Framfarir í tækni og vísindum

Tækni og vísindi gegna lykilhlutverki í mótun og myndun þess samfélags sem mannkynið hefur þróað með sér. Siðmenning okkar grundvallast á þeim tæknibyltingum sem átt hafa sér stað og þeim uppgötvunum sem gerðar hafa verið.

Tækniþróun og framfarir í vísindum hafa mótandi áhrif á samfélagið. Siðmenning okkar grundvallast á þeim tæknibyltingum sem átt hafa sér stað og þeim uppgötvunum sem gerðar hafa verið. Með tækninýjungum er reynt að mæta þörfum og kröfum mannkyns, auka lífsgæði og tryggja öryggi þess. Auk þess hafa tækniframfarir áhrif á hvernig við nálgumst lausnir á félagslegum vandamálum og jafnframt hafa tækniframfarir áhrif á efnahagslegan hagvöxt.

Það sem einkennir aðferðir mannkyns til að takast á við vandamál er að finna nýjar tæknilegar lausnir með því að hagnýta þá þekkingu sem fyrir er. Þannig þróum við sífellt nýjar aðferðir sem gera okkur kleift að sigrast á öðrum vandamálum og leysa þannig ný verkefni hraðar og betur. Á þennan hátt tekst okkur að sífellt auka þekkinguna og á sama tíma auka hæfni til að takast á við ný verkefni.

Þegar tæknilegar framfarir mannkyns eru skoðaðar í sögulegu samhengi sést að þróunin hefur gerst í ákveðnum stökkum. Einhver byltingarkennd hugmynd eða uppgötvun opnar nýja möguleika og gerir það að verkum að margar nýjar spurningar vakna en jafnframt er nýjum þörfum og kröfum mannkyns mætt með hagnýtingu þessarra hugmynda í fyllingu tímans. Vesturlandabúum er tamt að sjá hlutina og leggja mat á fortíðina með því að líta á að tæknileg þróun sé með þeim hætti að eitt leiði af öðru. Hins vegar er í sjálfu sér ekkert sem segir að þróunarkenning Darwins og afstæðiskenning Einsteins hafi nauðsynlega þurft að vera uppgötvaðar í þeirri tímaröð sem raun bar vitni. Hins vegar er afar ósennilegt að hægt sé að átta sig á báðum þessum kenningum án þess að kunna að kveikja eld. Eðlilegt er því að líta á tækniframfarir sem þróun eða stökk frá einu tæknistigi yfir á annað.

Erfitt er að átta sig á því hvort tæknilegar framfarir hafi í eðli sínu einhvern tilgang annan en að gera lífið léttara, auka lífsgæði og tryggja öryggi okkar. Ef til vill stafa tæknilegar framfarir ekki af öðru en hæfileika mannsins að leysa úr verkefnum með tæknilegum aðferðum og þekkingu. Hins vegar er erfitt að ímynda sér siðmenningu sem beitir ekki tæknilegum aðferðum og hagnýtir ekki þekkingu til þess að auka lífsgæðin.

Tæknilegt stig siðmenningar ætti því að einhverju leyti að endurspeglast í lífsgæðum, því öryggi sem búið er við og ekki síst í möguleikanum til að lifa af. Undanfarin ár hefur verið nokkuð stöðug fólksfjölgun, mannkynið hefur tvöfaldast á um 40 ára fresti. Þessi veldisvöxtur getur náttúrulega ekki haldið áfram endalaust því að jörðin er ekki nógu stór til þess. Áframhaldandi tækniframfarir með tilheyrandi fólksfjölgun munu því óhjákvæmilega kalla á enn frekari tækniframfarir til leysa úr þeim vanda sem fólksfjölgunin myndar, væntanlega með búsetu á öðrum plánetum.

Það má því segja að framfarir í tækni krefjist og kalli á enn frekari framfarir. Líkja má ferlinu við nokkurs konar vél sem knúin er áfram af getu okkar til að finna sífellt fleiri tæknilegar lausnir og afla nýrrar þekkingar. Ljóst er að tæknin hefur búið til vandamál sem við verðum að leysa sennilega löngu áður en kemur að því að við getum fjölgað plánetum í byggð. Aðkallandi verkefni er það vaxandi vandamál sem stafar af mengun, afleiðingar núverandi tæknistigs, samfara hugsanlegum óafturkræfum skemmdum á búsetuskilyrðum sé ekki fundin lausn í tæka tíð.

En hvað gerist þegar tæknin hefur ekki undan að leysa þau vandamál sem hún skapar? Er hugsanlegt að tæknivædd siðmenning sé í raun óstöðugt ástand dæmt til að tortímast eða er tryggt að ný þekking verði til nógu hratt? Að minnsta kosti er það líklegt að verði hnignun eftir að ákveðnu tæknistigi er náð leiði hnignunin til tortímingar siðmenningarinnar. Ef til vill náði mannkynið því stigi með gerð kjarnorkusprengjunnar og öðlaðist þar með getuna til að eyðileggja nánast allt líf á jörðinni, hver veit?

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)