíu árin þrátt fyrir mikla andstöðu demókrata sem óttuðust að fjárlagahallinn ykist í kjölfarið.

Rökin fyrir skattalækkunum voru sterk en því miður er ekkert einhlítt í þessum efnum.

Ef áform í tengslum við skattalækkanir gengju upp áttu menn von á því að hagkerfið tæki kipp upp á við; að neytendur og fyrirtæki kæmu fjármagni í umferð með aukinni neyslu og umsvifum sem aftur áttu að draga úr atvinnuleysi.

Ef hins vegar áhyggjur demókrata væru á rökum reistar myndi aukinn fjárlagahalli leiða til hærri vaxta og íþyngjandi lána fyrirtækja og neytenda. Slík áhrif myndu hvetja fyrirtæki til að minnka umsvif, leita sparnaðarleiða og segja upp starfsmönnum.

Bjartsýnustu spár sérfræðinga rættust ekki – en sú svartsýna hafði þó ekki yfirhöndina.

Þessar fyrstu skattalækkanirnar Bush sáu til þess að hagkerfið lenti mjúkri lendingu þó að þær dygðu ekki til að það næði sér á strik aftur.

Önnur tilraun

Annað ár Bush í embætti einkenndist m.a. af stórfelldu hneyksli í atvinnulífi landsins og er skemmst að minnast svika í tengslum við orkufyrirtækið Enron. Þær sviptingar gerður það m.a. að verkum að lítið varð um efnahagsbatann sem menn spáðu í kjölfar skattalækkana. Því var brugðið á það ráð að lækka skatta aftur, tólf mánuðum eftir fyrri lækkanir. Efnahagsbatinn lét þó ekki á sér kræla sem mátti að einhverju leyti skýra með lítilli trú á bandaríska markaðinn.

Forsetakosningar á næsta leiti

Nú þegar útgjöld vegna stríðsins í Írak eru farin að hafa sjáanlega áhrif á hagkerfið í Bandaríkjunum er ráðgert að lækka skatta enn aftur. Eflaust eiga margir skattgreiðendur eftir að gleðjast þegar þær komast í framkvæmd en eins verður spennandi að sjá hvort þær framkvæmdir skili tilætluðum árangri. Reynslan sýnir okkur að meira þarf til en beinar skattalækkanir. Ef ekki tekst að halda aftur af ríkisútgjöldum m.a. vegna herreksturs er óvíst að árangur náist. Eitt er þó víst. Árangur skattalækkananna á eftir að hafa úrslitaáhrif á val á næsta forseta Bandaríkjanna sem fer fram á næsta ári.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.